Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar á frumvarpi til laga um almannatryggingar

Landssamtökin Þroskahjálp þakka velferðarnefnd fyrir að fá tækifæri til að skila umsögn um ofangreint frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við nefndina.
5. október 2015.
 
145. löggjafarþing 2015–2016.
 
Þingskjal 3  —  3. mál.
 
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (hækkun lífeyris í 300 þús. kr.).
 
Landssamtökin Þroskahjálp þakka velferðarnefnd fyrir að fá tækifæri til að skila umsögn um ofangreint frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við nefndina.
 
Lágmarkskjör til framfærslu einstaklings eru mannréttindamál eins og réttilega kemur fram  í ályktun 33. flokksþings Framsóknarflokksins í apríl sl. um kjaramál en þar segir m.a.:

„Tillögur um 300 þúsund krónur í lágmarkslaun er sanngjörn mannréttindakrafa.“
 
Mannréttindi ná til allra einstaklinga og skiptir í því sambandi engu máli hvort þeir eru virkir á vinnumarkaði eða eiga ekki möguleika á að vera það vegna fötlunar eða heilsubrests og eiga því rétt á stuðningi til að framfleyta sér, sbr. 76. gr. íslensku stjórnarskrárinnar.
 
Samkvæmt alþjóðlegum mannréttindsamningum hvílir sérstök skylda á stjórnvöldum til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja einstaklingum sem tilheyra hópum sem standa höllum fæti full mannréttindi og án mismununar. Enginn vafi er á því að verulegur hluti þeirra sem fá örorku- eða ellilífeyri tilheyrir slíkum hópi, hvað varðar efnahag og möguleika til virkrar þátttöku í samfélaginu.
 
Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en mjög margir þeirra sem samningurinn nær til eru algjörlega háðir lífeyri hvað varðar framfærslu sína, er  „full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar“, meginregla og markmið sem stjórnvöldum ber að vinna að með tiltækum ráðum og nauðsynlegum aðgerðum, sbr. t.a.m. 3. gr. samningsins. 
 
Í 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, segir að markmið laganna sé „að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“
 
Þá segir í sömu lagagrein að við framkvæmd laganna skuli „tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“ 
 
Augljóst er að full og virk þátttaka í samfélaginu án mismununar og aðgreiningar er undir því komin að fatlað fólk hafi ráð á að taka þátt í ýmsu félagsstarfi,menningarlífi og afþreyingu með sama hætti og ófatlað fólk. Ljóst er að slíkri samfélagslegri þátttöku og virkni fylgir óhjákvæmilega umtalsverður kostnaður og þá er vitað og viðurkennt að slík þátttaka er af 
 
ýmsum ástæðum mjög oft mun kostnaðarsamari fyrir fatlaðan einstakling en hún er fyrir ófatlað fólk. Til alls þessa þurfa stjórnvöld mjög að líta við setningu laga sem varða kjör og tækifæri fatlaðs fólks ef þau vilja í verki en ekki bara í orði standa við skuldbindingar sínar um að tryggja því  eins og öðrum borgurum í landinu mannréttindi og tækifæri án mismununar og skapa hér samfélag án aðgreiningar. 
 
Einstaklingar sem ekki eiga möguleika á að afla sér tekna á vinnumarkaði vegna fötlunar eða heilsubrests standa sérstaklega höllum fæti hvað varðar kjör og framfærslu og tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Þá njóta þeir sem tilheyra slíkum hópum ekki samningafrelsis varðandi kjör sín eins og er á almennum vinnumarkaði og hafa því ekki möguleika á að bæta þau með þeim hætti, heldur eru hvað það varðar algjörlega háðir ríkisvaldinu, sem ákvarðar kjör þeirra einhliða. Óþarft er að taka fram að þeir hafa ekki heldur þá möguleika sem almennt vinnuafl oft hefur til að bæta kjör sín til lengri eða skemmri tíma með því að skipta um starf eða fá betur launað starf á sama vinnustað eða með því að vinna yfirvinnu eða hlutastörf. 
 
Verulegur hluti þeirra einstaklinga sem byggir framfærslu sína alfarið á örorkulífeyri er í þeirri stöðu öll sín fullorðinsár vegna fötlunar og / eða alvarlegs heilsubrests sem kemur í veg fyrir alla þátttöku þeirra á vinnumarkaði og hefur því hvorki haft né mun hafa nokkra möguleika til að afla sér hærri tekna en nemur lífeyri en er háður honum um alla framfærslu sína ævilangt. Með lágum lífeyrisgreiðslum er það fólk því dæmt til fátæktar alla sína ævi og þeirrar félagslegu jaðarsetningar sem mjög oft leiðir af fátækt.
 
Þá hefur stór hluti þeirra sem hafa verið á vinnumarkaði en byggja nú afkomu sína á örorku-eða ellilífeyri enga möguleika á að auka þær tekjur sína með þátttöku á vinnumarkaði vegna fötlunar, heilsubrests eða aldurs og þeir sem tilheyra þeim hópi og ekki hafa safnað fé og/eða eignum fyrr á ævinni eru dæmdir til fátæktar ævina á enda ef lífeyrisgreiðslur til þeirrra eru lágar.
 
Þá verður í þessu sambandi að líta til þess að vinnumarkaðurinn er almennt ósveigjanlegur hvað varðar kröfur til vinnuafls og því eiga þeir sem vegna fötlunar eða heilsubrests geta ekki sinnt fullri vinnu eða unnið með sömu afköstum og almennt vinnuafl mjög takmarkaða möguleika til þátttöku á almennum vinnumarkaði.
 
Landssamtökin Þroskahjálp telja því nauðsynlegt, lagalega skylt og siðferðilega rétt að örorku- og ellilífeyrir verði ákvarðaður þannig að hann stuðli að því en komi ekki í veg fyrir að þeir sem eru þeim lífeyri háðir um alla sína framfærslu til lengri tíma litið, s.s. vegna fötlunar, hafi ráð á og möguleika til virkrar þátttöku í samfélaginu án mismununar og aðgreiningar. 
 
Aðeins þannig standa stjórnvöld við lagalegar skuldbindingar sínar um að tryggja því fólki möguleika til sjálfstæðs lífs og „jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi“, eins og mælt er fyrir um í 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
 
Stjórnvöldum ber að ákvarða lífeyri þannig að lagaleg markmið sem þau hafa samþykkt og sett í lögum um málefni fatlaðs fólks um „jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi“ hafi raunverulega þýðingu fyrir lífsgæði og tækifæri fólks sem þau eiga við en séu ekki einungis orð á blaði sem lítið gagnast þeim sem á þurfa að halda þar sem bágur fjárhagur þeirra gerir þeim ókleift að lifa eðlilegu og sjálfstæðu lífi og taka þátt í samfélaginu á jafnræðisgrundvelli.
 
Þá er rétt að vekja sérstaka athygli á því að verði frumvarpið að lögum eins og það liggur fyrir munu u.þ.b. 30% öryrkja fá lífeyri samkvæmt því marki sem sem þar er mælt fyrir um, þ.e. þeir einstaklingar sem njóta heimilisuppbótar, en lífeyrir annarra í þeim hópi mun ekki ná því lágmarki.
 
Með vísan til þess sem að framan er rakið telja Landssamtökin Þroskahjálp að engin lagaleg né siðferðileg rök standi til þess að örorku- og ellilífeyrir sé ákvarðarður þannig að hann verði lægri en lágmarkslaun á vinnumarkaði og þá telja samtökin engin hagfræðileg rök réttlæta 
 
það heldur þar sem verulegur hluti þeirra sem háðir eru lífeyrinum um alla sína framfærslu eiga enga möguleika á að stunda vinnu á almennum vinnumarkaði.
 
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa því fullum stuðningi við frumvarpið. Við erum að sjálfsögðu reiðubúin til að koma á fund nefndarinnar til að skýra betur rök okkar og sjónarmið varðandi þetta mikilvæga mál og svara spurningum nefndarmanna verði eftir því óskað.
 
Virðingarfyllst,
 
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamatakanna Þroskahjálpar.
 
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.