Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um hvítbók um byggðamál – drög að stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi drög að byggða- og aðgerðaáætlun.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.

Þroskahjálp vill árétta þær miklu efasemdir sem samtökin hafa með skýrum hætti komið á framfæri við hlutaðeigandi ráðuneyti og Alþingi um að rétt hafi verið falla frá kröfu í lögum um lágamarksfjölda fólks á hverju þjónustusvæði fyrir fatlað fólk, eins og gert var með lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í þessu sambandi benda samtökin á að mjög vandséð er að fámenn sveitarfélög hafi burði og aðstæður til að bjóða upp á margbreytilega og stundum mjög sérhæfða þjónustu sem þeim ber að gera samkvæmt lögunum. Þá er fullt tilefni til að hafa af því áhyggjur að það kunni að verða erfitt fyrir fámenn sveitarfélög að hafa starfsfólk í þjónustu sinni sem býr yfir fullnægjandi og sérhæfðri menntun og þekkingu sem nauðsynleg er og krafa er gerð um í lögum og reglum. Um tilgang ákvæða um þjónustusvæði með lágmarksfjölda íbúa segir í athugasemdum í lagafrumvarpinu þar sem mælt var fyrir um þjónustusvæðin:

“Lagt er til að landinu verði skipt í þjónustusvæði þannig að á hverju þjónustusvæði séu að lágmarki 8.000 íbúar. Er því gert ráð fyrir að sveitarfélög með færri en 8.000 íbúa hafi samvinnu við önnur sveitarfélög um skipulag og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk þar sem ekki var talið rekstrarlega hagkvæmt fyrir fámennari sveitarfélög að standa ein að þjónustunni þannig að gæði væru nægilega tryggð. Tilgangur þjónustusvæða er því að tryggja að þeir sem veita þjónustuna hafi faglega og fjárhagslega getu til að sinna verkefninu. Enn fremur standa vonir til að einstök þjónustusvæði geti stuðlað að almennri eflingu félagsþjónustu sveitarfélaga en mikilvægt er að þjónustusvæðin hafi yfir að ráða fjölbreyttum þjónustuúrræðum og nauðsynlegri sérþekkingu í málaflokknum til þess að geta sinnt verkefninu. Faglegur viðbúnaður þarf að vera til staðar svo að unnt sé að mæta þeim þjónustuþörfum sem fyrir hendi eru með tiltölulega skömmum fyrirvara, svo sem vegna fæðingar fatlaðs barns eða flutnings fatlaðs einstaklings á svæðið. Enn fremur er með þessu skipulagi leitast við að takmarka áhættu af sveiflum í fjölda og þjónustuþörfum fatlaðs fólks.”

Ekki verður annað séð en þessi rök fyrir þjónustusvæðum með lágmarksfjölda íbúa séu enn í fullu gildi.

Með því að falla frá kröfu í lögum um þjónustusvæði með lágmarksfjölda íbúa verður enn örðugra fyrir ríkið að standa við þá lagalegu skyldu sína að tryggja jafnræði og samræmi milli búsetusvæða fatlaðs fólks. Það er brýnt og snúið viðfangsefni sem verður enn þá erfiðara viðfangs með fleiri „þjónustueiningum“. Í þessu sambandi verður að líta til þess að það er alvarlegt brot gegn mannréttindum ef íbúum landsins er mismunað á grundvelli búsetu hvað varðar þjónustu þar sem í húfi eru mjög miklir hagsmunir og réttindi þeirra sem hlut eiga og mjög oft er lögbundin Þjónusta við fatlað fólk forsenda þess að þeir sem á henni þurfa að halda fái notið mikilsverðra mannréttinda í skilningi laga og samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks  og annarra mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur undirgengist.

Einnig verður í þessu sambandi að líta til þess að ósamræmi og/eða ójafnræði á milli búsetusvæða að þessu leyti vegur einnig mjög alvarlega að tækifærum fatlaðs fólks til að flytjast á milli svæða og mest að tækifærum þeirra sem hafa miklar þjónustuþarfir vegna fötlunar sinnar og eru því mest háðir þjónustunni. Rétturinn til að ráða búsetu sinni er mannréttindi í skilningi stjórnarskrár og mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja. Eftir því sem „þjónustueiningarnar“ verða fleiri eykst hætta á ósamræmi milli þeirra eðli máls samkvæmt.

Landssamtökibn Þroskahjálp hvetja hlutaðeigandi stjórnvöld að tryggja að við stefnumótun og gerð aðgerðaáætlana varðandi byggðamál sé litið nægilega til þess sem að framan er rakið. Samtökin lýsa miklum vilja og áhuga á samráði við stórnvöld við það verkefni og vísa í því sambandi til skyldna stjórnvalda samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skulbatt sig þar með til að framfylgja. Í 4. gr. samningsins segir um það:


      “1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

         c)          að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð,

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.”

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér