Landssamtökin þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri.
Ellilífeyrir er réttur sem allir öðlast á ákveðnum degi í lífi sínum. Örorkubætur eru hins vegar réttur sem er bundinn við afleiðingar ákveðinna skerðinga eða langtímaveikinda sem þarf að sanna fyrir opinberum aðilum með ýmsum gögnum.
Eftirlaunaþegar hafa flestir komið sér upp einhverjum eignum sem fæstum öryrkjum hefur tekist að gera. Eftirlaunaþegar hafa yfirleitt ekki fyrir öðrum að sjá en sjálfum sér. Því er oft öðru vísi farið með öryrkja.
Ýmis önnur atriði eru einnig ólík. Það er til dæmis mjög æskilegt að hafa bótakerfi sem mest atvinnuhvetjandi fyrir öryrkja. Það að greiða fyrir og hvetja unga öryrkja til atvinnuþátttöku byggist á töluvert öðrum rökum og sjónarmiðum en sú skoðun að það geti verið ósanngjarnt að fólk sem er orðið 67 ára geti ekki unnið, án þess að það skerði greiðslur til þess frá almannatryggingum.
Þessir tveir hópar, þ.e. aldraðir og öryrkjar, virðist því þegar grannt er skoðað eiga það eitt sameiginlegt að hafa ekki launaða vinnu sem nægir til framfærslu. Í örorkubótakerfinu má ætla að hið opinbera kerfi verði til frambúðar helsti veitandi bótanna, meðan lífeyrirsjóðir og séreignasparnaður muni taka yfir stærri hluta ellilífeyris.
Með vísan til þess sem að framan segir og þess sem fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni lýsa Landssamtökin þroskahjálp stuðningi við tillöguna.
Virðingarfyllst.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.
Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögn á við hér.