Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 568. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja af þessu tilefni koma eftirfarandi á framfæri.

Afar mikilvægt er að þýðing alþjóðlegra samninga sem mæla fyrir um mikilsverð mannréttindi fólks og skyldu stjórnvalda í því sambandi séu vandaðar og nákvæmar, þannig að síður komi upp ágreiningur um túlkun og afmörkun réttinda fólks og skyldna stjórnvalda. Með vísan til þess fagna samtökin því að þýðing samnings um réttindi fatlaðs fólks hafi verið endurskoðuð.

Þá hvetja samtökin íslenska ríkið til að kynna samninginn og nýja þýðingu hans vel fyrir fötluðu fólki og samtökum sem vinna að réttindamálum þess, stofnunum og starfsfólki ríkis og sveitarfélaga, almenningi og fjölmiðlum. Samtökin minna stjórnvöld í því sambandi sérstaklega á skyldur þeirra samkvæmt 8. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina “Vitundarvakning” og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeig­andi ráðstafanir: 
       a)      til þess að stuðla að vitundarvakningu alls staðar innan samfélagsins, einnig á vett­vangi fjölskyldunnar, um fatlað fólk og að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess, 
       b)      til þess að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, einnig þeim sem eru reist á kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins, 
       c)      til þess að stuðla að vitund um getu og framlag fatlaðs fólks. 
     2.      Meðal aðgerða í þessu skyni má nefna: 
       a)      að hefja og vinna stöðugt að átaksverkefnum um vitundarvakningu hjá almenningi sem miða að því: 
                  i.      að gera almenning móttækilegan fyrir réttindum fatlaðs fólks, 
                  ii.      að stuðla að jákvæðri ímynd fatlaðs fólks og efla vitund í samfélaginu um málefni þess, 
                  iii.      að stuðla að því að kunnátta, verðleikar og geta fatlaðs fólks séu viðurkennd í ríkari mæli, enn fremur framlag þess til vinnustaða og vinnumarkaðarins, 
       b)      að ýta undir það viðhorf á öllum skólastigum, meðal annars hjá öllum börnum frá unga aldri, að virða beri réttindi fatlaðs fólks, 
       c)      að hvetja fjölmiðla af hvaða gerð sem er til þess að gefa þá mynd af fötluðu fólki sem samræmist tilgangi samnings þessa, 
       d)      að stuðla að því að gerðar séu þjálfunaráætlanir um vitundarvakningu sem varða fatlað fólk og réttindi þess. 

 Þá vilja Landssamtökin Þroskahjálp beina eftirfarandi til allsherjar- og menntamálanefndar, Alþingis og hlutaðeigandi stjórnvalda.

 Nefnd samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur m.a. það mikilvæga hlutverk að gefa ríkjum leiðbeiningar, „almennar athugasemdir“ (e. General Comments), varðandi túlkun og framkvæmd á einstökum greinum samningsins og skýra hvernig þau geta staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt þeim. Nefndin hefur nú sent frá sér sjö almennar athugsemdir varðandi mjög mikilvægar greinar  og ákvæði í samningnum.[1]

 Það er mjög mikilvægt að athugasemdirnar séu öllum aðgengilegar og með þeim hætti að sem flestir geti skilið þær og nýtt. Landsþing Þroskahjálpar hefur því skoraði á íslensk stjórnvöld „að láta þýða almennar athugasemdir (e. General Comments) eftirlitsnefndar með samningnum varðandi túlkun einstakra ákvæða hans og gera þær öllum aðgengilegar, einnig á auðlesnu máli.“ Stjórnvöld hafa því miður ekki enn orðið við þessari áskorun samtakanna.

 Þroskahjálp skorar því enn á íslensk stjórnvöld að sýna í verki vilja sinn til að gera fötluðu fólki kleift að þekkja mannréttindi sín vel og standa sjálft vörð um þau. Það geta þau m.a. gert með því að láta þýða almennar athugasemdir eftirlitsnefndar samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.

: Nálgast má þingsályktunartillögu sem umsögnin á við hér.

 



[1] https://www.ohchr.org/EN/HRBodies/CRPD/Pages/GC.aspx