Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011 (réttindagæslumenn og persónulegir talsmenn).
29. apríl 2024
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk fötluð börn og ungmenni og. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Samtökin þakka fyrir að hafa fengið frumvapið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við velferðarnefnd og Alþingi varðandi það.
Í d-lið 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins segir:
Verði ekki orðið við ábendingum réttindagæslumanns skal hann leiðbeina og eftir atvikum aðstoða hinn fatlaða við að kæra málið til úrskurðarnefndar velferðarmála eða beina kvörtun til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og veita honum viðeigandi stuðning varðandi rekstur málsins eftir þörfum.
Að mati samtakanna er þessi leiðbeiningar- og aðstoðarskylda / -réttur alls ekki fullnægjandi, eins og orðalag ákvæðisins er. Ákvæðið þarf að ná til allra þeirra kvörtunar- og kæruleiða, sem borgarar á Íslandi almennt njóta samkvæmt lögum og reglum. Í þessu samhengi má t.d. nefna aðstoð til að kvarta til umboðsmanns Alþingis, sem réttindagæslan hefur aðstoðað við með mjög góðum árangri.
Í e-lið 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins segir:
Á eftir 3. mgr. 6. gr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Réttindagæslumaður tekur ekki til meðferðar ágreining milli einstaklinga, en honum ber að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál um leiðir sem færar eru innan stjórnsýslu og hjá dómstólum.
Réttindagæslumaður endurskoðar ekki ákvarðanir stjórnvalda í einstökum málum.
Í þessu samhengi vilja samtökin benda á að mjög mikilvægt er að ákvæðin séu ekki þannig orðuð að þau komi í veg fyrir að réttindagæslumenn geti brugðist við misbeitingu gagnvart réttindum og hagsmunum fatlaðs einstaklings, t.a.m. fjárdrætti. Leiðbeiningar og stuðningur er í slíkum tilvikum ekki síður mikilvægur en í öðrum málum.
Í d-lið 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins, þar sem kveðið er á um breytingar á 7. gr. laganna segir:
Útlagður kostnaður skal að jafnaði greiddur af hinum fatlaða einstaklingi. Sýslumaður getur þó ákveðið að hann skuli greiddur úr ríkissjóði ef eignir hins fatlaða einstaklings eru litlar eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því.
Vísað er til þess sem fram kemur í umsögn Halldórs Gunnarssonar, fyrrverandi starfsmanns féalgsmálaráðuneytisins og yfirmanns hjá réttindagæslunni, varðandi þessi ákvæði frumvarpsins.
Samtökin vilja árétta sérstaklega að bráðnauðsynlegt er að sýslumenn og hlutaðeigandi starfsfólk sýslumannsembætta fái mjög góða fræðslu um aðstæður, þarfir og réttindi fatlaðs fólks, þ.m.t til viðeigandi aðlögunar og hvað í því felst, ef ábyrgð á eftirliti með persónulegum talsmönnum flyst til sýslumanna.
Samtökin vilja enn ítreka og árétta eftirfarandi áherslur sínar og sjónarmið varðandi sjálfstæða og óháða mannréttindastofnun, almennt og sérstaklega m.t.t. réttindagæslu fyrir fatlað fólk.
Samtökin fagna og styðja eindregið fyrirætlanir um setningu laga um stofnun Mannréttindastofnunar Íslands, sbr. frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands (Þingskjal 242 — 239. mál), sem forsætisráðherra lagði fram á Alþingi 26. september 2023. Frumvarpinu var vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 9. október 2023 og hefur frumvarpið síðan verið þar til meðferðar. Samtökin vísa til umsagnar sinnar um frumvarpið frá 25. október 2023 sem nálgast má á hlekk að neðan.
https://www.althingi.is/altext/erindi/154/154-466.pdf
Samtökin skora hér með á ríkisstjórnina, Alþingi og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að hraða meðferð og afgreiðslu frumvarpsins, eins og nokkur kostur er og benda í því sambandi m.a. á að þjóðréttarleg skylda til að setja á fót sjálfstæða og óháða mannréttindastofnun, sem uppfyllir Parísar-meginreglurnar (e. Paris Principles), féll á íslenska ríkið fyrir meira en 7 árum, þ.e. við fullgildingu þess á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016.
Þá minna samtökin ríkisstjórnina og alþingismenn stjórnarflokkanna á að í Sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs segir orðrétt:
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur og stofnuð ný Mannréttindastofnun.
Frekari dráttur á að íslenska ríkisstjórnin standi við þessa mikilvægu þjóðréttarlegu skuldbindingu sína og fyrirheit sín varðandi það gagnvart fötluðu fólki er fullkomlega óásættanleg, að mati samtakanna.
Samtökin fagna því sérstaklega að í frumvarpi um Mannréttindastofnun Íslands skuli gert ráð fyrir að réttindagæsla fyrir fatlað fólk falli undir mannréttindastofnunina. Það hefur frá stofnun réttindagæslunnar með lögum nr. 88/2011 verið ljóst að réttindagæslan á alls ekki heima undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Sú staðsetning hennar í stjórnkerfinu samræmist ekki þeim kröfum, sem gera verður til réttarríkis til að eftirlit af þessu tagi sé sem óháðast stjórnvöldum, sem eftirlitið beinist oft að, beint eða óbeint. Það fyrirkomulag sem nú er að réttindagæslumenn lúti yfirstjórn ráðherra og að réttindavakt ráðuneytisins fylgist með störfum þeirra, sbr. lög nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, með síðari breytingum, er vægast sagt mjög vafasamt m.t.t. hlutverks og ábyrgðar réttindagæslumanna gagnvart fötluðu fólki.
Samtökin skora því á velferðarnefnd og Alþingi að beita sér fyrir því að réttindagæslunni verði, eins fljótt og nokkur kostur er, komið undir sjálfstæða mannréttindastofnun. Samtökin telja að það megi vel gera mjög fljótt, þar sem skipulag og verkefni réttindagæslunnar er með þeim hætti að það krefst alls ekki flókinna eða tímafrekra breytinga á lögum, reglum og/eða stjórnkerfi.
Ekki verður undan því vikist að koma því hér á framfæri að samtökin hafa af því verulegar áhyggjur að það hefur nú legið fyrir í nokkur ár, að fatlað fólk nýtur ekki þeirrar réttindagæslu, sem lög kveða á um og virðist áhugaleysi félags og vinnumarkaðsráðuneytis vera talsvert þegar kemur að úrbótum. Þannig hefur réttindagæsla víða um land verið óstarfhæf vegna veikinda starfsfólks, sem einkum má rekja til óhóflegs álags sem fyrst og fremst má rekja til skilningsleysis á stöðu fatlaðs fólks og hvað lögbundin réttindagæsla þýðir í raun og veru.
Þá vísa samtökin til þess að umboðsmaður Alþingis hefur nýlega ákveðið að taka mál réttindagæslu fyrir fatlað fólk til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. bréf hans til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, dags. 15. febrúar sl. Í bréfi umboðsmanns segir m.a.:
Með bréfi þessu er óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort núverandi fyrirkomulag eða framkvæmd réttindagæslu fatlaðs fólks sé í samræmi við efni og markmið fyrrgreindra laga um réttindagæslu. Séu brotalamir eða vandkvæði uppi við framkvæmd laganna er óskað nánari skýringa á því svo og hvort ráðuneytið hafi þegar eða hafi í hyggju að grípa tiI aðgerða af því tilefni.
Bréf umboðsmanns má nálgast á hlekk að neðan.
https://www.umbodsmadur.is/asset/10340/f148_fyrirsp-frn-150224.pdf
Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk eru að stofni til frá árinu 2011, með viðbót um bann við beitingu nauðungar frá árinu 2012. Lög þessi voru mikil réttarbót á sínum. Eins og kom fram og við mátti búast hefur tíminn og reynslan leitt í ljós ýmsa hnökra á lögum þessum og framkvæmd þeirra. Samtökin hafa því ítrekað hvatt hlutaðeigandi stjórnvöld til að láta fara fram vandaða endurskoðun á lögunum, í ljósi þeirra reynslu sem af þeim er fengin og m.t.t. meðal annnars þeirra atriða og sjónarmiða, sem rakin eru hér að framan. Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar er engan veginn sú endurskoðun á lögunum sem er bráðnauðsynleg og löngu tímabær.
Með vísan til þess sem að framan er rakið árétta samtökin enn að rétt og skylt sé að hraða stofnun Mannréttindastofnunar Íslands, eins og nokkur kostur, er og hefja markvissan undirbúning að flutningi réttindagæslu fyrir fatlað fólk undir þá stofnun.
Þá er mjög æskilegt að fá sem fyrst niðurstöðu í frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis á réttindagæslu fyrir fatlað fólk.
Við vandaða endurskoðun réttindagæslulaganna þarf m.a. að fara mjög gaumgæfilega yfir ákvæði þeirra m.t.t. þeirra skyldna, sem hvíla á íslenska ríkinu samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, m.a. og sérstaklega samkvæmt ákvæðum 12. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Jöfn viðurkenning fyrir lögum og líta jafnframt sérstaklega til þess sem fram kemur í almennum athugasemdum (e. General Comment No 1), sem nefnd samkvæmt samningnum sendi frá sér árið 2014 um ákvæði 12. gr. hans.
Samtökin lýsa eindregum áhuga og vilja til samráðs við hlutaðeigandi stjórnvöld og Alþingi við það mikilvæga og mjög tímabæra verkefni og vísa í því sambandi m.a. til eftirfarandi ákvæða í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. 3. mgr. greinarinnar er svohljóðandi:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
33. gr. samningsins hefur yfirskriftina Framkvæmd og eftirlit innan lands og hljóðar svo:
- Aðildarríkin skulu tilnefna, í samræmi við stjórnskipulag sitt, eina miðstöð eða fleiri innan stjórnsýslunnar vegna mála er varða framkvæmd samnings þessa og taka tiltilhlýðilegrar umfjöllunar hvort koma skuli á eða tiltaka samræmingarkerfi innanstjórnsýslunnar í því skyni að greiða fyrir skyldum aðgerðum á ólíkum sviðum og ólíkumstigum.
- Aðildarríkin skulu, í samræmi við réttar- og stjórnkerfi hvers ríkis um sig, viðhalda,treysta, tiltaka eða koma á innviðum, þar á meðal einu eða fleiri sjálfstæðum kerfum, eftir því sem við á, í því skyni að styrkja, vernda og hafa eftirlit með framkvæmd samnings þessa. Aðildarríkin skulu, þegar þau tiltaka slíkt kerfi eða koma því á, taka mið af þeimmeginreglum sem gilda um stöðu og starfsemi þjóðbundinna mannréttindastofnana.
- Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem koma fram fyrir þess hönd, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.
Samtökin óska eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi frumvarpið.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér.