Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að skapa eigi eina miðlæga þjónustugátt í stað þess að hver og ein ríkisstofnun, sveitarfélag og fleiri reki innri vef. Það einfaldar þeim sem nýta sér tæknina að læra á eitt kerfi og fylgjast með á einum stað. Hins vegar hafa ekki allir færni til þess að nýta sér stafræna þjónustu á borð við þessa og munu aldrei öðlast þá færni sökum fötlunar, veikinda eða aldurs. Því er mikilvægt, eins og fram kemur í 5. gr., að einstaklingar geti kosið að fá gögnin send með öðrum hætti. Samtökin velta fyrir sér hvernig eigi að tryggja, að einstaklingar sem ekki hafa fengið upplýsingar um miðlægu þjónustugáttina og hafa því ekki óskað eftir því að fá gögn send með bréfpósti, viti af ákvörðunum hins opinbera. Þetta getur varðað mikilsverð réttindi hópsins, bæði réttarfarsleg og hvað varðar þjónustu sem einstaklingurinn á rétt á.
Þá hvetja samtökin yfirvöld til þess að tryggja að persónulegir talsmenn fatlaðs fólks geti fengið umboð til þess að nálgast innri vef umbjóðanda síns, án þess að einstaklingurinn sjálfur þurfi að einkenna sig enda hefur margt fatlað fólk ekki aðgang að rafrænni auðkenningu sem er þeim aðgengileg, sem er miður. Því er mikilvægt að persónulegir talsmenn auðkenni sig sjálfir inn á þjónustugáttina, til að tryggja að rekjanleg slóð sé með þeim sem sýsla með mál fatlaðs fólks fyrir þeirra hönd.
Samtökin óska eftir að fá fund með fjármála- og efndahagsráðuneytinu til að gera ráðuneytinu betur grein afstöðu sinni og áhyggjum varðandi efni frumvarpsdraganna.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.
Nálgast má drög að frumvarpi sem umsögnin á við hér.