Velferðarnefnd Alþingis.
Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um frumvarp til laga um húsnæðismál, 849. mál.
15. september 2016
Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá ofangreint frumvarp sent til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við velferðarnefnd og Alþingi.
Í 11. gr. frumvarpsins eru ákvæði um helstu verkefni sveitarfélaga á sviði húsnæðismála. Samtökin fagna því að skyldur sveitarfélaga verði betur og skýrar skilgreindar í lögum, m.a. og ekki síst að sveitarfélög skuli gera áætlanir um hvernig þörfum fyrir íbúðarhúsnæði fyrir fatlað fólk verði mætt, sbr. 2. tl. b-liðar 11. gr. frumvarpsins. Mikilvægt er að skýrt verði hvernig eftirliti með þeirri áætlanagerð og framkvæmd þeirra áætlana verður háttað.
Afar brýnt er að sveitarfélög vinni skipulega og markvisst að því að mæta þörf fatlaðs fólks fyrir viðeigandi húsnæði eins og er skylda þeirra að gera samkvæmt lögum. Á því hefur mjög víða verið mikill misbrestur og mjög víða er brýn þörf fyrir húsnæði fyrir fatlað fólk sem hlutaðeigandi sveitarfélög hafa ekki mætt og eru því langir biðlistar eftir því (sjá meðfylgjandi minnisblað). Afar mikilvægt er að unnið verði markvisst að því að mæta umræddri þörf og að hlutaðeigandi stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, standi undir þeim lagaskyldum sem þau bera í því sambandi.
Virðingarfyllst,
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.
Frumvarpið sem umsögnin varðar má lesa hér
Meðfylgjandi:
Minnisblað, dags. 15. september 2016, varðandi reglur um hámarksbiðtíma fatlaðs fólks eftir þjónustu og eftirlit velferðarráðuneytis með framkvæmd þjónustunnar.
Meðfylgjandi minnisblað má lesa hér