Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 (örnám og prófgráður)

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 (örnám og prófgráður), 24. mál

6. febrúar 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk fötluð börn og ungmenni og. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Samtökin fagna því að gert skuli ráð fyrir auknum styttri  námsleiðum, sem mun vonandi bæta aðgengi fatlaðs fólks að  háskólanámi og vera hvetjandi fyrir háskólana að tryggja námstækifæri án aðgreiningar og fjölbreytt námsframboð.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og nú er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.

4. gr. samningsins  hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingarÞar segir:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...

Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa verulega þýðingu m.t.t. þess sem hér er til umfjöllunar m.a. í 5. gr. sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun:


     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa.
(Feitletr. Þroskahj.)

Og í 24. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Menntun:  

     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og á grundvelli jafnra tækifæra skulu aðildarríkin tryggja menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum og við símenntun sem beinist að því:
         a)          að mannleg geta og tilfinning fyrir reisn og eigin verðleikum þroskist til fulls og að virðing fyrir mannréttindum, grundvallarfrelsi og mannlegum margbreytileika vaxi, 
         b)          að fatlað fólk geti þroskað til fulls persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,
         c)          að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í frjálsu samfélagi.
     2.      Til að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja:
         a)          að fatlað fólk sé ekki útilokað frá almenna menntakerfinu á grundvelli fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi eða námi á framhaldsskólastigi á grundvelli fötlunar,
         b)          að fatlað fólk hafi aðgang til jafns við aðra að endurgjaldslausri grunn- og framhaldsskólamenntun án aðgreiningar, sem uppfyllir almennar kröfur um gæði, í þeim samfélögum þar sem það býr,
         c)          að viðeigandi aðlögun sé veitt í samræmi við þarfir viðkomandi einstaklings,
         d)          að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins til þess að greiða fyrir árangursríkri menntun þess, 
         e)          að árangursríkur, einstaklingsmiðaður stuðningur sé veittur í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska sem samræmist markmiðinu um fulla þátttöku án aðgreiningar.
     3.      Aðildarríkin skulu gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem borgarar í samfélaginu. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni, meðal annars:
         a)          auðvelda fólki að læra punktaletur, óhefðbundna ritun, auknar og óhefðbundnar samskiptaleiðir, -máta og -form og færni í skynjun og hreyfifærni, ásamt því að greiða fyrir jafningjastuðningi og jafningjaráðgjöf,
         b)          auðvelda fólki að læra táknmál og efla sjálfsmynd heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks með tilliti til tungumáls,
         c)          tryggja að menntun fólks, og þá sérstaklega barna, sem er blint eða sjónskert, heyrnarlaust eða heyrnarskert eða fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu fari fram á viðeigandi tungumálum og tjáningarmáta sem hentar viðkomandi einstaklingi og í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska.
     4.      Í því skyni að tryggja að fyrrnefnd réttindi verði að veruleika skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ráða kennara, þar á meðal fatlaða kennara með sérþekkingu á táknmáli og/eða punktaletri, og þjálfa fagfólk og starfsfólk sem starfar á öllum sviðum menntakerfisins. Slík þjálfun skal fela í sér vitund um fötlun og notkun viðeigandi aukinna og óhefðbundinna samskiptaleiða, -máta og -forma, kennsluaðferða og námsgagna sem er ætlað að styðja fatlað fólk.
     5.      Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk hafi aðgang að almennu námi á háskólastigi, starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.
(Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja til virks og náins samstarfs og samráðs við hlutaðeigandi stjórnvöld um þau mikilvægu mál sem hér eru til  umfjöllunar og vísa í því sambandi til til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Sara Dögg Svanhildardóttir, verkefnisstjóri við samhæfingu námsframboðs og atvinnutækifæra

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.