Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2022-2026, 627. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp visa til þess sem fram kemur í umsögn samtakanna um frumvarp til fjárlaga 2021 og fjármálaáætlun 2021-2025. Umsögnina mál nálgast á hlekk að neðan.

https://www.althingi.is/altext/erindi/151/151-20.pdf

 Þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017-2021.

Í þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017-2021 er að finna eftirfarandi aðgerð:

F.6. Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð.
     Markmið: Heildarmynd af samfélagslegum stuðningi við fatlað fólk sé ljós.
     Lýsing: Við fjárlagagerð verði skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með jafnrétti í huga. Áhrif útgjaldabreytinga á sviði velferðar, heilbrigðis og menntunar á stöðu og líf fatlaðs fólks verði skoðuð. Sérstaklega verði hugað að stöðu ungs fólks þegar það hefur sjálfstætt líf og áætlunum framfylgt um að útrýma herbergjasambýlum í áföngum. Skipaður verði stýrihópur með fulltrúum samstarfsaðila.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, samtök fatlaðs fólks og sveitarfélög.
     Tími: 2017–2021.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Breyttu verklagi komið á.

Landssamtökin Þroskahjálp telja fullt tilefni til að ætla að þessi aðgerð hafi verið orðin tóm frá því að Alþingi samþykkti þingsályktun um hana 31. maí 2017 og lagði þar með fyrir hlutaðeigandi ráðuneyti að vinna samkvæmt henni. Augljóst er að, mati samtakanna, að þessi aðgerð og sú aðferð sem hún mælir fyrir um er sérstaklega mikilvæg þegar um þrengist í samfélaginu með tilheyrandi ógnunum fyrir lífskjör og lífsgæði fólks almennt en þó sérstalega fyrir berskjaldaða og jaðarsetta hópa, eins og fatlað fólk. Landssamtökin Þroskahjálp skora því á fjárlaganefnd að fá upplýsingar frá félagsmálaráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu um hvernig staðið var að framkvæmd þessara aðgerðar við gerð fjármálaáætlunar fyrir árin 2022-2026.

 

Viirðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.

Nálgast má þingsályktunartillögu sem umsögnin á við hér.