Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi varðandi frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021 og tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 á framfæri við fjárlaganefnd og Alþingi.
Örorkubætur.
Örokubætur hækka um 3.6% samkvæmt frumvarpinu en það er áætluð meðaltalshækkun launa samkvæmt töxtum á árinu 2021. Frítekjumark atvinnutekna er óbreytt i krónum talið tíunda árið í röð, þrátt fyrir að stjórnvöld séu sífellt í orði að hvetja öryrkja til að taka þátt á vinnumarkaði. Taxtar lægstu launa hækka umtalsvert meira en örorkubætur þannig að bilið á milli hæstu örorkubóta og lágmarkslauna eykst og leiðir til enn meiri gliðnunar á milli kjara þessara tveggja hópa.
Með vísan til þessara staðreynda og stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sendi stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar eftirfarandi ályktun frá sér 7. október sl. og er henni hér með komið á framfæri við fjárlaganefnd og Alþingi:
Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar lýsir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021 og fjármálaáætlun 2021–2025 sem ríkisstjórnin hefur lagt fram.
Hvorki í frumvarpinu né áætluninni sjást nokkur merki þess að ætlunin sé að bæta hag þess hóps sem býr við verstu kjörin í íslensku samfélagi; fatlaðs fólks sem þarf að reiða sig á örorkulífeyri til framfærslu alla ævi vegna fötlunar og/eða fárra tækifæra á ósveigjanlegum vinnumarkaði.
Verði frumvarpið og áætlunin samþykkt óbreytt af Alþingi þýðir það að örorkulífeyrisþegar dragast enn meira aftur úr hvað lífskjör varðar og eru dæmdir til áframhaldandi fátæktar.
Þetta er algjörlega óréttlætanlegt og í ekki í nokkru samræmi við það sem segir í stefnuyfirlýsingunni sem ríkisstjórnin setti fram fyrir þremur árum síðan:
„Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Til að svo megi verða þarf að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.“
Enn bólar ekkert á aðgerðum til að efna þessi fyrirheit stjórnarflokkanna og ef marka má fjárlögin og og fjármálaáætlunina stendur alls ekki til að bæta úr því.
Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar mótmælir harðlega því óréttlæti gagnvart fötluðu fólki sem felst í fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætluninni.
Stjórnin skorar hér með á ríkisstjórnina og Alþingi að bæta nú þegar þau sultarkjör sem fatlað fólk hefur þannig að þau dugi til lágmarkstækifæra til sjálfstæðs lífs, þátttöku í samfélaginu og annarra mannréttinda sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að tryggja öllum landsmönnum.
Fjölgun samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).
Samtökin leggja til að samningum um notendastýrða persónulega aðstoð verði fjölgað.
Með lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, var notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) tekin í lög sem aðferð við þjónustu við fatlað fólk. Fyrir fatlað fólk sem vill nýta sér NPA og hefur miklar þjónustuþarfir auka samningar um NPA mjög mikið tækifæri til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu og til að njóta margra annarra mikilsverðra mannréttinda.
í svari félags- og barnamálráðherra frá 2. september sl. við fyrirspurn um NPA-samninga kemur fram að NPA-samningar hafi í árslok 2019 verið 87. Samkvæmt ákvæði til bráðbirgða í lögum nr. 38/2018 er heimild fyrir því að ríkissjóður veitti fé til allt að 103 samninga það ár. Samkvæmt sömu lagagrein er heimild fyrir að veita fé til allt að 150 NPA-samninga á árinu 2021 og þar er mælt fyrir um heimild til að veita fé til allt að 172 samninga á árinu 2022.
Með því að fjölga þeim NPA-samningum sem ríkið leggur fé til þannig að þeir verði a.m.k. 172 á árinu 2021 yrði hraðað framkvæmd laga um aðgang fatlaðs fólks að NPA-samningum og því tryggð mikilsverð tækifæri til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu. Með því yrðu einnig til störf við að aðstoða þá sem hafa NPA-samninga fyrir fólk sem ella væri atvinnulaust eða í skertum störfum og fengi því bætur frá ríkinu. Í Þessu sambandi er mjög mikilvægt að líta til þess að vandfundið er það verkefni þar sem eins hátt hlutfall af útgjöldum er beinn launakostnaður.
Bygging íbúða fyrir fatlað fólk. - Niðurlagning herbergjasambýla / stofnana.
Samtökin leggja til að framkvæmd lagaákvæða um niðurlagningu herbergjasambýla / stofnana þar sem fatlað fólk býr verði hraðað með því að ráðast í átak við byggingu íbúða fyrir fatlað fólk.
Í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, er mælt fyrir um „að fatlað fólk eigi rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra“ og að „óheimilt sé að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að að það búi í tilteknu búsetuformi.“ Þá segir í bráðabirgaðákvæði II í lögunum að fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skuli bjóðast aðrir búsetukostir. Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks er þetta sérstaklega áréttað í aðgerð F.6. sem hefur yfirskriftina „Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð.“
Til að uppfylla þessar lagalegu skyldur til að gefa fötluðu fólki kost á að að eignast eigið heimili og njóta margvíslegra mannréttinda sem því tengjast, s.s. tækifæra til einkalífs og fjölskyldulífs, verða stjórnvöld að tryggja að nægilegar margar íbúðir verði byggðar.
Með því að ráðast í átak við að byggja íbúðir fyrir fatlað fólk yrði hraðað framkvæmd lagalegrar skyldu sem hvílir nú þegar á stjórnvöldum til að gera fötluðu fólki kleift að eignast heimili og um leið yrðu sköpuð störf við byggingu íbúðanna fyrir fólk sem ella væri atvinnulaust eða í skertum störfum og fengi því atvinnuleysisbætur frá ríkinu.
Þá er í þessu sambandi óhjákvæmilegt að nefna að herbergjasambýli eru afar óæskilegt búseturform með tilliti til smitvarna og möguleika fólks til að fara í sóttkví og einangrun. Stjórnvöld eiga því erfitt með að standa við skyldur sínar til að verja það fatlaða fólk sem býr við þær aðstæður fyrir smitsjúkdómum til jafns við aðra.
Sjálfstæð mannréttindastofnun.
Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum samningsins. Þá segir í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar: „Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.“
2. mgr. 33. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina „Framkvæmd og eftirlit innanlands, segir:
Aðildarríkin skulu, í samræmi við réttar- og stjórnkerfi hvers ríkis um sig, viðhalda, treysta, tiltaka eða koma á rammaáætlun, einnig einu eða fleiri sjálfstæðum kerfum, eftir því sem við á, í því skyni að stuðla að, vernda og fylgjast með framkvæmd samnings þessa. Aðildarríkin skulu, þegar þau tiltaka slíkt kerfi eða koma því á, taka mið af þeim meginreglum sem gilda um stöðu og starfsemi innlendra stofnana á sviði verndar og eflingar mannréttinda.
Þessi ákvæði þýða að sú skylda hvílir á íslenska ríkinu að koma á fót sjálfstæðri innlendri stofnun, sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið (e. Paris Principles) til að hafa eftirlit með mannréttindum fatlaðs fólks. Íslenska ríkið hefur viðurkennt þessa skyldu eins og m.a. má sjá í áformum um frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun sem dómsmálráðuneytið birti til kynningar í samráðsgátt stjórnarráðsins 5. mars 2019. Þar segir:
Á undanförnum árum hefur verið stefnt að því að koma á laggirnar sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution) sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið, viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir. Fjöldi áskorana hefur borist frá innlendum og erlendum aðilum um að koma á fót slíkri stofnun. Sem dæmi má nefna að íslenska ríkið fékk fjölmörg tilmæli þess efnis í tengslum við allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda á Íslandi árið 2016 (UPR) og var samþykkt að fylgja þeim eftir. Þá leggur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti árið 2016, þá skyldu á íslenska ríkið að slík stofnun sé til staðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins. (Feitletr. Þroskahj.).
Þar segir einnig:
Loks má greina ákveðna áherslu á mannréttindi í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, þar sem m.a. er lögð áhersla á mannréttindi í utanríkisstefnu Íslands, mannréttindi hinsegin fólks, mannréttindi barna skv. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í síðastnefnda samningnum er gerð krafa um tilvist sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar og er slík stofnunin því nauðsynlegur liður í innleiðingu samningsins. (Feitletr. Þroskahj.).
Þrátt fyrir þessa skýru þjóðréttarlegu skyldu til að setja á fót sjálfstæða stofnun, sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið, til að hafa eftirlit með mannréttindum fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið tók á sig árið 2016, og hefur viðurkennt, sbr. það sem að framan segir og þrátt fyrir framangreinda yfirlýsingu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um innleiðingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, virðast íslensk stjórnvöld vera fallin frá áformum um að setja slíks stofnun á fót. Í drögum að skýrslu um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir nefnilega í kafla á bls. 62 sem hefur yfirskriftina „Sjálfstætt innlent eftirlit“:
Á Íslandi er ekki til staðar sjálfstæð mannréttindastofnun sem uppfyllir Parísarviðmiðin svokölluðu um mannréttindastofnanir. Undanfarin ár hefur dómsmálaráðuneytið unnið að því að koma á fót slíkri stofnun. Vorið 2018 hófst vinna við gerð frumvarps um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun og voru áform um það birt á samráðsgátt Stjórnarráðsins í mars 2019. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir stofnuninni í fjármálaáætlun fyrir 2020–2025 og verður því ekki hægt að koma henni á fót að svo stöddu.
Landssamtökin Þroskahjálp mótmæla harðlega að íslensk stjórnvöld skuli ætla að vanrækja skýra skyldu sína samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks til að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun til að hafa eftirlit með mannréttindum fatlaðs fólks. Samtökin telja að það eftirlit sem nú er hér landi með því að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda sem áréttuð eru og varin í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks sé engan veginn fullnægjandi. Að mati samtakanna er það eftirlit ómarkvisst og brotakennt og alls ekki nægilega óháð félagsmálaráðuneytinu, sveitarfélögum og fleiri stjórnvöldum sem bera mesta ábyrgð lögum samkvæmt á að veita fötluðu fólki nauðsynlegan stuðning og þjónustu til að það geti notið þeirra mannréttinda sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að veita og tryggja.
Réttindagæsla fyrir fatlað fólk.
Í lögum nr. 88/2011 er kveðið á um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Sú réttindagæsla er, eins og reynslan hefur sýnt og mörg dæmi sanna, gríðarlega mikilvæg til að þessi berskjaldaði hópur fólks fái notið réttinda og tækifæra sem hann á rétt á samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og fái til þess nauðsynlegan og viðeigandi stuðning. Það er óumdeilanlegt, að mati Þroskahjálpar, að réttindagæslan hefur verið og er vanfjármögnuð og undirmönnuð miðað við þau mikilvægu og mörgu verkefni sem hún þarf að sinna. Það er því, að mati samtakanna, óskiljanlegt og óábyrgt að ekki skuli gert ráð fyrir fjárveitingum til réttindagæslunnar í fjárlagafrumvarpinu og þingsályktun um fjármálaætlun í samræmi við það.
Það er enn ámælisverðara í ljósi þess að ekki verður séð að íslenska ríkið hyggist standa við skuldbindingu sína til að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun til að hafa eftirlit með að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda sem áréttuð eru í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sbr. það sem um það segir hér að framan.
Með vísan til þess sem að framan er rakið skora Landssamtökin Þroskahjálp á fjárlaganefnd og Alþingi að gera nauðsynlegar breytingar á fjárlagafrumvarpinu og ályktun um fjármálaáætlun að tyggja að réttindagæslan geti sinnt verkefnum sínum sem eru bráðnauðsynleg m.t.t. mannréttinda fatlaðs fólks.
Fjölmennt símenntunar og Þekkingarmiðstöð.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að framlag til Fjölmenntar verði lækkað um 15 milljónir kr. á árinu 2021.
Landssamtökin Þroskahjálp taka heils hugar undir það sem segir í umsögn stjórnar Fjölmenntar til fjárlaganefndar um það og áskorun stjórnarinnar til fjárlaganefndar og Alþingis um að endurskoða þennan órökstudda niðurskurð sem er í engu samræmi við yfirlýsingar hlutaðeigandi stjórnvalda um að tryggja fötluðu fólki meiri tækifæri til menntunar og skyldur þeirra til þess samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Óskert þjónusta sveitarfélaga við fatlað fólk verði tryggð.
Sú þjónusta sem sveitarfélögum er skylt lögum samkvæmt að veita fötluðu fólki er gríðarlega mikilvæg fyrir lífsgæði fatlaðs fólks og tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Mjög oft er þessi þjónusta algjör forsenda þess að fatlað fólk geti notið margvíslegra mannréttinda sem eru sérstaklega áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja. Í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er mælt fyrir um að við framkvæmd laganna skuli framfylgja samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Samtökin hafa verulegar áhyggjur af að áhrif Covid -19 á fjárhagsstöðu einhverra sveitarfélaga geti orðið þannig að þeim reynist örðugt að standa við skuldbindingar sínar til að veita fötluðu fólki þá þjónustu sem það á skilyrðislausan rétt til samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Með vísan til þess sem að framan segir skora samtökin á fjárlaganefnd og Alþingi að líta sérstaklega til þess að við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið og þingsályktun um fjármálælaáætlun og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sveitarfélög geti örugglega staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart fötluðu fólki samkvæmt lögum, samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og öðrum mannréttindasamningum sem við eiga og íslenska ríkið hefur gengist undir.
Þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021.
Í þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 er að finna eftirfarandi aðgerð:
F.6. Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð.
Markmið: Heildarmynd af samfélagslegum stuðningi við fatlað fólk sé ljós.
Lýsing: Við fjárlagagerð verði skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með jafnrétti í huga. Áhrif útgjaldabreytinga á sviði velferðar, heilbrigðis og menntunar á stöðu og líf fatlaðs fólks verði skoðuð. Sérstaklega verði hugað að stöðu ungs fólks þegar það hefur sjálfstætt líf og áætlunum framfylgt um að útrýma herbergjasambýlum í áföngum. Skipaður verði stýrihópur með fulltrúum samstarfsaðila.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, samtök fatlaðs fólks og sveitarfélög.
Tími: 2017–2021.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælanlegt markmið: Breyttu verklagi komið á.
Landssamtökin Þroskahjálp telja fullt tilefni til að ætla að þessi aðgerð hafi verið orðin tóm frá því að Alþingi samþykkti þingsályktun um hana 31. maí 2017 og lagði þar með fyrir hlutaðeigandi ráðuneyti að vinna samkvæmt henni. Augljóst er að, mati samtakanna, að þessi aðgerð og sú aðferð sem hún mælir fyrir um er sérstaklega mikilvæg þegar um þrengist í samfélaginu með tilheyrandi ógnunum fyrir lífskjör og lífsgæði fólks almennt en þó sérstalega fyrir berskjaldaða og jaðarsetta hópa, eins og fatlað fólk. Landssamtökin Þroskahjálp skora því á fjárlaganefnd að fá upplýsingar frá félagsmálaráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu um hvernig staðið var að framkvæmd þessara aðgerðar við gerð frumvarps til fjárlaga árið 2021 og þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025.
Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með fjárlaganefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum, áherslum og tillögum.
Virðingarfyllst,
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér: og hér
[1]Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn og ungmenni og. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum, með um 6 þúsund félagsmenn.