Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um neyðargeðheilbrigðisteymi og fræðslu viðbragðsaðila

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um neyðargeðheilbrigðisteymi og fræðslu viðbragðsaðila, 235. mál

 

             23. október 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Mikil vöntun er á faglegri nálgun ef upp koma neyðartilfelli vegna einstaklinga með geðrænan vanda og eða vímuefnavanda. Samtökin vilja benda á nauðsyn þess að í þessu neyðargeðheilbrigðisteymi sé þekking á þörfum, aðstæðum og réttindum fólks með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverfs fólki. Úrræðin fyrir þennan hóp eru oft engin og oft á tíðum er lögreglan kölluð á vettvang sem hefur ekki tækifæri til að bregðast við stöðunni vegna skorts á geðheilbrigðisþjónustu.

Einnig leggja samtökin mikla áherslu á mikilvægi fræðslu til lögreglunnar og starfsmönnum neyðarlínunnar um fatlað fólk og mikilvægi viðeigandi aðlögunar.

Með vísan til þess sem að framan segir og þess sem fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni lýsa Landssamtökin Þroskahjálp eindregnum stuðningi við tillöguna.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér.