Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.
Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða ákvæði hans og framfylgja þeim á öllum sviðum sem samningurinn nær til. Í samningnum er m.a. kveðið á um skyldur ríkja til að vernda fatlað fólk fyrir afleiðingum stríðsátaka og náttúruhamfara, til að veita fötluðum börn sérstaka vernd og stuðning og kveður jafnframt fast að orði um algjört bann við mismunun á grundvelli fötlunar.
Miklar og margvíslegar vísbendingar eru um að mikil hætta sé á að fatlað fólk af erlendum uppruna (innflytjendur, hælisleitendur, flóttafólk) fari á mis við þjónustu sem það þarf mjög á að halda og á rétt á samkvæmt lögum og reglum, vegna skorts á viðeigandi leiðbeiningum, upplýsingum og stuðningi. Landssamtökin Þroskahjálp hafa allt frá stofnun samtakanna árið 1976 lagt höfuðáherslu á að málefni fatlaðs fólks séu málefni samfélagsins alls. Í ljósi umtalsverðrar fjölgunar fólks af erlendum uppruna (flóttamenn, hælisleitendur og innflytjendur) í íslensku samfélagi undanfarin ár hefur Þroskahjálp lagt ríkari áherslu á málefni þessa hóps, ekki síst fatlaðra barna og ungmenna af erlendum uppruna.
Samtökin lýsa yfir ánægju með að skipa skuli fulltrúa heilbrigðisráðuneytis í Innflytjendráð, enda ljóst að miklir hagsmunir tengjast heilbrigðisþjónustu og jöfnu og greiðu aðgengi að henni. Eins og fram hefur komið sýna dæmin að innflytjendur eru langtum líklegri en aðrir til að fara á mis við upplýsingar um réttindi og þjónustu og fá þess vegna ekki þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda og eiga rétt á samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasamningum. Fatlað fólk af erlendum uppruna er enn berskjaldaðara hvað þetta varðar.
Fyrir fatlað fólk skiptir sköpum að fá heilbrigðisþjónustu og aðra stoðþjónustu sem allra fyrst. Því fagna Landssamtökin Þroskahjálp þeirri breytingu sem verður á innflytjendaráði með lögunum og vonast til þess að sú ráðstöfun muni hraða kerfisbreytingum sem þurfa að eiga sér stað til að jafna aðgengi að upplýsingum og þar með koma í veg fyrir mismunun á grundvelli uppruna.
Þá telja samtökin það mjög til að bóta að samræma móttöku flóttafólks, óháð því hvernig það kemur til landsins og fagna því samræmingarhlutverki sem Fjölmenningarsetri er falið. Landssamtökin Þroskahjálp hafa undanfarið lagt sig fram við að efla stuðning við fólk af erlendum uppruna og auka aðgengi þess að nauðsynlegum upplýsingum. Í gegnum þau verkefni hefur komið í ljós að mikil þörf er á því að útfæra verkferla til þess að tryggja fötluðu fólki af erlendum uppruna, þ.m.t. flóttafólki, aðgengi að fræðslu, þjónustu og stuðningi sem það á rétt á og þarf á að halda m.a. vegna fötlunar. Þetta á einnig og ekki síður við um fólk sem kemur til Íslands eftir 18 ára aldur. Ekki þarf að fjölyrða um þá mikilvægu hagsmuni sem eru í húfi og því bráðnauðsynlegt að leita allra leiða til að tryggja að fatlað flóttafólk fái strax þjónustu og aðstoð við hæfi.
Landssamtökin Þroskahjálp vilja vekja athygli á mikilvægi þess að tryggja upplýst samþykki áður en vinnsla eða miðlun persónuupplýsinga um fatlað flóttafólk á sér stað. Ekki einungis er það berskjaldað vegna tungumálaerfiðleika og stöðu sinnar og stöðu sinnar sem flóttafólk, í nýjum aðstæðum sem það skilur ekki alltaf eða gerir sér grein fyrir réttindum sínum í, heldur einnig vegna föltunar og/eða skerðinga sem verður undir öllum kringumstæðum að taka fullt tillit til.
Með vísan til þess sem að framan er rakið telja samtökin afar mikilvægt að í lögum og reglum varðandi móttöku flóttafólks og þjónustu við þá sem og varðandi innflytjendur verði sérstaklega hugað að aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks almennt og sérstaklega fatlaðra barna og ungmenna. Samtökin lýsa miklum áhuga og vilja til að koma að því verkefni og minna í því sambandi á samráðsskyldur stjórnvalda við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttindamálum þess samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Landssamtökin Þroskahjálp hafa, að beiðni félagsmálaráðuneytis, unnið upplýsingar í texta og myndbandaformi, um réttidni fatlaðs fólks og þjónustu við það og látið þýða eða talsetja þau á sjö tungumál. Þar ef eru þrjú myndbönd um málefni fatlaðra barna og þrjú myndbönd um málefni fullorðins fatlaðs fólks af erlendum uppruna (sem eru í nú í vinnslu). Þetta efni gæti nýst í nýjum verkefnum Fjölmenningarseturs varðandi flóttafólk.
Í sambandi við frumvarp það sem hér er til umfjöllunar vekja Landssamtökin þroskahjálp sérstaka athygli á skyldum stjórnvalda samkvæmt eftirfarandi greinum í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
4. gr.
Almennar skuldbindingar.
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, …
7. gr.
Fötluð börn.
1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.
2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.
3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika.
11. gr.
Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð.
Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, einnig samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum og alþjóðlegum mannréttindalögum, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamförum.
Landssamtökin þroskahjálp óska eftir að koma á fund velferðarnefndar til að gera betri grein fyrir áherrslum sínum og sjónarmiðum varðandi frumvarpið.
Virðingarfyllst,
Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna.
Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér.