Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd)

Reykjavík 11. febrúar 2022

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd)

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum greinum og ákvæðum hans og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja það, sbr. 4. gr. samningsins.

Eins og kunnugt er er viðurkennd sú lögskýringarregla í íslenskum rétti að skýra beri lög í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000.

Með vísan til framangreinds telja Landssamtökin Þroskahjálp ljóst að við meðferð og ákvarðanir varðandi umsóknir fatlaðs fólks um alþjóðlega vernd hér á landi sé skylt að taka mikið tillit til skuldbindinga sem hvíla á íslenska ríkinu samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

5. gr. samningsins hefur yfirskriftina “Jafnrétti og bann við mismunun” og hljóðar svo:

   “1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.

     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.

     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.

     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa.” (Undirstr. Þroskahj.)

 

“Viðeigandi aðlögun” í skilningi samningsins er skilgreind svo í 2. gr. hans:

    “„viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.”

Undanfarið ár hafa Landssamtökin Þroskahjálp fengið til umsagnar og skoðunar æ fleiri mál sem varða fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd og fjölskyldur þeirra. Fullt tilefni er til að ætla að meðferð slíkra mála sé oft ekki í samræmi við þær skyldur sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og íslenskum lögum. Á meðal þeirra atriða sem ekki eru uppfyllt í mörgum tilvikum í umræddum málum er sú afdráttarlausa og augljósa skylda, sem leiðir af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, að greina og túlka gögn eða grunsemd sem gefur vísbendingar um fötlun með atbeina sérfræðinga á því sviði, veita viðeigandi aðlögun við málsmeðferð og taka tillit til sérlega viðkvæmrar stöðu sem leiðir af fötlun þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er “fötlun” ekki breyta sem haldið er til haga í tölfræði stofnunarinnar og því er ekki mögulegt að nálgast upplýsingar um fjölda fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd. Hins vegar hefur Þroskahjálp upplýsingar um tólf mál þar sem fatlaðir umsækjendur áttu í hlut á síðasta ári, börn og fullorðnir. Þegar fjölskyldur þessara einstaklinga eru taldir með er ljóst að fjöldi þeirra sem verður fyrir áhrifum úrskurða í þessum málum hleypur á tugum. Grunur leikur á að um fleiri einstaklinga sé að ræða en vegna kerfislægra hindrana hefur ekki reynst mögulegt að ganga úr skugga um það. Það samræmist, að mati samtakanna, ekki skyldu samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, að safna ekki tölfræði um stöðu fatlaðs fólks.[1]

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum áhyggjum af því að þær breytingar sem er að finna í frumvarpinu geta reynst varasamar með tilliti til mannréttinda og rétrraröryggis fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þeir einstaklingur og sá hópur er eðli máls samkvæmt almennt enn berskjaldaðari en umsækjendur um alþjóðlega vernd almennt. Samtökin telja því mjög nauðsynlegt að frumvarpið sé yfirfarið mjög vandlega með tilliti til þess að tryggt verði að breytingar leiði ekki til að staða fatlaðra umsækjenda verði enn verri en nú er og að ákvæði laganna samræmist þeim kröfum sem gera verður til ríkis til að það geti talist taka fullt tillit til alþjóðlega viðurkenndra mannréttinda og meginreglna réttarríkisins.

Þegar hafa komið fram annmarkar á umsýslu útlendingayfirvalda þegar fatlað fólk á í hlut, sem m.a. hafa leitt til þess að Útlendingastofnun hefur gert drög að verklagsreglum sem miða að því að uppfylla betur þær skyldur sem af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks leiða. Viðfangsefnið nú hlýtur því augljóslega að vera að bæta lagalega stöðu þessa hóps en ekki veikja hana. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er því lýst yfir að flóttamannamálum verði hagað í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna með því að taka vel á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru í hættu og eiga rétt á að komast í skjól. Mjög fáir eru í jafnviðkvæmri stöðu og fatlaðir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þá skal bent á að í 11. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er fjallað sérstaklega um fatlað fólk sem er í eða kemur úr aðstæðum sem hefur hrakið fólk frá heimilum sínum og heimalandi. Þar segir:

Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir.

 

Í ljósi framangreinds vilja Landssamtökin Þroskahjálp koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við frumvarp það sem hér er til umsagnar:

Varðandi tillögu að breytingu á 33. grein laganna, um réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd.

 Samkvæmt breytingartillögu í frumvarpinu mun réttur til þjónustu og stuðnings falla niður 30 dögum eftir að úrskurður í máli fellur. Í breytingartillögunni er þó tiltekið að ekki sé heimilt að fella niður réttindi barna auk þess sem barnshafandi konur skulu ávallt fá aðgang að mæðravernd og fæðingarhjálp. Nauðsynlegt er að einnig verði skýrt ákvæði um að óheimilt sé að fella niður réttindi og þjónustu við fatlað fólk, sem er í sérlega viðkvæmri stöðu og ríkri þörf fyrir samfellda þjónustu og stuðning.

35. grein a, samkvæmt breytingatillögunni, fjallar um endurteknar umsóknir.

Þar er fjallað um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að endurtekin umsókn sé tekin til meðferðar og jafnframt sett inn ákvæði um að formaður eða varaformaður kærunefndar Útlendingamála fái heimild til þess að úrskurða einir í slíkum málum. Landssamtökin Þroskahjálp vilja undirstrika mikilvægi þess að í þeim tilvikum sem ný viðbótargögn sem lögð eru fram varða fötlun og/eða skerðingu verði til þess hæfur aðili fenginn til þess að leggja mat á gögnin og gildi þess fyrir umsóknina túlkuð með hliðsjón af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Samtökin benda á að upp geta komið, og upp hafa komið, atvik þar sem umsækjandi um alþjóðlega vernd býr við “ósýnilega” fötlun, s.s. þroskahömlun og/eða einhverfu sem ekki upplýsist um fyrr en eftir að úrskurður hefur verið kveðinn upp í máli viðkomandi. Komi fram gögn sem benda til fötlunar hvílir sú rannsóknarskylda á stjórnvaldi að kanna hvort þau eiga við rök að styðjast og ef svo er, hvaða áhrif það hefur á niðurstöðu í málinu. Mikilvægt er að slík gögn fái viðhlítandi rannsókn og skoðun og telja Landssamtökin Þroskahjálp eðlilegt og nauðsynlegt að til þess bærir aðilar komi þar að og veiti kærunefndar útlendingamála leiðsögn og upplýsingar.

 

Grein 114. A fjallar um heilbrigðisskoðun og læknisrannsóknir.

Hér er fjallað um hvaða læknisrannsókna heimilt er að krefjast og jafnframt sett inn ákvæði um að viðurkenndur heilbrigðisstarfsmaður, eða annar aðili sem er til þess bær að ákvarða heilbrigðisástand viðkomandi, framkvæmi rannsóknina. Landssamtökin Þroskahjálp benda á mikilvægi þess að sömu vinnubrögð séu viðhöfð til þess að meta þau heilbrigðisgögn og vottorð sem umsækjandi kann að leggja fram um fötlun og/eða skerðingar sem skipt geta máli varðandi umsókn. Gera verður kröfu um að slík gögn séu metin af viðurkenndum aðili sem hefur þekkingu og forsendur til að lesa úr og leggja mat á slík gögn.

 

Landssamtökin Þroskahjálp taka heilshugar undir ítarlega umsögn Rauða krossins á Íslandi um frumvarpsdrögin. Sama máli gildir um umsögn Barnaheilla sem benda á að umrædd frumvaprsdrög séu líkleg til að skerða verulega rétt barna og fjölskyldna þeirra.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs varðandi það mál sen hér er til umsagnar til að tryggja réttindi fatlaðs fólks og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og er svohljóðandi:

„Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

 

Virðingarfyllst,

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna

 

Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér:

 



[1] 31. gr.

Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun.

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar. Vinnuferli við að safna og viðhalda þessum upplýsingum skulu:

         a)          vera í samræmi við lögmæltar öryggisráðstafanir, þar á meðal löggjöf um gagnavernd, til þess að tryggja trúnað og virðingu fyrir einkalífi fatlaðs fólks;

         b)          vera í samræmi við alþjóðlega viðurkennd viðmið um vernd mannréttinda og grundvallarfrelsis og siðferðileg viðmið við söfnun og notkun tölfræðilegra upplýsinga.

     2.      Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að innleiða skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og takast á við þær hindranir sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.

     3.      Aðildarríkin skulu ábyrgjast miðlun fyrrnefndra tölfræðilegra upplýsinga og tryggja fötluðu fólki og öðrum aðgengi að þeim.