Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform heilbrigðisráðherra um að móta skýrari lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldi og um sérstaklega hættulega einstaklinga

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform heilbrigðisráðherra um að móta skýrari lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldi og um sérstaklega hættulega einstaklinga

Rannsóknir sýna og staðfesta að fatlað fólk er mun líklegra til að vera beitt ofbeldi af öllu tagi, þ.m.t. heimilisofbeldi, en aðrir hópar fólks.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja það, sbr. 4. gr. samningsins. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að lögfesta eigi samninginn. Þá hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt að gerð skuli landsáætlun um innleiðingu á samningnum og vinna við þá áætlun er hafin undir verksstjórn félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytis.

Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks er lögð mikil áhersla á skyldur ríkja til að vernda fatlað fólk fyrir ofbeldi af öllu tagi. 16. gr. samningsins hefur yfirskriftina Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum og hljóðar svo:


     1.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, þar á meðal kynbundnum hliðum þessa.
     2.      Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir hvers konar misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar, þar á meðal með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess og umönnunaraðilum viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með upplýsingagjöf og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að við þá þjónustu þar sem vernd er veitt sé tekið mið af kyni, aldri og fötlun. 
     3.      Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi árangursríkt eftirlit með allri aðstöðu og áætlunum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki. 
     4.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að efla líkamlegan, vitsmunalegan og sálrænan bata, endurhæfingu og félagslega enduraðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í einhverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og enduraðlögun skulu fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, reisn og sjálfræði viðkomandi einstaklings, þar sem tillit skal tekið til kyn- og aldursbundinna þarfa. 
     5.      Aðildarríkin skulu taka upp árangursríka löggjöf og stefnu, þar á meðal löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til að tryggja að misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki verði greindar, rannsakaðar og eftir atvikum ákært vegna þeirra.

Í 25. gr. samningsins er fjallað um rétt fatlaðs fólks til heilbrigðisþjónustu. Þar segir m.a.:

Aðildarríkin skulu sérstaklega gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, þar á meðal á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, meðal annars með vitundarvakningu um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun og útbreiðslu siðferðilegra viðmiða fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilbrigðisþjónustu …

Þá er í samningnum lögð sérstök áhersla á rétt fatlaðs fólks til viðeigandi aðlögunar á öllum sviðum og skyldu stjórnvalda til að tryggja það, þ.m.t. hvað varðar heilbrigðisþjónustu og vernd gegn ofbeldi , sbr. 5. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun. Í 2. gr. samningsins er viðeigandi aðlögun skilgreind svo:

„viðeigandi aðlögun” merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi,

Landssamtökin Þroskahjálp leggja mjög mikla áherslu á að þess verði sérstaklega gætt við framhald þess máls, sem hér er til  umsagnar, að taka fullt tillit til aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks og réttinda þess, sem vernduð og áréttuð eru í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og þeirra skyldna sem á stjórnvöldum hvíla samkvæmt samningnum.

Í því sambandi vilja samtökin á þessu stigi benda á eftirfarandi atriði:

  • Fólk með þroskahömlun eða skyldar fatlanir og einhverft fólk hefur mögulega ekki fulla getu til að skýra það sem viðkomandi hefur gengið í gegnum (ofbeldi á heimili) og þekkir mögulega ekkert annað og þekkir ekki rétt sinn.
  • Afar mikilvægt að réttindagæsla fyrir fatlað fólk sé kölluð til þegar grunur vaknar um ofbeldi.
  • Nauðsynlegt er að heilbrigðisstarfsfólk og aðrir sem að málum koma sé meðvitað um að ofbeldismaðurinn getur verið tengdur öðru starfsfólki eða aðstandanda, sem getur valið þolanda erfiðleikum vegna þess hve háður hann er brotamanni. T.d. ef einstaklingur í búsetuþjónustu verður fyrir ofbeldi af hálfu yfirmanns, þá gætu aðrir starfsmenn mögulega síður staðið vörð um hagsmuni þolanda vegna stöðu sinnar (yfirmaður – undirmaður).
  • Oft er erfitt fyrir fatlað fólk að flýja heimili sín vegna þess að heimilismaður veitir aðstoð við athafnir daglegs lífs, heilbrigðis- og hjálpartæki eru staðsett á heimili og fatlaður einstaklingur sem í hlut á hefur ekki aðgang að fjármunum.
  • Ekki er hægt að aðhafast í málum án þess að áætlun sé um hvernig tryggja eigi öryggi fatlaðs fólks á nýjum stað eða fjarlægja brotamann.

 

Samtökin lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs varðandi það mál sem hér er til umsagnar og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda, sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.