Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á reglugerð um útlendinga

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á reglugerð um útlendinga

       13. september 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.

Samtökin telja að þau skilyrði sem eru í þeim ákvæðum reglugerðarinnar, sem hér eru til umsagnar séu allt of þröng, ómannúðleg og engan veginn í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt fjölþjóðlegum mannréttindasamningum.

Ef um fatlað barn eða fullorðinn einstakling er að ræða eru í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks mörg ákvæði sem hafa mikla þýðingu varðandi það mál sem hér er til umsagnar.  Samtökin nefna þar sérstaklega 7. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina ”Fötluð börn” þar segir m.a.:

Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. 

Í 11. gr. samningsins er vkeðið á um sérstakar skyldur gagnvart fötluðu fólki við aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og í 23. gr. er fjallað um virðingu fyrir og vernd fjölskyldulífs fatlaðs fólks.

Þá eru þær kröfur og skilyrði, sem gerðar eru hvað varðar þann einstakling sem umsókn um fjölskyldusameiningu byggir á, augljóslega í engu samræmi við þær aðstæður, sem fólk sem getur fallið undir þá skilgreiningu býr almennt við í íslensku samfélagi og raunhæf tækifæri sem það hefur þar. Kröfurnar og skilyrðin eru því mjög ómannúðleg og virðast hafa þann skýra tilgang að gera fjölskyldusameiningar nánast ómögulegar.

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Katarzyna Kubiś, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.