Landssamtökin Þroskahjálp hafa síðastliðin 12 ár barist fyrir því að skoðað verði hvort ekki væri ástæða til að greiða öllum börnum sem dvöldust á stofunum fyrir fatlað fólk sanngirnisbætur vegna mögulegra skaðlegra afleiðinga fyrir þau af dvöl þeirra þar.
Samtökin styðja því heilshugar þær breytingar sem hér eru lagðar til, þ.e.a.s. að ákvörðun sanngirnisbóta til þeirra sem voru vistaðir sem börn á heimilum fyrir fatlað fólk verði ekki grundvölluð á sérstökum úttektum á hverjum og einum stað, heldur verð byggt á niðurstöðu nefndar sem kannaði vistun barna á Kópavogshæli og lagði til að fatlaðir einstaklingar sem dvöldust sem börn á öðrum stofnunum fengju sambærilegan rétt hvað varðar sanngirnisbætur og þeir sem dvöldust sem börn á Kópavogshæli.
Eðlilegt sýnist vera að við ákvörðun bótafjárhæðar verði litið til hversu langan tíma viðkomandi dvaldist á stofnuninni sem barn.
Samtökin telja að með því að fella brott lög nr. 26/2007, um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist-og meðferðaheimila fyrir börn, verði tryggt að þeir fötluðu einstaklingar sem dvöldust sem börn á stofnunum sem enn eru í rekstri fái sambærilegan rétt til sanngirnisbóta og þeir sem dvöldust sem börn á stöðum sem ekki eru lengur í rekstri, enda er augljóst að önnur niðurstaða stenst alls ekki m.t.t. jafnræðisreglna laga og sjónarmiða um sanngirni.
Landsamtöki Þroskahjálp leggja mikla áherslu á að afgreiðslu þessara verði flýtt eins og nokkur kostur er og að sanngirnisbætur verði að fullu greiddar til þeirra sem eiga rétt til þeirra í einu lagi á árinu 2021 en greiðslur dreifist ekki yfir lengri tími.
Landssamtökin Þroskahjálp áskilja sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri á síðari stigum við gerð frumvarpsins og við þinglega meðferð þess.
Einnig áskilja samtökin sér rétt að gera frekari kröfur fyrir hönd fatlaðra einstaklinga sem fyrirhugað frumvarp nær ekki til.
Umsögn í samráðsgátt má skoða hér