Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997 (beiting nauðungar), 563. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar.

Samtökin vísa til þess sem fram kom á fundi fulltrúa samtakanna með velferðarnefnd 24. mars sl. og vilja sérstaklega árétta eftirfarandi.

Ekki verður séð á frumvarpinu eða greinargerð með því eða athugasemdum við einstakar greinar þess að við samningu frumvarpsins hafi verið litið sérstaklega til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenskra ríkið fullgilti og skuldbatt sig til að virða og framfylgja, þ.m.t. með því að tryggja að lög séu í fullu samræmi við réttindi fatlaðs fólks og skyldur stjórnvalda sem leiða af samningnum.

Landssamtökin Þroskahjálp hvetja velferðarnefnd því eindregið til að ganga úr skugga um að heilbrigðisráðuneytið hafi gætt sérstaklega að því að ákvæði frumvarpsins séu í fullu samræmi við réttindi fatlaðs fólks og skyldur stjórnvalda sem leiða af samningnum og ef svo er ekki að það verði gert með vönduðum hætti áður en frumvarpið verður tekið til frekari meðferðar á Alþingi.

Í þessu sambandi benda samtökin sérstaklega á eftirfarandi greinar og ákvæði samningsins[1].

4. gr.

Almennar skuldbindingar.

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. (Feitletr. Þroskahj.).

5. gr.

Jafnrétti og bann við mismunun.


     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. 

 12. gr.

Jöfn viðurkenning fyrir lögum.


     1.      Aðildarríkin árétta að fatlað fólk á rétt á því að vera viðurkennt alls staðar sem persónur að lögum. 
     2.      Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti löghæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.
     3.      Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir löghæfi sitt.
     4.      Aðildarríkin skulu tryggja að allar ráðstafanir, sem varða nýtingu löghæfis, feli í sér viðeigandi og árangursríka vernd til þess að koma í veg fyrir misnotkun í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög. Með slíkri vernd skal tryggt að ráðstafanir sem varða nýtingu löghæfis virði réttindi, vilja og óskir einstaklingsins, leiði ekki til hagsmunaárekstra eða hafi ótilhlýðileg áhrif, séu í samræmi við og sniðin að aðstæðum viðkomandi einstaklings, gildi í skemmsta mögulega tíma og séu endurskoðaðar reglulega af til þess bæru sjálfstæðu og óháðu yfirvaldi eða dómstóli. Verndin skal taka mið af og vera í samræmi við þau áhrif sem slíkar ráðstafanir hafa á réttindi og hagsmuni einstaklingsins.
     5.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir, samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að eiga eða erfa eignir, stýra eigin fjármálum og hafa til jafns við aðra aðgang að bankalánum, veðlánum og annars konar lánafyrirgreiðslu, jafnframt því að tryggja að fatlað fólk sé ekki svipt eignum sínum eftir geðþótta.

 14. gr.

Frelsi og öryggi einstaklingsins.


     1.      Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk, til jafns við aðra:
         a)          njóti réttar til frelsis og persónulegs öryggis,
         b)          sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.
     2.      Sé fatlað fólk svipt frelsi sínu á einhvern hátt skulu aðildarríkin tryggja að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.
(Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

17. gr.

Verndun friðhelgi einstaklingsins.


    Allt fatlað fólk á rétt á virðingu fyrir líkamlegri og andlegri friðhelgi til jafns við aðra. 

 22. gr.

Virðing fyrir einkalífi.


     1.      Engin fötluð manneskja skal, óháð búsetustað eða -formi, sæta ólögmætum afskiptum eða geðþótta afskiptum af einkalífi sínu, fjölskyldu, skriflegum samskiptum eða öðrum samskiptum eða ólögmætum árásum á æru sína og orðstír. Fatlað fólk á rétt á lagalegri vernd gegn slíkum afskiptum eða árásum.
     2.      Aðildarríkin skulu vernda trúnað um upplýsingar um persónulega hagi, heilsufar og endurhæfingu fatlaðs fólks til jafns við aðra.

 25. gr.

Heilbrigði.


    Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu, sem tekur mið af kyni, þar á meðal heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu sérstaklega: ...
         d)          gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, þar á meðal á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, meðal annars með vitundarvakningu um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun og útbreiðslu siðferðilegra viðmiða fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilbrigðisþjónustu, ...
(Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

Landssamtökin Þroskahjálp benda á að nefnd samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur í almennum athugasemdum sínum (e. General Comments) fjallað sérstaklega um ákvæði  5. gr. samningsins um „Jafnrétti og bann við mismunun“ og ákvæði 12. gr., „Jöfn viðurkenning fyrir lögum“. Almennar athugasemdir nefndarinnar má nálgast á heimasíðu hennar:

https://www.ohchr.org/EN/HRBodies/CRPD/Pages/GC.aspx

Þá hefur sérstakur talsmaður SÞ varðandi réttindi fatlaðs fólks (e. Special Rapporteur on the rights of persons with disabilities) fjallað um ýmis þau réttindi fatlaðs fólks sem reynir á í frumvarpinu í skýrslum sínum sem má nálgast má á heimasíðu hans:

https://www.ohchr.org/EN/Issues/Disability/SRDisabilities/Pages/Reports.aspx

 

Landssamtökin þroskahjálp vilja athygli velferðarnefndar á að „fötlun“ er ekki sérstaklega tilgreind sem ólögmæt mismununarástæða í jafnræðisreglu 1. gr. laga um réttindi sjúklinga og fleiri laga þar sem mjög mikilvægt er að bann við mismunun á grundvelli fötlunar sé mjög skýrt. Samtökin árétta því hér þá tillögu sína og áskorun til hlutaðeigandi stjórnvalda og Alþingis að fötlun verði sérstaklega tilgreind í jafnræðisreglu laga um réttindi sjúklinga.

 

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér:

 



[1] Stuðst er við þýðingu á samningnum sem er í tillögu til þingsályktunar sem er nú til meðferðar á Alþingi. https://www.althingi.is/altext/151/s/0960.html