Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda)
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu eða skyldar fatlanir og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmála SÞ.
Samtökin fagna því að gera eigi breytingar á lögum með það að markmiði með tryggja betur réttindi fatlaðs fólks sem áréttuð eru í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja, þ.m.t. með því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum í því skyni, sbr. 4. gr. samningsins. Ákvæði 13. gr. samningsins hafa sérstaka þýðingu hvað varðar frumvarpið sem hér er til umfjöllunar. Yfirskrift greinarinnar er “Aðgangur að réttinum” og hljóðar hún svo :
1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum til jafns við aðra, meðal annars með aðlögun málsmeðferðar og aðlögun með tilliti til aldurs í því skyni að greiða fyrir árangursríkri þátttöku þess, beinni eða óbeinni, þar á meðal sem vitni, í allri málsmeðferð, þ.m.t. á rannsóknarstigi eða öðrum fyrri stigum máls.
2. Í því skyni að tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum skulu aðildarríkin efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, þar á meðal lögreglu og starfsfólk fangelsa. (Feitletr. Þroskahjálp).
Ljóst er að fatlaður einstaklingur, sem er sakborningur í máli nýtur samkvæmt samningnum, eins og brotaþoli og vitni, réttar til viðeigandi aðlögunar hvað varðar málsmeðferð, sbr. 13. gr. og 4. gr. hans sem hefur yfirskriftina „Jafnrétti og bann við mismunun“.[1] Sé þess ekki gætt er um mismunun á grundvelli fötlunar að ræða.
Með vísan til framangreinds telja samtökin nauðsynlegt að skoðað verði sérstaklega hvort ekki þurfi að breyta ákvæðum í frumvarpinu til að tryggja aðlögun málsmeðferðar þegar í hlut á sakborningur, sem er með þroskahömlun og/eða einhverfu og/eða geðrænar raskanir og að tryggt verði að hann njóti viðeigandi aðlögunar, s.s. hvað varðar stuðning í málsmeðferðinni allri, þ.m.t. við skýrslutökur og að ákvæði í 1. gr. frumvarpsins varðandi sérútbúið húsnæði eigi einnig við þegar um fatlaða sakborninga er að ræða.
Landssamtökin Þroskahjálp áskilja sér rétt til að koma fleiri ábendingum og athugasemdum varðandi frumvarpið á framfæri á síðari stigum, s.s. við þinglega meðferð þess.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.
Nálgast má frumvarpsdrögin sem umsögnin á við
hér.
[1] 1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
4. Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. (Feitletr. Þroskahjálp).