Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 (fjölgun mismununarþátta). Þingskjal 170 – 168. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir gott samráð sem forsætisráðuneytið hafði við samtökin við samningu frumvarpsins og einnig fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við allsherjar- og menntamálanefnd og Alþingi.

Þetta frumvarp og samþykkt þess er mjög mikilvægur þáttur í að innleiða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslenska löggjöf, eins og íslenska ríkið skuldbatt sig til að gera við fullgildingu samningsins árið 2016.

Sú skuldbinding þýðir að íslenska ríkið verður að tryggja að íslensk lög veiti fötluðu fólki alla þá vernd gegn mismunun á öllum sviðum samfélagsins, sem mælt er fyrir um í 5. gr. samningins, sem hefur yfirskriftina „Jafnrétti og bann við mismunun og hljóðar svo: 


     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa.

Í þessu sambandi skiptir 3. mgr. 5. gr. samningsins, þar sem mælt er fyrir um skyldu ríkja til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða, sérstöku máli. „Viðeigandi aðlögun“ er skilgreind í 2. gr. samningsins. Þar segir:

„Viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.

Samtökin ítreka ábendingu um að nauðsynlegt sé að skoða vel hvort rétt, sanngjarnt og eðlilegt sé að hafa skilyrði um „langvarandi“ í skilgreiningu fötlunar og fatlaðs fólks í lögunum í ljósi efnis og tilgangs laganna og eðlis þeirra margvíslegu mannréttinda sem þeim er ætlað að vernda. Í því sambandi er afar mikilvægt að líta til þess að skilyrði til að eiga lagalegan rétt til verndar gegn mismunun á grundvelli fötlunar á öllum sviðum samfélagsins þurfa alls ekki falla að öllu leyti saman við skilyrði til réttar til tiltekinnar þjónustu.  

Samtökin fagna því að skipa eigi starfshóp, sbr. 10. gr. frumvarpsins, „til að fjalla sérstaklega um mismunun vegna tengsla og mögulegar tillögur til breytinga á lögum þessum og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, til að koma til móts við þessar háttar mismunun“ en leggja eindregið til að starfshópnum  verði einnig falið að fjalla um mismunun á grundvelli skynjunar eða skilnings (e. discrimination by perception). Með mismunun á grundvelli skynjunar eða skilnings er átt við þegar einstaklingi er mismunað vegna þess að hann er talinn tilheyra tilteknum hópi, s.s. talinn vera fatlaður, samkynhneigður, tiltekinnar trúar o.s.frv.

 

Þá vilja Landssamtökin Þroskahjálp enn og aftur benda á að í 33. gr. samnings Sameinuðu þjóanna, sem hefur yfirskriftina „Framkvæmd og eftirlit innanlands", er kveðið á um skyldur ríkja hvað varðar eftirlit með að fatlað fóllk njóti allra þeirra mannréttinda og verndar gegn mismunun sem mælt er fyrir um í samningnum.

Í 2. mgr. 33. gr. er sú skylda lögð á ríki, sem fullgilt hafa samninginn, að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun, sem tekur mið af Parísar-meginreglunum (e. Paris Principles), til að hafa eftirlit með að fatlað fólk njóti allra þeirra mannréttinda sem mælt er fyrir um í samningnum.

Vernd fyrir mismunun á öllum sviðum samfélagsins er grundvallarþáttur í samningnum. Stofnun sem uppfyllir skyldur ríkisins samkvæmt 2. mgr. 33. gr. samningsins hefur ekki enn verið sett á af íslenska ríkinu fót þó að nú séu meira en fimm ár síðan ríkið skuldbatt sig til þess með fullgildingu samningsins árið 2016.

Íslenska ríkið hefur þó viðurkennt þessa skyldu eins og m.a. má sjá í áformum um frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun sem dómsmálráðuneytið birti til kynningar í samráðsgátt stjórnarráðsins 5. mars 2019. Þar segir:

Á undanförnum árum hefur verið stefnt að því að koma á laggirnar sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution) sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið, viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir. Fjöldi áskorana hefur borist frá innlendum og erlendum aðilum um að koma á fót slíkri stofnun.

Sem dæmi má nefna að íslenska ríkið fékk fjölmörg tilmæli þess efnis í tengslum við allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda á Íslandi árið 2016 (UPR) og var samþykkt að fylgja þeim eftir. Þá leggur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti árið 2016, þá skyldu á íslenska ríkið að slík stofnun sé til staðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins.

Þar segir einnig:

Loks má greina ákveðna áherslu á mannréttindi í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, þar sem m.a. er lögð áhersla á mannréttindi í utanríkisstefnu Íslands, mannréttindi hinsegin fólks, mannréttindi barna skv. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í síðastnefnda samningnum er gerð krafa um tilvist sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar og er slík stofnunin því nauðsynlegur liður í innleiðingu samningsins.

Samtökin telja að það eftirlit sem nú er hér landi með því að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda, sem áréttuð eru og varin í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks þ.m.t. og sérstaklega vernd gegn mismunun á grundvelli fötlunar, sé engan veginn fullnægjandi. Að mati samtakanna er það eftirlit ómarkvisst og brotakennt og alls ekki nægilega óháð félagsmálaráðuneytinu, sveitarfélögum og fleiri stjórnvöldum sem bera mesta ábyrgð lögum samkvæmt á að veita fötluðu fólki nauðsynlegan stuðning og þjónustu til að það geti notið þeirra mannréttinda sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að veita og tryggja.

 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar  segir að mannréttindastofnun verði stofnuð en þar kemur ekki fram hvenær það verður gert. Í ljósi þess mikla dráttar sem þegar er orðinn á því að hrinda í framkvæmd þessari þjóðréttarlegu skyldu sem íslenska ríki undirgekkst fyrir meira en fimm árum síðan, þ.e. við fullgildingu samnnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, skora Landssamtökin Þroskahjálp á ríkisstjórnina og Alþingi að ljúka því mikilvæga verkefni án frekari tafa.

 

Sérstaklega skal áréttað að Jafnréttisstofa uppfyllir alls ekki kröfur 2. mgr. 33. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks né Parísar-meginreglnanna. Það fyrirkomulag sem er samkvæmt núgildandi lögum við eftirlit íslenska ríkisins með að fatlað fólk njóti mannréttinda og sé varið fyrir mismunun á grundvelli fötlunar á öllum sviðum samfélagsins, eins og er tilgangur og markmið þess frumvarps sem hér er til umsagnar, uppfyllir því ekki kröfur samnings SÞ og skyldur íslenska ríkisins.

 

Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með allsherjar- og menntamálanefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum, áherslum og tillögum.

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má lagafrumvarp sem umsögnin á við hér.



[1]Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum.