Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 466. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp[1] vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi frumvarpið.

 Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum samningsins, eins og mælt er sérstaklega fyrir um í 4. gr.hans, sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“. Þar segir m.a.:  

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 
    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til: 
          a)      að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika, 
          b)      að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...         

Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks nær til allra sviða samfélagsins og hefur það meginmarkmið að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og jöfn tækifæri á við aðra á öllum sviðum og að verja það fyrir mismunun af öllu tagi. Sérstaklega er kveðið á um þessar skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki jafnrétti í 5. gr.samningsins sem hefur yfirskriftina „Jafnrétti og bann við mismunun“ og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar. 
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa. 

„Fötlun“ er ekki sérstaklega tilgreind sem ólögmæt mismununarástæða í jafnræðisreglu 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar, eins og gert er hvað varðar kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt, efnahag og ætterni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið ítreka Landssamtökin Þroskahjálp enn þá áskorun til stjórnvalda og Alþingis að fötlun verði sérstaklega tilgreind í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, eins og er gert í jafnræðisreglum í stjórnarskrám mjög margra ríkja og ákvæði þar að lútandi verði sett í frumvarp það sem hér er til umsagnar.

 

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Nágast má frumvarp sem umsögnin á við hér.

 



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína og starf á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.