Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu, 634. mál.
Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér.
Landssamtökin Þroskahjálp fagna þingsályktunartillögunni. Samtökin vilja koma eftirfarandi á framfæri við velferðarnefnd og Alþingi varðandi réttindi fatlaðs fólks og skyldur stjórnvalda sem nauðsynlegt er að taka mið af við setningu reglna, gerð leiðbeininga og alla stefnumótun á sviði heilbrigðisþjónustu.
Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans og gera það sem gera þarf til að tryggja að fatlað fólk njóti allra þeirra réttinda sem mælt er fyrir um í samningnum, sbr. 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“.
Í samningnum eru ýmis ákvæði sem varða skyldur ríkisins til að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu og heilsugæslu og til að verja það fyrir mismunun á því sviði.
Í 5. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Jafnrétti og bann við mismunun“ segir m.a.:
Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
Í greininni er einnig kveðið á um skyldur stjórnvalda til að tryggja að fatlað fólk njóti viðeigandi aðlögunar, þ.e. að tekið sé tillit til einstaklingsbundinna þarfa fatlaðs fólks til að tryggt verði að það njóti réttinda og tækifæra til jafns við annað fólk á öllum sviðum, þ.m.t. hvað varðar aðgang að heilbrigðisþjónustu.
Í 8. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Vitundarvakning“ segir m.a.:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir:
a) til þess að stuðla að vitundarvakningu alls staðar innan samfélagsins, einnig á vettvangi fjölskyldunnar, um fatlað fólk og að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess,
b) til þess að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, einnig þeim sem eru reist á kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins, ...
11. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð“.Þar segir:
Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, einnig samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum og alþjóðlegum mannréttindalögum, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir ... (Feitletr. Þroskahj.)
10. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Réttur til lífs“ og hljóðar svo:
Aðildarríkin árétta að sérhver mannvera eigi eðlislægan rétt til lífs og skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk fái notið þess á virkan hátt til jafns við aðra.
Í 25. gr. samningsins[1] sem hefur yfirskriftina „Heilsa“ segir m.a.:
Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki eins og frekast er unnt án mismununar vegna fötlunar.
Í greininni segir einnig:
Aðildarríkin skulu einkum:
...
d) gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, meðal annars á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, með því, auk annars, að vekja til vitundar um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilsugæslu, og með útbreiðslu siðferðislegra viðmiðana meðal þeirra, ...
Ástæða þess að í þessum mikilvæga mannréttindasamningi er lögð svo mikil áhersla á skyldur ríkja til að gera margvíslegar ráðstafanir til að verja fatlað fólk fyrir mismunun almennt og sérstaklega hvað varðar heilbrigðisþjónustu og heilsugæslu er mjög einföld. Ríki heims vita og viðurkenna að slík mismunun hefur ávallt viðgengist og það er mjög mikil hætta á slíkri mismunun. Sú hætta er ávallt til staðar en hún er sérstaklega mikil þegar hættuástand skapast og álag á heilbrigðisþjónustu og verður óvenjulega mikið, eins og t.a.m. er nú vegna Covid 19.
Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks er sú lögð skylda á ríki að fara yfir löggjöf[2] sína og annað regluverk, stefnur og áætlanir til að tryggja fullt samræmi við allar kröfur sem leiða af samningnum og þetta sé því fullnægjandi m.t.t. þeirra mannréttinda fatlaðs fólks sem samningurinn mælir fyrir um og ver. Samtökin telja ljóst að sú þingsályktun sem hér er til umfjöllunar falli undir það.
Landssamtökunum þroskahjálp er ekki kunnugt um hvernig staðið hefur verið að framangreindri yfirferð af hálfu heilbrigðisyfirvalda og/eða Alþingis og að vitundarvakningu, þjálfun og fræðslu í heilbrigðiskerfinu um samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks og þeirra skyldna sem af honum leiða en lýsa miklum vilja og áhuga til að koma að þeim mikilvægu verkefnum.[3]
Samtökin óska eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi þingsályktunartillöguna og þau atriði sem nefnd eru hér að framan.
Virðingarfyllst,
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
[1] Greinin hljóðar svo í heild:
Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki eins og frekast er unnt án mismununar vegna fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af kyni, einnig að heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu einkum:
a) sjá fötluðu fólki fyrir heilsugæslu og heilbrigðisáætlunum sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra einstaklinga, meðal annars með tilliti til kyn- og frjósemisheilbrigðis og að því er varðar samfélagsáætlanir á sviði lýðheilsu,
b) bjóða fram þá heilbrigðisþjónustu sem fatlað fólk þarfnast, einkum vegna fötlunar sinnar, sem felur í sér eins snemmbæra greiningu og inngrip eftir því sem við á og þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og frekast er unnt og koma í veg fyrir frekari fötlun, einnig meðal barna og eldri einstaklinga,
c) bjóða fram fyrrnefnda heilbrigðisþjónustu eins nálægt samfélögum fólks og frekast er unnt, einnig í dreifbýli,
d) gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, meðal annars á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, með því, auk annars, að vekja til vitundar um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilsugæslu, og með útbreiðslu siðferðislegra viðmiðana meðal þeirra,
e) leggja bann við mismunun gagnvart fötluðu fólki að því er varðar sjúkratryggingar og líftryggingar, þar sem slíkar tryggingar, sem skulu boðnar fram á sanngjarnan og réttmætan hátt, eru heimilar samkvæmt landslögum,
f) koma í veg fyrir að einstaklingum sé synjað um heilsugæslu eða heilbrigðisþjónustu eða um mat og drykk þannig að um mismunun vegna fötlunar sé að ræða.
[2] Í þessu sambandi hlýtur t.a.m. að vekja athygli, í ljósi þess hversu stór hluti fólks er með fötlun af einhverju tagi og hversu háð margt fatlað fólk er heilbrigðisþjónustu, að í 1. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, þar sem er kveðið á um bann við mismunun, er fötlun ekki sérstaklega tilgreind. Málsgreinin hljóðar svo:
Óheimilt er að mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
[3] Í 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“, segir:
Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.