Umsögn landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012 (móttaka einstaklinga með vernd, innflytjendaráð), 271. mál.

Reykjavík, 14. febrúar 2022

 

Umsögn landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012 (móttaka einstaklinga með vernd, innflytjendaráð), 271. mál.

 

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpi til umsagnir og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða ákvæði hans og framfylgja þeim á öllum sviðum sem samningurinn nær til. Í samningnum er m.a. kveðið á um skyldur ríkja til að vernda fatlað fólk fyrir afleiðingum stríðsátaka og náttúruhamfara, til að veita fötluðum börnum sérstaka vernd og stuðning og jafnframt er kveðið fast að orði um algjört bann við mismunun á grundvelli fötlunar.

Miklar og margvíslegar vísbendingar eru um að mikil hætta sé á að fatlað fólk af erlendum uppruna (innflytjendur, hælisleitendur, flóttafólk) fari á mis við þjónustu sem það þarf mjög á að halda og á rétt á samkvæmt lögum og reglum, vegna skorts á viðeigandi leiðbeiningum, upplýsingum og stuðningi.

Í ljósi verulegar fjölgunar fólks af erlendum uppruna í íslensku samfélagi undanfarin ár hafa samtökin lagt ríkari áherslu á málefni þessa hóps, ekki síst fatlaðra barna og ungmenna af erlendum uppruna. Í þeirri vinnu hafa samtökin orðið þess áskynja að verulega þarf að bæta upplýsingaflæði til fatlaðra innflytjenda og auka til muna samráð við þá og/eða samtök sem standa vörð um hagsmuni þeirra og réttindi, um skipulag þjónustu og stuðning sem þeir þurfa á að halda og eiga rétt á.

Landssamtökin Þroskahjálp telja það mjög til bóta og tímabært að samræma móttöku flóttafólks, óháð því hvernig það kemur til landsins og fagna því samræmingarhlutverki sem Fjölmenningarsetri er falið samkvæmt frumvarpinu.

Í frumvarpinu er Fjölmenningarsetri falið að hafa umsjón með og standa fyrir samráði milli þeirra aðila hér á landi sem koma að móttöku einstaklinga með vernd. Landssamtökin Þroskahjálp vilja í því sambandi benda sérstaklega á mikilvægi samráðs við aðila sem hafa sérþekkingu á málefnum fatlaðs fólks, aðstæðum þess, þörfum og réttindum og að útfæra verklag sem tekur mið af og tryggir réttindi fatlaðra innflytjenda, sem oft þurfa annars konar stuðning en innflytjendur/hælisleitendur/flóttafólk almennt.

Hvað varðar ákvæði um heimild til öflunar og miðlunar persóunupplýsinga vilja Landssamtökin Þroskahjálp vekja athygli á mikilvægi þess að tryggja upplýst samþykki áður en vinnsla eða miðlun slíkra upplýsinga um fatlað flóttafólk á sér stað. Ekki einungis er það mjög oft berskjaldað vegna takmarkaðrar tungumálakunnáttu og stöðu sinnar sem flóttafólk í nýjum aðstæðum sem það skilur ekki alltaf eða gerir sér grein fyrir réttindum sínum í, heldur einnig vegna fötlunar og/eða einhvers konar skerðinga sem verður undir öllum kringumstæðum að taka fullt tillit til.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telja Landssamtökin Þroskahjálp afar mikilvægt að í lögum og reglum varðandi móttöku flóttafólks og þjónustu við það sem og varðandi innflytjendur verði sérstaklega hugað að aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks almennt og sérstaklega fatlaðra barna og ungmenna. Samtökin lýsa miklum áhuga og vilja til að koma að því verkefni og minna í því sambandi á samráðsskyldur stjórnvalda við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttindamálum þess samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.[2]

Í sambandi við frumvarp það sem hér er til umfjöllunar vekja Landssamtökin Þroskahjálp sérstaka athygli á skyldum stjórnvalda samkvæmt eftirfarandi greinum í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

4. gr.

Almennar skuldbindingar.

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.

    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

          a)      að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika,

          b)      að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,

          c)      að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, …

7. gr.

Fötluð börn.

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.

     2.      Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.

     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

11. gr.

Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð.

Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, einnig samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum og alþjóðlegum mannréttinda­lögum, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúru­hamförum.

Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með velferðarnefnd til að gera betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi frumvarp það sem hér er til umsagnar.

 

Virðingarfyllst,

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum fatlaðra barna, ungmenna og fatlaðs fólks af erlendum uppruna.

 

 Nálgast má lagafrumvarp sem umsögnin á við hér.



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum.

 

[2] 3. tl. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hljóðar svo: “Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.”