Umsögn landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

 Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum samningsins, eins og mælt er sérstaklega fyrir um í 4. gr. hans, sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“. Þar segir m.a.:  

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 
    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til: 
          a)      að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika, 
          b)      að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...         

Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks nær til allra sviða samfélagsins og hefur það meginmarkmið að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og jöfn tækifæri á við aðra á öllum sviðum og að verja það fyrir mismunun af öllu tagi. Sérstaklega er kveðið á um þessar skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki jafnrétti í 5. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Jafnrétti og bann við mismunun“ og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar. 
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa. 

Í samningnum er einnig kveðið á  um skyldur ríkja til að líta sérstaklega til aðstæðna og þarfa fatlaðra kvenna og til að gera nauðsynlegar ráðstafanir, þ.mt. á sviði laggasetningar, til að tryggja þeim jafnrétti og fullnægjandi vernd fyrir mismunun. Í formálsorðum samningsins segir:

 

 


Ríkin, sem eiga aðild að samningi þessum, ... 

     p)      sem hafa áhyggjur af erfiðum aðstæðum fatlaðs fólks sem sætir margþættri eða síaukinni mismunun vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmála­skoðana eða annarra skoðana, þjóðlegs, þjóðernislegs eða félagslegs uppruna eða frum­byggjauppruna, eigna, ætternis, aldurs eða annarrar stöðu, ...

     q)      sem viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, að verða þolendur ofbeldis, áverka eða misþyrminga, vanrækslu eða hirðuleysis, illrar meðferðar eða misneytingar, ...

   s)      sem leggja áherslu á nauðsyn þess að ávallt sé tekið mið af kynjasjónarmiðum í þeirri viðleitni að stuðla að því að fatlað fólk njóti fullra mannréttinda og mannfrelsis, ...

6. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Fatlaðar konur“ og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur margþættrar mismun­unar og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannrétt­inda og mannfrelsis til jafns við aðra. 
     2.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þróun, framgang og valdeflingu kvenna til fulls í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og mannfrelsis sem sett eru fram í samningi þessum. 

Í 16. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum“, segir:

 

1.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, einnig með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna. (Feitletr. þroskahj.)

 

2. gr. þessa laga frumvarps, sme hér er til umsaganr, hefur yfirskritina „Orðskýringar“. Þar segir:

 

3. Fjölþætt mismunun: Þegar manneskju er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt lögum þessum, lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði. Fjölþætt mismunun getur annaðhvort verið samtvinnuð þannig að tvær eða fleiri mismununarástæður skapi sérstakan grundvöll mismununar eða verið tvöföld/margföld þannig að mismununin sé vegna tveggja eða fleiri sjálfstæðra mismununarástæðna.

 

Í 1. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, sem hefur yfirskriftina „Gildissvið“, segir:

Lög þessi gilda um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, ...“ (Feitletr. Þroskahj.)

Eins og fyrr sagði fullgilti íslenska ríkið samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans hér á landi, m.a. og ekki síst með því að „að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði í því skyni. Af því og öðru sem hér að framan er rakið  hvílir sú mikilvæga, skýra og augljósa skylda á íslenska ríkinu, að mati Landssamtakanna Þroskahjálpar, þegar það semur og setur lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, að fara sérstaklega yfir hvaða ákvæði þarf að hafa í lögunum til að að tryggja fötluðum konum jafnrétti í reynd og fullnægjandi og virka vernd gegn mismunun, eins og mælt er fyrir um að ríkinu sé skylt að gera í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Í þessu sambandi vilja samtökin sérstaklega vekja athygli á  skyldu ríkisins til að tryggja með lögum rétt fatlaðra kvenna til „viðeigandi aðlögunar“, sbr. 3. mgr. 5. gr. samningsins. Réttur til viðeigandi aðlögunar er algjör forsenda þess að fatlað fólk fái í raun notið jafnréttis og jafnra tækifæra á við aðra.

Í 2. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Skilgreiningar“ er viðeigandi aðlögun skilgreind svo:

    „viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi, 

Landssamtökin Þroskahjálp telja ástæðu til að ætla að við samningu þessa lagafrumvarps hafi verulega skort á að litið hafi verið til lagalegra réttinda og verndar sem fatlaðar konur eiga að njóta samkvæmt samningi SÞ um réttndi fatlaðs fólks og skyldna íslenska ríkisins til að tryggja það samkvæmt samningnum. Samtökin skora því á forsætisráðuneytið að láta fara sérstaklega yfir frumvarpið m.t.t. þess að tryggja að það uppfylli kröfur sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Landssamtökin þroskahjálp lýsa miklum áhuga og vilja til að koma að því verkefni og vísa í því sambandi til  3. mg. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks þar sem segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

 

Reykjavík, 6. ágúst 2020.

 

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér 

 



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um sex þúsund félagsmenn.