Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um námsgögn

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um námsgögn, 255. mál

25. apríl 2025

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni, fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og frumvarp um lögfestingu samningsins er nú til meðferðar á Alþingi og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.

Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa verulega þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umfjöllunar, s.s. í 7. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Fötluð börn og í 24. gr. sem hefur yfirskriftina Menntun.

Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks má nálgast á hlekk að neðan.

https://www.stjornarradid.is/library/03-Verkefni/Mannrettindi-og-jafnretti/Mannrettindi/N%c3%bd%20%c3%be%c3%bd%c3%b0ing%20%c3%a1%20samningi%20S%c3%9e%20um%20r%c3%a9ttindi%20fatla%c3%b0s%20f%c3%b3lks%20-%20Copy%20(1).pdf

Landssamtökin Þroskahjálp fagna frumvarpinu sem hér er til umsagnar og að stefnt sé að því að efla umgjörð og stuðning við útgáfu námsgagna og að námsgögn verði gjaldfrjáls fyrir nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum fram að 18 ára aldri. 

Eins og kemur fram í greinagerð með frumvarpinu hefur verið ákall frá skólafólki um að styðja þurfi betur við útgáfu og miðlun námsgagna á öllum skólastigum og þarf þá einnig að hafa sérstaklega í huga námsefni á öllum skólastigum fyrir nemendur, sem að þurfa á aðlöguðu námsefni að halda.

Samtökin ítreka að mikil vöntun er á vönduðu námsefni fyrir fjölbreyttan nemendahóp á öllum skólastigum til að stuðla að einstaklingsmiðaðari kennsluháttum. Vöntun er á námsefni fyrir þá nemendur sem þurfa aðlagað námsefni og á auðlesnu máli í samræmi við stefnu um inngildandi menntun. Þá þarf einnig að bæta þjónustu og stuðning við þann hóp í skólum landsins.  Einnig er mjög mikilvægt að námsgögn séu aðgengileg fyrir blinda og  sjónskerta.

Mikill tími kennara, sérkennara og annars fagfólks fer nú í að vinna og búa til efni efni sem hentar nemendum sem þurfa á aðlöguðu námsefni að halda og eiga rétt á því samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir að fá að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar til að gera betur grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi það mál sem hér er til umfjöllunar og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Málið sem umsögnin vísar til má finna hér