Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um útlendingalög (alþjóðleg vernd)

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um útlendingalög (alþjóðleg vernd)

            30. nóvember 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ.

Að marggefnu tilefni árétta og ítreka Landssamtökin Þroskahjálp eftirfarandi:

Sú skýra skylda hvílir á dómsmálaráðuneytinu að rýna útlendingalögin sérstaklega og án frekari tafa með tilliti til ákvæða samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og skyldna sem af þeim leiða fyrir hlutaðeigandi stjórnvöld ríkisins.

Samtökin telja, að gefnu tilefni, mjög brýnt að þetta verði gert fljótt og vandlega. Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans. Meðferð útlendingafyrivalda á málum fatlaðra hælisleitenda hefur verið og er, að mati samtakanna, engan veginn í samræmi almennar meginreglur samningsins og tiltekinna ákvæða hans sem hafa sérstaka þýðingu í þessu sambandi.

4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingarÞar segir:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...

Þá er óhjákvæmilegt að árétta að mannúð og mannúðarsjónarmið verða eðli máls samkvæmt að hafa mjög mikið vægi við túlkun og beitingu mannréttindaákvæða laga og fjölþjóðasamninga, almennt og sérstaklega þegar mjög jaðarsett og berskjaldað fólk á hlut að máli og mjög mikilsverð réttindi og veigamiklir hagsmunir þess eru í húfi. Þetta á augljóslega við um fatlaða hælisleitiendur og flóttafólk. Samtökin telja mjög mikið skorta á að útlendingayfirvöld hafi gætt þessa við meðferð og ákvarðanir í málum fatlaðra hælisleitenda, þrátt fyrir að í stefnuskrá þeirra tveggja ríkisstjórnarflokka, sem fara með þau þrjú ráðuneyti sem mesta ábyrgð bera á þessu sviði, þ.e. dómsmálaráðuneytið, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og forsætisráðueytið, sé sérstök áhersla lögð á að mannúð skuli höfð að leiðarljósi í þessum málaflokki.

Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins segir:

Útlendingalöggjöfin þarf á hverjum tíma að byggja á mannúð, réttlæti, ábyrgð og raunsæi þar sem smæð þjóðarinnar er viðurkennd. (Feitletr. Þroskahj.).

Í stefnuskrá VG segir:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að málefni fólks á flótta hafi til þessa verið of lituð af því að vera stjórnsýsluverkefni frekar en þjónustu við fólk með mannúð og virðingu að leiðarljósi. (Feitletrþ Þrosakhj.).

Þá ítreka og árétta Landssamtökin Þroskahjálp eftirfarandi ályktun og áskorun til dómsmálaráðherra, sem samþykkt var á landsþingi samtakanna árið 2021:

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að innleiða verklag sem tryggir að tekið sé fullt tillit til fötlunar við meðferð mála fatlaðs flóttafólks og fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Fólk sem neyðist til að flýja heimili sín vegna styrjalda, ofbeldis eða ofsókna er allt í brýnni þörf fyrir stuðning og vernd. Stjórnvöldum er skylt að veita þá vernd samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum. Fatlað fólk sem neyðist til að flýja heimili sín og heimalönd er sérstaklega berskjaldað.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru ýmis ákvæði sem taka ber mið af við meðferð mála flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd þegar fatlað fólk á í hlut. Skýrar vísbendingar eru um að meðferð þessara mála sé alls ekki í samræmi við þær skyldur sem á hlutaðeigandi stjórnvöldum hvíla.

Stórefla þarf þekkingu á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks innan þeirra stofnana sem fara með mál umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks og innleiða þar verklag sem tryggir þau réttindi sem fatlað flóttafólk nýtur samkvæmt samningnum sem var fullgiltur af íslenska ríkinu árið 2016.

Þá minna Landssamtökin Þroskahjálp dómsmálaráðuneytið á samráðsskyldu stjórnvalda, sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér