Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006, og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008 (aðagangsskilyrði), 536. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á réttindi og tækifæri fólks með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Í stefnu sinni og starfi og verkefnum taka samtökin jafnframt mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Landssamtökin Þroskahjálp taka undir meginmarkmið frumvarpsins og telja mjög mikilvægt að jafna aðgengi að menntun á háskólastigi, óháð því hvernig námi nemendur ljúka á framhaldsskólastigi. Þó lýsa samtökin miklum vonbrigðum með að samhliða þessari endurskoðun á þessum lögum hafi ekki jafnframt verið ráðist í stefnumótun og úrbætur hvað varðar tækifæri fólks með þroskahömlun til háskólanáms, eins og kveðið er á um í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Íslensk stjórnvöld fullgiltu samninginn árið 2016 og skuldbundu sig þar með til þess að framfylgja honum.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu gerðu Landssamtökin Þroskahjálp athugasemd við frumvarpið á fyrri stigum og hvöttu þar til þess að breytingarnar tækju jafnframt til námstækifæra á háskólastigi fyrir nemendur sem útskrifast af starfsbrautum, í samræmi við þær skuldbindingar ríkisins sem leiða af samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þ.m.t. hvað varðar tækifæri til menntunar á öllum skólastigum. Í 24. gr. samningsins segir:

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og þar sem allir hafa jöfn tækifæri skulu aðildarríkin koma á menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum og námi alla ævi sem leiðir til þess:

a) að mannleg geta og tilfinning fyrir reisn og eigin verðleikum þroskist til fulls og til þess að virðing fyrir mannréttindum, mannfrelsi og mannlegri fjölbreytni vaxi,

b) að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,

c) að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í frjálsu samfélagi.

2. Til þess að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja:

a) að fatlað fólk sé ekki útilokað frá almenna menntakerfinu vegna fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi eða námi á framhaldsskólastigi vegna fötlunar,

5. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk geti hafið almennt nám á háskólastigi, starfsþjálfun og notið fullorðinsfræðslu og náms alla ævi án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.

 

Þá má í þessu samabandi einnig benda á að þriðja undirmarkmið fjórða heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um menntun er að eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur að góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði.

Landssamtökin Þroskahjálp ítreka að eins og staðan er nú eru tækifæri fólks með þroskahömlun til háskólanáms afar fá. Nemendur sem ljúka námi á starfsbrautum framhaldsskólanna útskrifast hvorki með stúdentspróf né fullnaðarpróf á þriðja hæfnisþrepi. Fólk með þroskahömlun hefur því almennt ekki aðgengi að námi á háskólastigi og það breytist ekki með frumvarpinu, þrátt fyrir að stjórnvöld hafi undirgengist þá skyldu að allt fatlað fólk eigi kost á námi á öllum skólastigum. Örfáum nemendum með þroskahömlun býðst diplómanám við Háskóla Íslands annað hvert ár, en það er eini valkosturinn sem í boði er á háskólastigi fyrir þennan hóp.

Mikilvægt er að ráðast í ítarlega stefnumótun um hvernig uppfylla megi kröfuna sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gerir um nám fyrir allt fatlað fólk á öllum skólastigum. Til dæmis með því að útfæra fleiri námstækifæri í anda diplómanámsins við háskólana. Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja til að vera til samstarfs og samráðs um það verkefni.

Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir að fá fund með allsherjar- og menntamálanefnd til að gera betri grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi frumvarpið og tengd mál.

 

Virðingarfyllst.

 

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna.

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.