Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálp drögum að reglugerð um ráðgjöf, sáttameðferð og samtal að frumkvæði barns á grundvelli barnalaga Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum. Samtökin lýsa yfir sérstakri ánægju með að í drögunum er staða barns og stuðningur við það í sáttameðferð skilgreind og benda jafnframt á mikilvægi þess að fötluðum börnum sé tryggð viðeigandi aðlögun og fullnægajndi aðstoð í sambandi við það. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er að finna skýrt ákvæði um skylduna til þess að veita fötluðu fólki viðeigandi aðlögun. Viðeigandi aðlögun er skilgreind svo í 2. gr. samningsins: „viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi, Í ljósi ofangreinds vilja samtökin koma á framfæri mikilvægi þess að í þeim tilvikum sem sáttameðferð og ráðgjöf varða hagsmuni fatlaðra barna eða fatlaðs fólks hafi ráðgjafi sem annast sáttameðferð sérþekkingu og skilning á málefnum og þörfum fatlaðs fólks almennt og fatlaðra barna sérstaklega. Samtökin lýsa yfir eindregnum vilja til samráðs ráðgjafar í þessum efnum og vísa í því sambandi til 3. tl. 4. gr. samnings SÞ þar sem segir: Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. Virðingarfyllst, Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna.
Nálgast má mál sem umsögn á við hér.