Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023, 2. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnir og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Í frumvarpinu er lagt til að framlengt verði um eitt ár bráðabirgðaákvæði til að koma í veg fyrir víxlverkun á milli örorkulífeyris og lífeyris úr lífeyrissjóðum. Mikilvægt er að þetta gangi eftir.

Gert er ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði óbreytt á árinu 2023. Að mati Þroskahjálpar er óforsvaranlegt að ekki skuli vera vilji hjá stjórnvöldum til þess að hækka frítekjumarkið til að skapa fjárhagslega hvata fyrir fatlað fólki, sem hefur skerta starfsgetu, til að nýta þau allt of takmörkuðu tækifæri, sem því bjóðast til þátttöku í atvinnulífinu. Dæmi eru um að fatlað fólk hafi tekið að sér tímabundin verkefni, fyrir mjög hófleg laun en það hefur þó leitt til að það hafi verið enn verr sett fjárhagslega vegna skerðinga á bótum.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má lagafrumvarp sem umsögnin á við hér.



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og heimsmarkmiðum SÞ.