Landssamtökin Þroskahjálp styðja heils hugar þau markmið frumvarpsins að greiða fyrir að barn eigi góð og náin samskipti við báða foreldra sína og fjölskyldur þeirra beggja, enda taki allar ákvarðanir á grundvelli laganna mið af því sem er viðkomandi barni fyrir bestu og tillit verði tekið til vilja barns við allar ákvarðanir sem varða það. Mikilvægt er að jafna aðstöðumun foreldra þannig að báðir foreldrar fái að bera jafna ábyrgð á og taka ákvarðanir um málefni sem varða börn þeirra.
Samtökin fagna því sérstaklega að í frumvarpinu er aukin áhersla lögð á samráð við börn og ákvæði sett inn um samtal að frumkvæði barns, sem felur í sér að barn getur snúið sér til sýslumanns og óskað eftir samtali um fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu og umgengni.
Með sérstöku tilliti til fatlaðra barna vilja samtökin koma eftirfarandi athugasemdum um frumvarpið á framfæri:
- Huga þarf sérstaklega að því að fötluð börn njóti í raun sömu tækifæra til búsetu á heimilum beggja foreldra á grundvelli laganna. Í því felst m.a. að allur stuðningur sem þau þurfa á að halda sem og hjálpartæki o.þ.h. sé til staðar á báðum heimilum. Þegar barn þarf á umfangsmikinn stuðning og/eða hjálpartæki í daglegu lífi er óraunhæft að ætla að það njóti í raun möguleika til að hafa búsetu á heimilum beggja foreldra nema nauðsynlegur stuðningur og hjálpartæki séu til staðar á báðum heimilum. Afar mikilvægt er að lög og reglur sem hafa þýðingu í þessu sambandi séu yfirfarin m.t.t. þessa og endurskoðuð eftir því sem þörf er á til að koma í veg fyrir að börnum verði mismunað á grundvelli fötlunar.
- Í ákvæði sem fjallar um samtal að frumkvæði barns er gert ráð fyrir því að sýslumaður geti nýtt sér liðsinni sérfræðings í málefnum barna samkvæmt 74. gr. við undirbúning og framkvæmd samtalsins og metur sýslumaður það í hverju máli fyrir sig hvort nýta eigi liðsinni sérfræðings. Mikilvægt að tryggja að fötluð börn sem kunna að eiga frumkvæði að slíku samtali fái viðeigandi stuðning og að sýslumaður njóti ævinlega liðsinnis sérfræðings í málefnum fatlaðra barna, eftir því sem við á í hverju tilviki, við undirbúning og framkvæmd samtalsins. Vegna fötlunar sinnar kunna fötluð börn að þurfa annars konar stuðning en ófötluð börn og afar mikilvægt er að hann sé veittur.
- Í þeim tilvikum þar sem foreldrar fara með sameiginlega forsjá en gera ekki með sér samning um skipta búsetu og falla því ekki undir frumvarpið, þarf að tryggja jafnara aðgengi að upplýsingum um mál sem varða barnið og er foreldri nauðsynlegt til að umönnun þess verði sem best og eins og þarfir barnsins krefjast þegar það dvelst hjá umgengnisforeldri.Mikilvægt að báðir foreldrar hafi jafnan aðgang að upplýsingum um fötluð börn sín til að tryggja þeim sem besta umönnun og þar með það sem er barni fyrir bestu.
Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með allsherjar- og menntamálanefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum.
Virðingarfyllst,
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna
Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.
[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og fleiri fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. 20 félög eiga aðild að samtökunum, með um 6 þúsund félagsmönnum