Þroskahjálp og Einhvefusamtökin telja þessa stefnumótun vera mjög mikilvæga.
Samtökin vilja enn árétta mikilvægi þess að allir hafi aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og að enginn sé skilinn eftir hvað þá þjónustu varðar. Því miður er það svo í dag að aðgengi fólks með einhverfu og/eða þroskahömlun er mjög takmarkað og erfitt að slíkri þjónustu. Mjög brýnt er að úr því verði bætt sem fyrst, enda um alvarlega mismunun á grundvelli fötlunar að ræða sem fer í bága við mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru áréttuð sérstaklega í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja.
Þjónusta fyrir fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu þarf að vera inni í öllum geðheilsuteymum, með stuðningi frá ráðgjafateymi og mjög mikilvægt er að sett verði á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð þar sem það teymi gæti haft aðsetur.
Þá viljum við árétta þörf fyrir þjónustu í almennum úrræðum, aðgang fyrir alla að teymunum og einnig mikilvægi sálfræðiþjónustu. Sálfræðingar heilsugæslunnar eru ekki að anna því sem þarf og hafa þar að auki ekki sérþekkingu varðandi fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu. Því er þörf á niðurgreiðslu og fólk verður að geta valið sér sálfræðing eftir þeirra sérhæfingu, ekki bara farið til einhverra ákveðinna sem Tryggingastofnun hefur valið.
Samtökin leggja því sérstaka áherslu á rétt til þjónustu án aðgreiningar og niðurgreiddan sálfræðikostnað.
Þá vilja Einhverfusamtökin og Þroskahjálp enn ítreka brýna þörf fyrir fíkniúrræði fyrir fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu. Sú aðgerð hefur verið inni í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks en ekkert verið unnið með hana.
Virðingarfyllst,
Bryndís Snæbjörndsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálp
Sigrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.