Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna, 17. mál.
Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfærandi við allsherjar- og menntamálanefnd varðandi hana.
Landssamtökin Þroskahjálp taka undir nauðsyn þess að unnin sé aðgerðaáætlun um verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna, m.a. til að koma í veg fyrir að skólar nýti aðferðir til þess sem ekki er tryggt að séu með hag nemanda að leiðarljósi, eins og nokkur kostur er. Í þessu sambandi verður að líta mjög til þess að ekki er nóg að útbúa verkferla, heldur þarf að taka á rót vandans, sem er mjög oft aukin vanlíðan barna og ungmenna í samfélaginu.
Efla þarf til muna stöðugildi kennara og annarra fagstétta innan skólakerfisins og auka við þverfaglega samvinnu þar sem ýmsir fagaðilar vinna saman að málefnum nemenda, s.s. þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, sálfræðinga, félagsráðgjafa, námsráðgjafa og kennara.
Þörf er á að efla og beita markvisst snemmtækum og sívirkum úrræðum og tryggja viðeigandi og fullnægjandi stuðning við nemendur með hegðunar-, félags og/eða tilfinningavanda til að draga úr líkum á að nemendur sýni ógnandi hegðun eða beiti ofbeldi.
Virðingarfyllst,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna
Nálgast má þingsályktunartillögu sem umsögnin á við hér.