Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að lagafrumvarpi um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík
12. febrúar 2024
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk fötluð börn og ungmenni og. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Þroskahjálp rekur húsbyggingasjóð sem byggir og kaupir íbúðir sem eru leigðar fötluðu fólki. Markmið með rekstri húsbyggingasjóðs Þroskahjálpar er að greiða fyrir að ríki og sveitarfélög standi betur og fyrr við lagalegar skuldbindingar sínar um að sjá fötluðu fólki fyrir hentugu húsnæði fyrir leigugjald sem það ræður við. Húsbyggingasjóður á nú og rekur um 90 íbúðir á nokkrum stöðum á landinu sem leigðar eru fötluðu fólki samkvæmt ákvörðun viðkomandi sveitarfélaga.
Landssamtökin Þroskahjálp eiga ekki íbúðir í Grindavík en taka engu að síður heilshugar undir þær ábendingar, óskir og réttlætisrök sem er að finna í umsögn Brynju leigufélags ses., dags. 12. febrúar 2024, um það mál sem hér er til umsagnar.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp
Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér