Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 187. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 187. mál

 

             8. apríl 2025

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í 4. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingarsegir m.a.: 


     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.

        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...

Samkvæmt þingsályktun, sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust 3. júní 2019, átti að leggja fram frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en 13. desember 2020. Það hefur nú loks verið gert.

Þann 20. mars 2024 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027. Í aðgerð F.1. í framkvæmdaáætluninni, sem hefur yfirskriftina Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, er gert ráð fyrir að samningurinn verði lögfestur á árinu 2025.

Í stjórnarsáttmála fráfarandi ríkisstjórnar sagði: Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur. Fyrirheit um lögfestingu samningsins er einnig í stefnuyrilýsingu núverandi ríkisstjórnar.

Með lögfestingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks yrði lagaleg vernd mannréttinda fatlaðs fólks verulega bætt og skýrð. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir stjórnvöldum og dómstólum. Lögfesting samningsins mun auk þess vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í lýðræðis- og réttarríki, sem grundvallast á mannnréttindum.

Lögfesting samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er m.a. afar mikilvægur liður í að tryggja betri framfylgd laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsaþarfir, af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Óumdeilanlegt er, að mati Þroskahjálpar, að mjög mikil þörf er á að bæta þá framfylgd verulega. Samtökin vísa í því sambandi m.a. til skýrslu Ríkisendurskoðunar, Eftirfylgni: Þjónusta við fatlað fólk skv. lögum nr. 38/2018, frá febrúar 2025 og niðurstöður frumkvæðisathugunar Gæða- og etirlistsstofnunar velferðarmála, Misræmi í reglum sem sveitarfélög setja um stoð- og stuðningsþjónustu, frá 10. mars 2025. Skýrslu Ríkisendurskoðunar og niðurstöður GEV má nálgast á hlekkjum að neðan.

https://www.rikisendurskodun.is/reskjol/files/Skyrslur/2025_thjonusta_vid_fatlad_folk-eftirfylgni.pdf

https://island.is/s/gev/frett/misraemi-i-reglum-sem-sveitarfeloeg-setja-um-stod-og-studningsthjonustu

 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, voru samþykkt af öllum aðildarríkjum SÞ, þ.m.t. íslenska ríkinu, í september 2015. Íslenska ríkið hefur lýst því yfir að það muni vinna markvisst og skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Meginmarkmið heimsmarkmiðanna er að skilja engan eftir (e. No one will be left behind). Fatlað fólk hvarvetna í heiminum hefur verið og er enn skilið eftir á flestum sviðum samfélagsins. Ísland er engin undantekning frá því. Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks var gerður og samþykktur til að bregðast við því. Heimsmarkmiðin eru nátengd alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum, sem mælt er fyrir um í fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja, m.a. og ekki síst Í samningi SÞ um réttindi fatlað fólks. Það er því ljóst að lögfesting samningsins væri mjög mikilvægur og áhrifaríkur þáttur til að framfylgja betur heimsmarkmiðunum, almennt og sérstaklega með tilliti til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks.

 

Þann 20. september 2016 samþykkti Alþingi svohljóðandi þingsályktun mótatkvæðalaust:

Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af hálfu Íslands 30. mars 2007. Þá ályktar Alþingi að valkvæður viðauki við samninginn skuli einnig fullgiltur fyrir árslok 2017(Undirstr. og feitletr. Þroskahj.)

Nú, meira en 8 árum eftir að fullgilda átti viðaukann samkvæmt þingsályktuninni, hefur það ekki enn verið gert.

Í greinargerð með þingsályktuninni um fullgildingu valkvæða viðaukans segir:

Lagt er til að auk samningsins verði viðauki hans einnig fullgiltur. Viðaukinn felur í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk, annars vegar kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum, með samþykki viðkomandi aðildarríkis.

Íslensk stjórnvöld undirrituðu valfrjálsa viðaukann við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um leið og þau undirrituðu samninginn sjálfan árið 2007. Valfrjálsi viðaukinn mælir fyrir um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt þau úrræði, sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi, til að ná því fram sem þeir telja sig eiga rétt á samkvæmt samningnum. Eftirlitnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra. Með því að fullgilda valfrjálsu bókunina verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks meira og mannréttindi þess betur varin. Þess má geta að 107 ríki hafa nú fullgilt valkvæða viðaukann.

 

Með vísan til framangreinds lýsa Landssamtökin Þroskahjálp eindregnum stuðningi við frumvarp um lögfestingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hér er til umsagnar og skora á þingnefnd og Alþingi að hraða meðferð frumvarpsins og lögfestingu samningsins, eins og nokkur kostur er.

Samtökin skora jafnframt á stjórnvöld og Alþingi að fullgilda nú þegar valkæða viðaukann við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Samtökin óska eftir að fá að koma á fund þingnefndarinnar til að gera betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi það mál sem hér er til umfjöllunar og vísa í því sambandi til til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.