Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið sent til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.
Samtökin telja margt til bóta sem lagt er til í frumvarpinu.
Samtökin leggja þó áherslu á að lög og reglur um húsnæðisstuðning verði ekki þannig að fatlað fólk, sem vegna fötlunar og/eða ósveigjanlegs vinnumarkaðar hefur lítil tækifæri til að afla tekna á vinnumarkaði, fái síður þann stuðning sem það þarf á að halda til að geta búið sjálfstætt og átt eigið heimili en þeir sem eru virkir á vinnumarkaði. Þeir sem þurfa að láta örorkubætur duga fyrir allri sinni framfærslu eru sá hópur fólks sem býr við verstu kjörin í íslensku samfélagi, enda eru örorkubætur mun lægri en lágmarkslaun og m.a.s. töluvert lægri en atvinnuleysisbætur sem enginn er þó of sæll af. Þá er í sumum sveitarfélögum mjög löng bið fyrir fatlað fólk eftir húsnæði sem það á þó lögbundinn rétt til að fá. Regluverk sem er þannig að félagslegt húsnæði standi fötluðu fólki síður til boða en fólki sem er virkt á vinnumarkaði veikir því enn stöðu þessa berskjaldaða hóps og minnkar líkur á að þeir sem tilheyra honum fái notið þeirra mannréttinda og lífsgæða að eiga heimili og þar með tækifæra til einkalífs og fjölskyldulífs og fleiri mannréttinda, til jafns við aðra.
Þá benda samtökin á að mjög mikilvægt er að stjórnvöld tryggi nægilegt fjármagn inn í stofnframlagakerfið um leið og skilyrði varðandi tekju- og eignamörk verða rýmkuð til að það leiði ekki til að minna verði til skiptanna fyrir fatlað fólk og aðra þá hópa sem hafa úr minnstu að spila og eru því alverst settir á húsnæðismarkaði.
Samtökin fá ekki séð að það sé til bóta, eins og lagt er til í frumvarpinu, að fella niður heimildir sveitarfélaga til að leggja til 4% viðbótarframlag. Samtökin leggja því til að gaumgæfilega verði skoðað hvort ekki sé rétt að hafa einhverja slíkar heimildir fyrir sveitarfélög áfram í lögunum.
Samtökin telja vera til bóta ákvæði um að ef lengri tími en 2 ár líða frá samþykkt umsóknar þar til síðari hluti stofnframlaga er greiddur út skuli síðari hluti taka mið af þróun vísitölu byggingarkostnaðar frá samþykki umsóknar. Í því sambandi benda samtökin á að það kunni að þurfa að skýra í lögum og/eða reglugerð að sama eigi við um meðhöndlun Íbúðalánasjóðs á
langtímalánum sem tekin eru vegna bygginga og tilgreind hafa verið í umsóknum um stofnframlög.
Að lokum vilja Landssamtökin Þroskahgjálp koma því á framfæri að óvissa um hvort stofnframlög fáist til verkefna er mjög íþyngjandi fyrir félög og aðra sem um þau sækja og leiðir til aukins kostnaðar og fyrirhafnar. Það er því mjög æskilegt að skýrt verði í reglum og í allri framkvæmd varðandi stofnframlögin hvenær þau verða auglýst til umsóknar, hver umsóknarfrestur er og hvenær umsóknir eru afgreiddar. Þá er æskilegt, ef mögulegt er, að umsækjendur um stofnframlög fái að vita ef umsóknir þeirra hafa verið samþykktar þó að enn kunni að vera einhver óvissa um afgreiðslu annarra umsókna.
Landsamtökin Þroskahjálp óska eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum varðandi frumvarpið og fleira sem því tengist.
Virðingarfyllst,
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Frumvarpið sem umsögnin á við má skoða hér
[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlað fólks. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn. Samtökin reka húsbyggingasjóð sem byggir og kaupir íbúðir sem eru leigðar fötluðu fólki á hagstæðum leigukjörum. Samtökin eiga nú u.þ.b. 80 íbúðir víðs vegar um landið. Þau byggðu nýlega 5 íbúða kjarna í Sandgerði, eru með sambærilegt verkefni í gangi á Akranesi og undirbúa önnur á öðrum stöðum í samstarfi við hlutaðeigandi sveitarfélög.