Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um tengiliði og málstjóra samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna.
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og heimsmarkmiðum SÞ.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki mannréttindi og raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar.
Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að unnið sé að reglugerð um tengiliði og málastjóra í þágu farsældar barna sem hefur það hlutverk að greiða fyrir því að þjónusta við börn sé samfelld og heildstæð þvert á þjónustukerfi, óháð því hvort ríki eða sveitarfélög beri ábyrgð á henni. Í ljósi þess að fötluð börn og ungmenni eru líkleg til þess að þurfa á 3. stigs þjónustu að halda innan margra kerfa þar á meðal heilbrigðiskerfisins, árétta samtökin mikilvægi þess að skýrt sé annars vegar á hvers forræði skipan málastjóra og tengiliða er og hins vegar að tryggt sé með óyggjandi hætti að viðkomandi tengiliður og málastjóri hafi tíma, svigrúm og fullt umboð til þess að sinna hlutverki sínu.
Virðingarfyllst,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálp
Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum fatlaðra barna, ungmenna
Nálgast má reglugerðardrögin sem umsögnin á við hér.