Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um minningardag um fórnarlömb helfararinnar. (Þingskjal 111 – 110. mál).

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar  

 Fatlað fólk var einn þeirra hópa sem nasistar ofsóttu af skelfilegri grimmd og á árunum 1939 – 1945 myrtu þeir hundruð þúsunda fatlaðra barna og fullorðins fólks. Þau skipulögðu fjöldamorð voru byggð á hugmyndafræði nasista um kynþætti, þar sem litið var svo á að fatlað fólk ógnaði heilsu og hreinleika þýska kynstofnsins. Um þetta má m.a. lesa í bók Suzanne E. Evans, Hitler‘s Forgotten Victims: The Holocaust and the Disabled.[1]

 Skipulagðir glæpir gegn mannkyni öllu sem nasistar frömdu mega aldrei gleymast og við verðum að minnast þeirra til að geta frekar varast hugmyndarfæði fordóma, mismununar og haturs sem leiðir til slíkra grimmdarverka.

Samtökin taka heilshugar undir rökstuðning í greinargerð með ályktuninni fyrir mikilvægi þess að minnast helfararinnar þar sem segir:  

„Með því að tileinka þennan dag minningu fórnarlamba helfararinnar mætti fræða komandi kynslóðir hér á landi um afleiðingar hatursglæpa. Þannig yrði unnt að koma í veg fyrir fordóma og aukna tíðni slíkra glæpa milli ólíkra trúar- og þjóðfélagshópa svo að viðlíka hörmungar endurtaki sig ekki. Slíkur dagur fæli í sér tækifæri til að minnast fórnarlamba helfararinnar og vinna gegn kynþáttafordómum og mismunun til að skapa friðsamara og umburðarlyndara samfélag.“

Með vísan til þess sem að framan segir hvetja Landssamtökin Þroskahjálp Alþingi eindregið til að samþykkja þingsályktunartillöguna.

 

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

: Nálgast má þingsályktun sem umsögnin á við hér.

 

 



[1] https://www.amazon.co.uk/Hitlers-Forgotten-Victims-Holocaust-Disabled/dp/0752454021