Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá fjárlagafrumvarpið sent til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við fjárlaganefnd og Alþingi varðandi það.
Almennt um gerð frumvarpsins.
Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt og þar með til að framfylgja ákvæðum samnningsins. Í samningnum er mikil áhersla á skyldu stjórnvalda til að hafa samráð við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess. Í 3. tl. 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ segir:
Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Þann 31. maí 2017 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu félags- og jafnréttismálaráðherra um „Stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021.“ í upphafi áætlunarinnar segir:
Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 og að gert verði ráð fyrir framkvæmd hennar við gerð fjárlaga.
Í áætluninni er m.a. eftirfarandi framkvæmd:
F.6. Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð.
Markmið: Heildarmynd af samfélagslegum stuðningi við fatlað fólk sé ljós.
Lýsing: Við fjárlagagerð verði skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með jafnrétti í huga. Áhrif útgjaldabreytinga á sviði velferðar, heilbrigðis og menntunar á stöðu og líf fatlaðs fólks verði skoðuð. Sérstaklega verði hugað að stöðu ungs fólks þegar það hefur sjálfstætt líf og áætlunum framfylgt um að útrýma herbergjasambýlum í áföngum. Skipaður verði stýrihópur með fulltrúum samstarfsaðila.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, samtök fatlaðs fólks og sveitarfélög.
Tími: 2017–2021.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælanlegt markmið: Breyttu verklagi komið á.
Þarna eru samtök fatlaðs fólks tilgreind sem samstarfsaðilar um ofangreinda framkvæmd. Þrátt fyrir það hafa Landssamtökin Þroskahjálp[1] ekkert heyrt frá hlutaðeigandi stjórnvöldum um þessa framkvæmd vegna gerðar fjárlagafrumvarps 2020, frekar en við gerð annarra fjárlagaáætlana frá því umrædd þingsályktun um framkvæmdaáætlun var samþykkt á Alþingi 31. maí 2017. Samtökin hafa mikla ástæðu til að ætla að önnur samtök fatlaðs fólks hafi ekki heldur heyrt neitt frá hlutaðeigandi stjórnvöldum varðandi þessa framkvæmd.
Með vísan til þess sem að framan er rakið skora Landssamtökin Þroskahjálp á fjárlaganefnd að kalla eftir upplýsingum frá velferðarráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu um hvernig staðið var að umræddri framkvæmd sem Alþingi samþykkti með þingsályktun 31. maí 2017 við gerð þessa fjárlagafrumvarps.
Örorkulífeyrir.
Landssamtökin Þroskahjálp sendu fyrirspurn til forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar í apríl á þessu ári um með hvernig eigi að bæta stöðu þess hóps sem býr við alverstu kjörin í íslensku samfélagi, þ.e.a.s. þeirra sem engar tekjur hafa aðrar en bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Samtökunum hafa enn ekki borist nein svör eða viðbrögð við fyrirspurninni og ekki er að sjá að nokkur bót verði á í frumvarpi til fjárlaga vegna ársins 2020.
Í fyrirspurn sinni lýstu Landssamtökin Þroskahjálp yfir áhyggjum vegna stöðu lífeyrisþega sem draga þurfa fram lífið einvörðungu á bótum Tryggingastofnunar ríkisins. Þær bætur eru af óútskýrðum og órökstuddum ástæðum umtalsvert lægri (um 30.000 kr.) en atvinnuleysisbætur, sem enginn er þó of sæll af. Staðreyndin er hins vegar sú að atvinnuleysisbætur eru tímabundið ástand á meðan örorkuþegar eru í þessari kröppu stöðu árum saman og margir allt sitt líf, án tækifæra til þess að afla sér annarra tekna.
Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020 er tilgreint á blaðsíðu 320 að helstu áherslur frumvarpsins séu að styrkja stöðu öryrkja og fatlaðs fólks og jafnframt að fólk með skerta starfsorku geti lifað innihaldsríku og sjálfstæðu lífi. Loforðin eru góð og í fullu samræmi við stefnuskrá ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um jöfn tækifæri, en þar segir:
„Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Til að svo megi verða þarf að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.“ (blaðsíða 28).
Því vekur það undrun Landssamtakanna Þroskahjálpar hver framkvæmd þessara áherslna er samkvæmt fjárlagafrumvarpinu en á blaðsíðu 321 í frumvarpi til fjárlaga stendur: „Hækkunum á bótum almannatrygginga nema 3,5% frá og með 1. janúar 2020.“ Landssamtökin Þroskahjálp lýsa mikilli furðu yfir þessu því afar erfitt er augljósleg að sjá hvernig hækkun bóta hjá þeim sem nú hafa 247.000 kr. á mánuði um 8.645 kr. eigi að tryggja fólki innihaldsríkt og sjálfstætt líf.
Örorkuþegar hafa ítrekað setið eftir á síðustu árum. Þessi hækkun sem boðuð er í frumvarpi til fjárlaga vegna ársins 2020 er langt undir hækkun lágmarkslauna og verði umrætt frumvarp að lögum mun fólk með skerta starfsorku sitja eftir með sárt ennið enn eina ferðina.
Þá er í þessu sambandi óhjákvæmilegt að minna ríkisstjórnina og Alþingi á 69. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sem hljóðar svo:
Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. (Undirstr. Þroskahj.).
Námstækifæri fyrir fólk með þroskahömlun. – Fjölmennt.
Að undanförnu hefur verið mikil umræða í samfélaginu um hversu takmörkuð tækifæri ungmenni með þroskahömlun hafa til náms og/eða atvinnu þegar þau hafa lokið framhaldsskóla. Ýmsar upplýsingar hafa komið fram sem varpa skýru ljósi á þá miklu mismunun og skort á tækifærum sem þessi ungmenni þurfa að þola vegna fötlunar sinnar. Hlutaðeigandi ráðherrar hafa viðurkennt vandann og talað um að þeir hafi ríkan vilja til grípa strax til markvissra aðgerða til að bæta úr.
Landssamtökin Þroskahjálp hafa ítrekað bent á nokkur atriði sem hægt er að gera nú þegar til að breyta þessum aðstæðum. Fjölmennt veitir fólki með þroskahömlun tækifæri til margvíslegrar menntunar. Fjárveitingar til Fjölmenntar hafa þó farið hratt minnkandi að raunvirði mörg undanfarin ár og er nú svo komið að þar er mun minna í boði fyrir fólk með þroskahömlun en var fyrir nokkrum árum.
Það hlýtur því að vekja mikla furðu og vonbrigði að sjá að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir niðurskurði til verkefna á þessu sviði og að þar skuli vera gert ráð fyrir 15,1 milljón króna lækkun til Fjölmenntar miðað við framlag ársins 2019.
Fjölmennt hefur það hlutverk að sinna símenntun fullorðins fatlaðs fólks sem þarfnast sérstaks stuðnings í námi. Er þar einkum litið til fólks með þroskahömlun, einhverfurófsraskanir og geðfötlun. Fjölmennt hefur aðsetur í Reykjavík þar sem kennsla fólks með flóknar þjónustuþarfir fer fram auk þess að sinna ráðgjöf um allt land. Þá eru í gildi samningar við símenntunarstöðvar um allt land um símenntun fatlaðs fólks á landsbyggðinni.
Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að franmfylgja ákvæðum hans. Samningurinn kveður skýrlega á um rétt fatlaðs fólks til menntunar á öllum skólastigum. Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja að slík menntun sé í boði. Það er því óskiljanlegt að gert sé ráð fyrir lækkun framlaga til Fjölmenntar sem er nánast eina menntastofnunin sem sinnir námi fyrir þennan hóp. Ef af þessari lækkun verður þýðir það niðurskurð á námstilboðum sem eru of fá fyrir.
Minnt skal á að þessum hópi bjóðast afar fá og takmörkuð námstækifæri á vegum annarra menntastofnana í landinu. Menntavísindasvið Háskóla Íslands tekur inn 15 nemendur annað hvert ár á diplómabraut fyrir fólk með þroskahömlun. Við Myndlistaskólann í Reykjavík bjóðast nú 8 pláss á heildstæðri braut fyrir þennan hóp. Annað námsframboð er nánast eingöngu á vegum Fjölmenntar sem undanfarin ár hefur mátt draga úr námstilboðum ár frá ári vegna stöðugs raunniðurskurðar af hálfu ríkisins undanfarin ár. Að auki á þessi hópur oft erfitt með, fötlunar sinnar vegna, að nýta tómstundir sem í boði eru í þjóðfélaginu og atvinnutækifæri eru fá. Starfsemi Fjölmenntar er þessum hópi því afar mikilvæg og niðurskurður í starfsemi Fjölmenntar hefur mikil áhrif á lífsgæði nemenda.
Niðurskurður á starfsemi Fjölmenntar bitnar ekki síst á ungu fólki sem nýlokið hefur námi á starfsbrautum framhaldsskóla. Í þessu sambandi skal bent á að í vor var að störfum nefnd á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis sem hafði það hlutverk að koma með tillögur að auknu námsframboði fyrir þetta unga fólk. Það var því tilefni til bjartsýni varðandi það að fjármagn til málaflokksins yrði aukið árið 2020. Það eru því mikil vonbrigði og alvarlegt mál að fyrirhugað sé að skerða framlög til Fjölmenntar og málaflokksins í heild.
Með vísan til þess sem að framan er rakið skora Landssamtökin Þroskahjálp á fjárlaganefnd að beita sé fyrir að framlög til Fjölmenntar og málflokksins í heild verði hækkuð verulega.
Réttindagæsla fyrir fatlað fólk.
Landssamtökin Þroskahjálp telja að skilvirkt og gott eftirlit með að fatlað fólk njóti þeirra réttinda, þjónustu og tækifæra sem það á að njóta samkvæmt lögum og mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, s.s. samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sé bráðnauðsynlegt. Að mati samtakanna er núverandi eftirlit að þessu leyti því miður ófullnægjandi. Réttindagæsla fyrir fatlað fólk er mjög mikilvægu liður í þessu eftirliti. Samtökin telja því að fyrirhugaður niðurskurður framlags til réttindagæslunnar hljóti hreinlega að vera mistök af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda. Samtökin skora því á fjárlaganefnd að leiðrétta þau mistök og leggja eindregið til að réttindagæslan verði efld með því að auka verulega fjárveitingar til hennar frá því sem verið hefur.
Framkvæmdaáætlun. – Fjármögnun verkefna.
Landssamtökin Þroskahjálp vilja árétta sérstaklega mikilvægi þess að þau verkefni og aðgerðir sem ráðast á í samkvæmt framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks verði kostnaðarmetin og fjármögnuð með skýrum hætti því annars er hætta á að þær aðgerðir verði bara orð á blaði og komist ekki til framkvæmda. Í því sambandi er ástæða til að benda á skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2014 um þjónustu við fatlaða þar sem fram kemur að kostnaðaráætlun fyrir öll verkefnin í fyrri framkvæmdaáætlun fyrir 2012 – 2014 hafi ekki verið kostnaðarmetin með fullnægjandi hætti. Í þessu sambandi vísast einnig til þess sem segir að framan um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks („Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð“).
Hjálpartæki.
Landssamtökin Þroskahjálp telja vera afar brýnt og mikið réttlætismál að lög og reglur varðandi hjálpartæki verði endurskoðuð án nokkurs dráttar og alveg sérstaklega það sem lýtur að kostnaðarþátttöku fatlaðs fólks vegna hjálpartækja sem það þarf nauðsynlega á að halda til að hafa tækifæri til sjálfstæðs og eðlilegs lífs, eins og það á rétt á að stjórnvöld tryggi því samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlað fólks. Samtökin telja að það óréttlæti og margvíslega mismunun sem nú er í því regluverki og kerfi muni enn aukast ef framlög til málaflokksins verða skert og skora því á fjárlaganefnd að beita sér fyrir að það verði alls ekki gert.
Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá að koma á fund fjarlaganefndar til að gera betri grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum varaðndi fjárlagafrumvarpið 2020.
Virðingarfyllst,
f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri.
[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.
Fjárlagafrumvarpið má skoða hér