Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til kosningalaga, 339. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og það samráð sem haft var við samtökin við samningu þess.

 Samtökin fagna sérstaklega þeirri breytingu sem er að finna í 74. gr. og 90. gr. frumvarpsins þar sem réttur til aðstoðar að eigin vali við að greiða atkvæði er rýmkaður. Sú breyting er liður í að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslenskan rétt, eins og íslenska ríkið skuldbatt sig til að gera með fullgildingu samningsins árið 2016. Í þessu sambandi vísa samtökin sérstaklega til ákvæða a) iii í 29. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi“ og hljóðar svo:

     Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt: 

     a)      tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa eftir frjálsu vali, þar með eru talin réttur og tækifæri til þess að kjósa og vera kosinn, einnig með því: 
           i.      að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin og auðnotuð, 
       ii.      að vernda rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosning­um og þjóðaratkvæðagreiðslum án ógnana og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með virkum hætti og að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og nýrrar tækni þar sem við á, 
       iii.      að fatlað fólk geti tjáð vilja sinn sem kjósendur á frjálsan hátt og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði, 
     b)      stuðla ötullega að mótun umhverfis þar sem fatlað fólk getur tekið virkan og fullan þátt í opinberri starfsemi, án mismununar og til jafns við aðra, og hvetja til þátttöku þess í opinberri starfsemi, einnig: 
           i.      þátttöku í starfsemi frjálsra félagasamtaka og samtaka, sem láta sig málefni almenn­ings varða og stjórnmálalíf viðkomandi lands, og í störfum og stjórn stjórnmálaflokka, 
       ii.      þátttöku í því að mynda og gerast aðilar að samtökum fatlaðs fólks til þess að rödd þess heyrist á alþjóðavettvangi, heima fyrir á landsvísu og innan landsvæða og sveitarfélaga. 
 

Samtökin hvetja eindregið til þess að í XIII. kafla laganna sem hefur yfirskriftina „Kjörstaðir“ verði sett ákvæði um að þess  skuli sérstakalega gætt að við val kjörstaða skuli þess gætt að aðgengi fyrir fatlað fólk sé örugglega gott og hindranalaust.

 

Samtökin óska eftir að fá fund með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að gera nefndnni betur grein fyrir afstöðu sinni og áherslum.

 

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér:

 



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína og starf á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn. Samtökin fjármagna starfsemi sína að langmestu leyti með framlögum frá einstaklingum.