Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, með síðari breytingum (móttaka flóttafólks og innflytjendaráð), 457. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi frumvarpið.

Miklar og margvíslegar vísbendingar eru um að mikil hætta sé á að fatlað fólk af erlendum uppruna (innflytjendur, hælisleitendur, flóttafólk) fari á mis við þjónustu sem það þarf mjög á að halda og á rétt á samkvæmt lögum og reglum, vegna skorts á viðeigandi leiðbeiningum, upplýsingum og stuðningi.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa allt frá stofnun samtakanna árið 1976 lagt höfuðáherslu á að málefni fatlaðs fólks séu málefni samfélagsins alls. Í ljósi umtalsverðrar fjölgunar fólks af erlendum uppruna (flóttamenn, hælisleitendur og innflytjendur) í íslensku samfélagi undanfarin ár hefur Þroskahjálp lagt ríkari áherslu á málefni þessa hóps, ekki síst fatlaðra barna og ungmenna af erlendum uppruna. Verkefnastjóri var nýlega ráðinn til samtakanna sem sinnir m.a. sérstaklega málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna auk þess að sinna verkefnum sem varða fötluð börn og ungmenni sérstaklega.

Samtökin hafa á undanförnum misserum unnið að því, í samstarfi við ýmsar stofnanir ríkis og sveitarfélaga og ýmis félög að greina stöðu fatlaðra barna af erlendum uppruna. Sú greining rennir stoðum undir að fyrrnefndar vísbendingar eigi við rök að styðjast. Vegna m.a. menningarmunar og tungumálaerfiðleika er flóttafólk sem og innflytjendur oft ekki upplýst um réttindi sín og stöðu fatlaðs fólks í íslensku samfélagi.

Markmið Þroskahjálpar er að stuðla að vitundarvakningu, miðla upplýsingum um réttindi og úrræði og styrkja þjónustu við allt fatlað fólk, þar með talið fólk af erlendum uppruna. Samtökin fengu styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála árið 2018 til þess að gera myndbönd um stöðu fatlaðra barna í íslensku samfélagi. Þrjú slík myndbönd hafa verið gerð og er nú verið að talsetja þau á fimm tungumál. Samtökin munu á næstunni  koma þeim á framfæri við aðstandendur barna af erlendum uppruna í samstarfi við ýmis félög og stofnanir ríkis og sveitarfélaga sem hafa miklar og margvíslegar tengingar við fólk af erlendum uppruna á Íslandi. 

Landssamtökin Þroskahjálp vilja vekja athygli á mikilvægi þess að tryggja upplýst samþykki áður en vinnsla eða miðlun persónuupplýsinga um fatlað flóttafólk á sér stað. Fatlað flóttafólk er í sérstaklega viðkvæmri stöðu þegar kemur að því að gefa samþykki fyrir miðlun upplýsinga. Ekki einungis er það berskjaldað vegna tungumálaerfiðleika og stöðu sinnar sem flóttafólk, í nýjum aðstæðum sem það skilur ekki alltaf eða gerir sér grein fyrir réttindum sínum í, heldur einnig vegna föltunar og/eða skerðinga sem verður undir öllum kringumstæðum að taka fullt tillit til. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið telja samtökin afar mikilvægt að í lögum og reglum varðandi móttöku flóttamanna og þjónustu við þá sem og varðandi innflytjendur verði sérstaklega hugað að aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks almennt og sérstaklega fatlaðra barna og ungmenna. Samtökin lýsa miklum áhuga og vilja til að koma að því verkefni og minna í því sambandi á samráðsskyldur stjórnvalda við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttindamálum þess samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.[2] Íslenska ríkið fullgilti samninginn árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða öll ákvæði hans og framfylgja þeim.

Landssamtökin þroskahjálp óska eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónamiðum sínum og áherslum varðandi frumvarpið.

 Virðingarfyllst,

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 Anna Lára Steindal, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp

 

Frumvarpið sem umsögnin á við má skoða hér

 



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn. 

[2] 4. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“. þar segir:

 „Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“