Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um Kosningar – drög að reglugerðum.
23. febrúar 2024
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og nú er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.
Í 5. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina jafnrétti og bann við mismunun, segir:
1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. [feitl. og undirstr. Þroskahjálp]
Í 2. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Skilgreiningar, segir:
„Viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi. [feitl. Þroskahjálp]
Þá er í samningnum áréttaður réttur fatlaðs fólks til að nýta sér óhefðbundin samskipti. Í 21. gr. hans, sem hefur yfriskriftina Tjáningar- og skoðanafrelsi og aðgangur að upplýsingum,segir m.a.:
Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þ.m.t. frelsis til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hvers kyns samskiptamiðlum að eigin vali, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, þar á meðal með því:
a) að láta fötluðu fólki í té upplýsingar, sem almenningi eru ætlaðar, í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni, sem tekur mið af mismunandi fötlun, tímanlega og án aukakostnaðar,
b) að viðurkenna og auðvelda notkun táknmáls, punktaleturs, aukinna og óhefðbundinna samskipta og allra annarra aðgengilegra samskiptaleiða, -máta og -forma sem fatlað fólk kýs að nota í opinberum samskiptum. [feitl. Þroskahjálp]
Í 29. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi, segir m.a.:
Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt:
a) tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa að eigin frjálsu vali, þ.m.t. rétt og tækifæri til þess að kjósa og vera kosið, þar á meðal með því:
i. að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi,
aðgengileg og auðskilin og auðnotuð,
ii. að vernda rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum án ógnana og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með árangursríkum hætti og að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og nýrrar tækni þar sem við á,
iii. að tryggja að fatlað fólk geti tjáð vilja sinn sem kjósendur á frjálsan hátt og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklings að eigin vali við að greiða atkvæði. [feitl. Þroskahjálp]
Í drögum að reglugerð um breyting á reglugerð um aðstoð við atkvæðagreiðslu nr. 432/2022, sem hér er til umsagnar, segir:
Geti kjósandi ekki skýrt fulltrúa kjörstjóra eða kjörstjórnar frá því hvernig hann vill greiða atkvæði skal kjörstjóri eða kjörstjórn synja kjósanda um aðstoð við atkvæðagreiðsluna.
Hér er kjörstjóra og/eða kjörstjórn falið vald til að synja kjósanda um aðstoð við atkvæðagreiðsluna, án nokkurra kvaða um að leitað skuli allra leiða til að greiða farsællega úr málinu áður en að kosningabærum aðila er neitað um lýðræðislegan grundvallarrétt sinn. Getur þessi grein verið alvarleg ógn við lýðræðisleg réttindi fólks sem notar óhefðbundna tjáningu vegna fötlunar sinnar, sem og fólks með þroskahamlanir. Til að tryggt verði að greinin sé ekki í berhöggi við þau réttindi og vernd sem fötluðu fólki eru tryggð samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, þarf í það minnsta, að mati Landssamtakanna Þroskahjálpar, að bæta inn texta um rétt fatlaðra einstaklinga til viðeigandi aðlögunar og skyldu hlutaðeigandi stjórnvalda til að tryggja þeim hann.
Samtökin lýsa eindregnum áhuga og vilja til samráðs og samstarfs við ráðuneytið um þau mikilvægu mál sem hér eru til umsagnar og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samningsins sem hljóðar svo:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp
Nálgast má málið sem umsögnin á við hér.