Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum.

Í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, er mælt fyrir um „að fatlað fólk eigi rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra" og að „óheimilt sé að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi." Þá segir í bráðabirgðaákvæði í lögunum að fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skuli bjóðast aðrir búsetukostir.

Í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018, sem skilað var til félags- og vinnumarkaðsráðherra sl. vor, kemur fram að 323 fatlaðir einstaklingar eru á biðlista eftir húsnæði og 163 búa í herberjasambýlum og að samkvæmt því þurfi að byggja allt að 486 íbúðir til að eyða biðlistum og leggja niður herbergjasambýli. 

Margt fólk með þroskahömlun eða skyldar fatlanir hefur beðið eftir íbúð, sem það á lagalegan rétt á, mjög lengi. Dæmi eru um að fólk hafi þurft að bíða yfir áratug og jafnvel lengur eftir að eignast eigið heimili. Með þessari óforsvaranlegu og ólöglegu framkvæmd er vegið mjög alvarlega að margvíslegum mikilvægum mannréttindum, s.s. réttinum til sjálfstæðs og eðlilegs lífs, og réttinum til að eiga einkalíf og fjölskyldulíf.

Þetta er ólíðandi ástand sem ábyrg stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga verða að setja í algjöran forgang að bæta úr. Samtökin leggja mikla áherslu á að framkvæmd lagaákvæða um niðurlagningu herbergjasambýla / stofnana, þar sem fatlað fólk býr, verði hraðað með því að ráðast nú þegar í stórátak við byggingu íbúða fyrir fatlað fólk.

Með vísan til þess sem að framan er rakið fagna Landssamtökin Þroskahjálp þeim drögum að frumvarpi sem hér eru til umfjöllunar og hvetja hlutaðeigandi stjórnvöld og Alþingi til að hraða meðferð málsins þannig að frumvarpið verði sem fyrst að lögum, sem mun greiða fyrir því að sveitarfélög standi við lagalegar skyldur sínar til að fatlað fólk hafi tækifæri til húsnæðis og eigin heimilis, án óforsvaranlegs dráttar. 

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

 Málið sem umsögnin fjallar um má finna í samráðsgátt stjórnarráðsins hér.