Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum.
Samtökin styðja markmið frumvarpsins um að geiða fyrir að barn eigi góð og náin samskipti við báða foreldra sína og fjölskyldur þeirra beggja, enda taki allar ákvarðanir á grundvelli laganna mið af því sem er viðkomandi barni fyrir bestu og tillit verði tekið til vilja barns við allar ákvarðanir sem varða það.
Samtökin leggja sérstaka áherslu á að þegar fötluð börn búa á tveimur stöðum þarf að vera tryggt að allur stuðningur sem þau þurfa á að halda sem og hjálpartæki o.þ.h. sé til staðar á báðum heimilum. Afar mikilvægt er að lög og reglur sem hafa þýðingu í því sambandi séu yfirfarin m.t.t. þess og endurskoðuð eftir því sem þörf er á til að tryggja það.
Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með allsherjar- og menntamálanefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum.
Virðingarfyllst,
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna
Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.