Umsögn LÞ um heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og laga um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og laga um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010

            10. janúar 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og nú er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.

Í samniningnum eru ýmis ákvæði sem hafa sérstaka þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umsagnar m.a. í 24. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Menntun. Þar segir m.a.:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og á grundvelli jafnra tækifæra skulu aðildarríkin tryggja menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum og við símenntun sem beinist að því:
         a)          að mannleg geta og tilfinning fyrir reisn og eigin verðleikum þroskist til fulls og að virðing fyrir mannréttindum, grundvallarfrelsi og mannlegum margbreytileika vaxi, 
         b)          að fatlað fólk geti þroskað til fulls persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,
         c)          að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í frjálsu samfélagi.


     5.      Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk hafi aðgang að almennu námi á háskólastigi, starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.
(Feitletr. Þroskahj.)

4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingarÞar segir:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
         c)          að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, ... 
(Feitletr. Þroskahj.)

Landssamtökin Þroskahjálp telja afar brýnt að fram fari heildarendurkoðun á framhaldsfræðslukerfinu og lögum um framhaldsfræðslu ekki síst með teknu tilliti til fullorðins fatlaðs fólks með þroskahamlanir og/eða skyldar fatlanir sem er utan skilgreiningar í núverandi lögum. Fullorðið fatlað fólk með þroskahamlanir og skyldar fatlanir er í afar viðkvæmri stöðu og skortir mikilvæg tækifæri til áframhaldandi menntunar að framhaldsskóla loknum ekki síst til þess að auka færni sína til þátttöku á vinnumarkaði í síbreytilegu umhverfi vinnumarkaðar. Áhrif aukinnar tæknivæðingar og stafrænna lausna á vinnumarkaði þrengir að þeim hópi sem fullorðið fatlað fólk með þroskahamlanir og skyldar fatlanir tilheyrir þegar kemur að starfavali við núverandi stöðu þar sem tækifæri til endurmenntunar eru afar fábrotin líkt og kemur fram í markmiðum með endurskoðunnni en þar segir að markmiðið sé m.a.  að styrkja framhaldsfræðsluna sem fimmtu stoð hins opinbera menntakerfis, sem gefur fullorðnu fólki með stutta skólagöngu eða skerta möguleika til að fá störf, ný tækifæri til náms og hæfniþróunar.

Það er því fagnaðarefni að skýrt sé kveðið á um að ekki þyki nægilega skýrt hver markhópur framhaldsfræðslu er og mikilvægt sé að útvíkka lög um framhaldsfræðslu þannig að í þeim verði m.a. skýr ákvæði skýr um menntun fatlaðra fullorðinna einstaklinga og tekið fram að í aðgerðaráætlun um fjórðu iðnbyltinguna sem forsætisráðuneyti gaf út 2020 var tekið fram að framhaldsfræðslukerfið þurfi að einfalda og skýra svo þjónustan nái til breiðari hóps fullorðinna.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja til áframhaldandi virks og náins samstarfs og samráðs við hlutaðeigandi stjórnvöld um þau mikilvægu mál sem hér eru til  umfjöllunar og vísa í því sambandi til til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Sara Dögg Svanhildardóttir, verkefnisstjóri við samhæfingu námsframboðs og atvinnutækifæra

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér