Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (viðurkenning námsbrautarlýsinga o.fl.), 282. mál
25. apríl 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni, fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og frumvarp um lögfestingu samningsins er nú til meðferðar á Alþingi og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.
Í samningnum eru ýmis ákvæði, sem hafa miklaa þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umfjöllunar, s.s. í 5. gr. sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun, þar sem segir m.a. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða, í 7. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Fötluð börn, þar sem segir m.a. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn og í24. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Menntun, þar sem segir m.a. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og á grundvelli jafnra tækifæra skulu aðildarríkin tryggja menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum og við símenntun.
Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks má nálgast á hlekk að neðan.
https://www.stjornarradid.is/library/03-Verkefni/Mannrettindi-og-jafnretti/Mannrettindi/N%c3%bd%20%c3%be%c3%bd%c3%b0ing%20%c3%a1%20samningi%20S%c3%9e%20um%20r%c3%a9ttindi%20fatla%c3%b0s%20f%c3%b3lks%20-%20Copy%20(1).pdf
Landssamtökin Þroskahjálp fagna öllum breytingum á reglum varðandi innritun í framhaldsskóla, sem hafa það að markmiði að taka meira tillit til þarfa fatlaðra barna og ungmenna, nemenda með langvarandi stuðningsþarfir og nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn en eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hefur fjölbreytni meðal nemenda framhaldsskólanna aukist og mikilvægt er að jafna tækifæri nemenda og að allir framhaldsskólar axli ábyrgð á fjölbreyttum nemendahópi.
Samtökin fagna því að tekið sé tillit til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í frumvarpinu og að hann geti haft áhrif á túlkun reglna frumvarpsins hvað varðar rétt fatlaðs fólks til menntunar.
Virðingarfyllst,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.