Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um hvítbók í málefnum inflytjenda
18. júní 2024
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Samtökin fagna þeirri vinnu sem um er fjallað í hvítbókinni og telja margt þar vel gert, s.s. hvað varðar þátttöku innflytjenda í kosningum, á vinnumarkaði, íslenskukennslu og viðurkenningu á námi erlendis.
Þá vilja samtökin hrósa félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu fyrir að hafa auðlesna útgáfu af hvít bókinni.
Samtökin telja að fjalla þyrfti meira um hvernig á að haga stuðningi og þjónustu við fólk, sem býr við tvöfalda eða jafnvel margfalda mismunun / jaðarsetningu, t.a.m. vegna fötlunar þess sjálfs eða aðstandenda. Þar þarf ekki síður að mennta starfsfólk, sem hefur það hlutverk að veita þjónustu og stuðning en þá sem nota þjónustuna.
Samtökin árétta sérstaklega mikilvægi þess að vel og skipulega sé tekist á við hatursorðræðu gagnvart innflytjendum, þ.m.t. hælisleitendum og flóttafólki og fordómum og neikvæðu viðhorfi gagnvart þeim. Í því sambandi skiptir m.a. mjög miklu máli að auka verulega sýnileika þeirra í samfélaginu og tryggja mun betur en nú er gert að raddir þeirra heyrist, m.a. og ekki síst í fjölmiðlum og að fjölga innflytjendum í sveitarstjórnum og á Alþingi.
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum áhuga og vilja til samráðs við stjórnvöld við þau afar mikilvægu viðfangsefni og réttlætismál, sem um er fjallað í hvítbókinni og vísa í því sambandi til eftirfarandi ákvæðis 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp
Katarzyna Kubiś, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.