Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá þingsályktunartillöguna senda til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við velferðarnefnd og Alþingi varðandi hana.
Sá hópur fólks sem býr við alverstu kjörin í íslensku samfélagi eru þeir sem engar tekjur hafa aðrar en bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þær bætur eru af óútskýrðum og órökstuddum ástæðum umtalsvert lægri (um 30.000 kr.) en atvinnuleysisbætur, sem enginn er þó of sæll af. Staðreyndin er hins vegar sú að atvinnuleysisbætur eru tímabundið ástand á meðan örorkuþegar eru í þessari kröppu stöðu árum saman og margir allt sitt líf, án tækifæra til þess að afla sér annarra tekna.
Örorkuþegar hafa ítrekað setið eftir á síðustu árum. Sú hækkun sem boðuð er í frumvarpi til fjárlaga vegna ársins 2020 er langt undir hækkun lágmarkslauna. Því er óhjákvæmilegt að minna ríkisstjórnina og Alþingi á 69. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sem hljóðar svo:
Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. (Undirstr. Þroskahj.).
Með vísan til framangreinds lýsa Landssamtökin Þroskahjálp stuðningi við tillöguna og hvetja velferðarnefnd að beita sér fyrir því að hún verði samþykkt.
Virðingarfyllst,
f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri.
Þingsályktunartillagan sem umsögnin á við má lesa hér