Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um drög að leiðbeiningum og ramma að áliti sveitarfélaga með undir 250 íbúa um stöðu og getu þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum
Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri í sambandi við það mál sem hér er til umsagnar.
Samtökin telja mikla hættu á að fámenn sveitarfélög hafi ekki burði og aðstæður til að bjóða upp á margbreytilega og stundum mjög sérhæfða þjónustu sem þeim ber að gera samkvæmt lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og öðrum lögum og reglum sem varða mikilsverð réttindi fatlaðs fólks. Þá er fullt tilefni til að hafa af því verulega áhyggjur að það geti erfitt fyrir fámenn sveitarfélög að hafa starfsfólk í þjónustu sinni sem býr yfir fullnægjandi og sérhæfðri menntun og þekkingu sem nauðsynleg er og krafa er gerð um þeim lögum og reglum sem við eiga.
Þá er í þessu sambandi nauðsynlegt að líta til þess að í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, eins og þeim var breytt með lögum nr. 37/2018, eru mikilvæg nýmæli sem fela í sér auknar skyldur sveitarfélaga á þessu sviði, s.s. skyldur til að hafa starfsfólk með tiltekna fagmenntun og ákvæði um notendaráð og notendasamráð og um þjónustuteymi með fullnægjandi sérfræðiþekkingu. Augljóst er að mjög erfitt getur verið fyrir fámenn sveitarfélög að uppfylla þessi skilyrði og skyldur sem af þeim leiða svo vel sé.
Þá er óhjákvæmilegt að benda á að ef sveitarfélög eru fámenn og mörg verður enn örðugra fyrir ríkið að standa við þá lagalegu skyldu sína að tryggja nægilegt jafnræði og samræmi milli búsetusvæða fatlaðs fólks. Í því sambandi verður að líta til þess að það er óforsvaranlegt ef íbúum landsins er mismunað á grundvelli búsetu hvað varðar þjónustu þar sem í húfi eru mjög miklir hagsmunir og réttindi þeirra sem í hlut eiga og mjög oft er þjónustan forsenda þess að þeir sem á henni þurfa að halda fái notið mikilsverðra mannréttinda í skilningi laga.
Einnig verður að líta til þess að ósamræmi og/eða ójafnræði á milli búsetusvæða að þessu leyti vegur einnig mjög alvarlega að tækifærum fatlaðs fólks til að flytjast á milli svæða og mest að tækifærum þeirra sem hafa miklar þjónustuþarfir vegna fötlunar sinnar og eru því mest háðir þjónustunni. Rétturinn til að ráða búsetu sinni er mannréttindi í skilningi stjórnarskrár og mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur fullgilt og sú skylda hlýtur að hvíla á ríkinu að haga lögum og reglum með þeim hætti að fatlað fólk eigi raunhæf tækifæri til að njóta þess réttar.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.
[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu og skyldar fatlanir og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist.