Skyldur stjórnvalda.[1]
Heimilið nýtur sérstakrar friðhelgi og verndar samkvæmt íslensku stjórnarskránni og mannréttindasamningum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist. Sá sem ekki á heimili fer á mis við þau mannréttindi. Íslenska stjórnarskráin bannar að fólki sé mismunað á grundvelli fötlunar sem og margir alþjóðlegir mannréttindasamningar sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Jafnræði og jöfn tækifæri fatlaðs fólks er grunnþáttur og meginmarkmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir og ætla að fullgilda og undirbúa nú það með því tryggja að lög, reglur og stjórnsýsluframkvæmd uppfylli kröfur og skilyrði samningsins.
Velferðarnefnd Alþingis.
Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um frumvörp til laga varðandi húsnæðismál (almennar íbúðir, húsnæðisbætur, húsaleigu, húsnæðissamvinnufélög).
Skyldur stjórnvalda.[1]
Heimilið nýtur sérstakrar friðhelgi og verndar samkvæmt íslensku stjórnarskránni og mannréttindasamningum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist. Sá sem ekki á heimili fer á mis við þau mannréttindi. Íslenska stjórnarskráin bannar að fólki sé mismunað á grundvelli fötlunar sem og margir alþjóðlegir mannréttindasamningar sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Jafnræði og jöfn tækifæri fatlaðs fólks er grunnþáttur og meginmarkmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir og ætla að fullgilda og undirbúa nú það með því tryggja að lög, reglur og stjórnsýsluframkvæmd uppfylli kröfur og skilyrði samningsins.
Tækifæri fatlaðs fólks til sjálfstæðs og eðlilegs lífs og sambærilegra lífskjara á við aðra eru augljóslega órjúfanlega tengd möguleikum þess til að eignast eigið heimili.
Þá er augljóst að möguleikar fatlaðs fólks til að eignast eigin heimili eru algjörlega undir því komnir að því bjóðist hentugar íbúðir til leigu eða kaups á verði og kjörum sem það getur ráðið við.
Tekjur og greiðslugeta fatlaðs fólks.
Einstaklingur sem vegna fötlunar á ekki möguleika á að afla sér atvinnutekna hefur nú skv. reiknivél TR um 185 þús. kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur (e. skatt) og rúmar 207 þús. kr. ef hann býr einn. Hafi fatlaður einstaklingur verið í þeirri stöðu frá fæðingu eða barnsaldri eru það, að öðru óbreyttu, þær tekjur sem hann þarf að láta duga fyrir allri framfærslu sinni, þ.m.t. kostnaði vegna leigu eða kaupa á húsnæði, öll sín fullorðinsár.
Ef miðað er við að hlutfall húsnæðiskostnaðar hjá einstaklingi verði ekki hærra en sem nemur 20-25% af ráðstöfunartekjum hans (en ljóst má vera að það hlutfall er mjög íþyngjandi þegar um lágar tekjur er að ræða) þýðir það að fatlaður einstaklingur sem á ekki kost á neinum atvinnutekjum getur að hámarki greitt um 45 þús. kr. á mánuði fyrir húsnæði en um 50 þús. kr. ef hann býr einn, hvort sem um leigu eða kaup er að ræða.
Þá er ekki tekið tillit til þess að fatlað fólk og eðli máls samkvæmt sérstaklega fólk sem vegna fötlunar sinnar hefur litla eða enga atvinnumöguleika, er mjög oft háð aðstoð annarra og/eða sérstökum tækjum og útbúnaði til að geta tekið þátt í ýmsu félags- og menningarlífi, ferðalögum og annarri afþreyingu, eins og það á rétt á og áhersla er lögð á í lögum og mannréttindasamningum. Fatlað fólk þarf því mjög oft að greiða kostnað fyrir aðstoðarfólk svo sem fargjöld og önnur gjöld þegar þau eru tekin fyrir þátttöku af þessu tagi og ferðakostnað og jafnvel laun aðstoðarfólks, s.s. í fríum og ferðalögum. Ef stjórnvöld ætla að standa við skyldur sínar til að gera fötluðu fólki kleift að taka þátt í félags- og menningarlífi og jafnframt að eiga kost á að eignast eigin heimili verða þau að taka tillit til þessa sérstaka kostnaðar, sem fatlað fólk þarf að mæta, þegar þau meta hver greiðslugeta þess er til að leigja eða kaupa húsnæði.
Þá þarf við mat á tekjum og greiðslugetu fatlaðs fólks að taka fullt tillit til skerðingarákvæða í lögum og reglum varðandi almannatryggingar og húsaleigubætur.
Þetta eru þær fjárhagslegu staðreyndir sem stjórnvöld verða að byggja á þegar þau setja lög og reglur varðandi húsnæðismál sem hljóta, m.a. í ljósi markmiðsákvæða laga um málefni fatlaðs fólks og ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að hafa þann tilgang að tryggja fötluðu fólki, án mismununar, raunhæf tækifæri til að hafa sjálfstæða búsetu og eignast eigið heimili með því að leigja eða kaupa íbúð.
Þá skal áréttað að möguleiki fatlaðs fólks til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili í hentugu og sómasamlegu húsnæði er algjör forsenda þess að stjórnvöld standi við þær skyldur að veita fötluðu fólki tækifæri til sjálfstæðs lífs og að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi, eins og segir í markmiðsákvæðum laga um málefni fatlaðs fólks og er meginmarkmið með samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Mat á nauðsynlegu rými og aðstæðum í íbúðum þar sem fatlað fólk býr.
Ýmis tæki og útbúnaður sem er nauðsynlegur fólki vegna fötlunar tekur oft mikið pláss, bæði þegar hann er í notkun sem og þegar hann er geymdur til notkunar síðar. Þá þarf fatlað fólk oft á miklum stuðningi að halda á heimili sínu við athafnir daglegs líf og stundum allan sólarhringinn og þarf þá að gera ráð fyrir rými sem aðstoðarfólk þarf að hafa og til að sofa í eftir atvikum. Við mat á því hver er þörf fatlaðra einstaklinga fyrir rými og aðstæður í íbúðum þar sem þeir búa er því nauðsynlegt að tekið sé fullt tillit til þessa sem og þess viðbótarkostnaðar sem af þessu kann að leiða..
Einnig þarf að taka tillit til atferlis sem getur fylgt tiltekinni fötlun einstaklings þegar metið er hvaða húsnæði hentar honum m.t.t. stærðar, staðsetningar og annarra aðstæðna.
Í þessu samhengi þarf einnig að líta mjög til þess að fatlað fólk dvelst almennt meira á heimilum sínum en þeir sem ófatlaðir eru, ekki síst þegar fötlun er þess eðlis að fólk er háð aðstoð og/eða sérstökum útbúnaði við athafnir daglegs lífs. Það má því fullyrða að lífsgæði fatlaðs fólks séu almennt enn háðari því húsnæði sem það býr í en þegar um ófatlað fólk er að ræða
Lánakjör til íbúðakaupa.
Fatlað fólk, sem hefur enga eða mjög takmarkaða möguleika til að stunda vinnu og afla sér viðbótartekna, ræður ekki eða mjög illa við að greiða af íbúðalánum með þeim kjörum sem nú bjóðast. Ekki er óalgengt að fatlaðir einstaklingar hafi mikinn áhuga á að eignast eigin íbúð og búa sjálfstætt og hafi lagt fyrir til þess, oft með stuðningi aðstandenda, en geti þó ekki fest kaup á íbúð þar sem þeir geta ekki staðið undir greiðslum af íbúðalánum á þeim kjörum sem bjóðast.
Afar brýnt er stjórnvöld finni leiðir til að greiða fyrir möguleikum fatlaðs fólks til að eignast eigið húsnæði með því að gefa því kost á lánakjörum sem það ræður við og er í samræmi við greiðslugetu þess. Má í þessu sambandi t.a.m. benda á leiðir sem farnar hafa verið í Noregi.
http://www.uloba.no/aktuelt/arkiv/Sider/Ny-boligveileder.aspx
Húsnæðismál foreldra fatlaðra barna.
Húsnæði er mjög misjafnlega aðgengilegt og hentugt fyrir fatlað fólk að búa í. Þegar foreldrar eignast fötluð börn eða börn fatlast eða veikjast alvarlega til langs tíma, kemur því mjög oft upp sú staða að það húsnæði sem fólk býr í hentar afar illa og er jafnvel þannig að það er óhjákvæmilegt fyrir fólk að flytjast í annað húsnæði. Þetta er t.a.m. mjög algengt þegar börn eru hreyfihömluð og þurfa að nota hjólastól og þá er augljóst að ýmis tæki og útbúnaður sem fatlað fólk þarf á að halda tekur verulegt pláss og því þarf að vera nægilegt rými í íbúð til notkunar og geymslu.
Við þessar aðstæður lendir fólk því oft í því að húsnæði sem fólk þarf að flytjast í til að mæta þessum þörfum, hvort sem um leigu eða kaup er að ræða, er oft mun dýrara en það húsnæði sem það hefur búið í. Augljóst er að þetta getur sett fólk í afar mikinn vanda og sérstaklega það fólk sem efnalítið er.
Landssamtökin þroskahjálp telja brýnt og mjög mikið réttlætismál að stjórnvöld finni leiðir sem duga og bjóði upp á úrræði sem styðja við fólk við þessar aðstæður til að breyta húsnæði sínu til að laga það að þörfum fatlaðra barna eða til að það geti flust í húsnæði sem hentar. Augljóst er að ef aðstæður eru slæmar að þessu leyti er mjög mikil hætta á að það skerði tækifæri og lífsgæði fatlaðra barna sem í hlut eiga og leiði til mjög aukins álags á fjölskyldur þeirra.
Lokaorð.
Landssamtökin Þroskahjálp reka húsbyggingasjóð til að greiða fyrir möguleikum fatlaðs fólks til að fá hentugt húsnæði og þar með betri möguleika til sjálfstæðs og eðlilegs lífs og eiga u.þ.b. 70 íbúðir á nokkrum stöðum á landinu sem leigðar eru fötluðu fólki í samstarfi við hlutaðeigandi sveitarfélög. Afar mikilvægt er að stjórnvöld stuðli að slíkum framkvæmdum og rekstri með því að tryggja að lög og reglur sem þýðingu hafa í því sambandi séu hagstæðar og skýrar. Samtökin vilja því vekja athygli á að óvissa um lagalegt umhverfi varðandi slíkar framkvæmdir og rekstur getur leitt til að það hægist á framkvæmdum á þessu sviði og hvetur hlutaðeigandi stjórnvöld til að huga sem fyrst að því og finna leiðir til að koma í veg fyrir að það gerist.
Samtökin leggja mikla áherslu á að tryggt verði með lögum og reglum að fólk njóti sérstakra húsaleigubóta og sé ekki mismunað hvað það varðar eftir því hvar það býr. Þá telja samtökin afar brýnt að tryggt verði að sérstakar húsaleigubætur ráðist ekki af því hver er eigandi þess húsnæðis sem leigt er og telja að með því sé fólki mismunað með alvarlegum og ómálefnalegum hætti.
Augljóst er að tækifæri fatlaðs fólks til sjálfstæðs og eðlilegs lífs og sambærilegra lífskjara á við aðra eins og er meginmarkmið í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og í lögum um málefni fatlaðs fólks eru órjúfanlega tengd möguleikum þess til að eignast eigin heimili, með leigu eða kaupum húsnæðis. Einnig er augljóst að það ræðst af því að fötluðu fólki bjóðist hentugar íbúðir til leigu eða kaups á verði og kjörum sem það getur ráðið við miðað við þær tekjur sem það hefur og getur aflað sér.
Landssamtökin Þroskahjálp skora á Alþingi og hlutaðeigandi stjórnvöld að gæta afar vel að þeim skyldum sem þau hafa samkvæmt lögum og mannréttindasamningum til að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi Þegar þau setja lög og reglur á sviði húsnæðismála. Þau lagafrumvörp varðandi húsnæðismál sem nú eru til meðferðar á Alþingi verða að standast þann mælikvarða. Annars brjóta íslensk stjórnvöld gegn markmiðum laga um málefni fatlaðs fólks og ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk sem þau hyggjast fullgilda á næstunni. Raunhæfir möguleika, sérstaklega m.t.t. kostnaðar, tekna og greiðslugetu, til að eignast eigið heimili sem hentar vel þörfum viðkomandi einstaklinga er augljóslega ein mikilvægasta forsenda þess að fatlað fólk fái notið þeirra réttinda og ekki aðeins í orði heldur einnig í verki.
Landsamtökin Þroskahjálp óska eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að skýra frekar sjónarmið sín varðandii húsnæðismál fatlaðs fólks almennt og sérstaklega m.t.t. þeirra lagafrumvarpa sem eru nú til meðferðar á Alþingi og þá áskilja samtökin sé rétt til að senda Alþingi frekari umsagnir og/eða gögn varðandi frumvörpin síðar.
29. janúar 2016,
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.
[1] Í 71. gr. íslensku stjórnarskrárinnar segir:
Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.
Íslenska ríkið hefur skrifað undir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og stjórnvöld undirbúa nú löggildingu samningsins með því að tryggja að lög og reglur og stjórnsýsluframkvæmd uppfylli kröfur og skilyrði hans.
19. gr. samningsins ber yfirskriftina Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu og hljóðar svo:
Aðildarríkin viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og með sömu valkosti og aðrir og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess greiða fyrir þessum rétti fatlaðs fólks og til fullrar þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:
a) að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir,
b) að fatlað fólk hafi aðgang að margs konar félagsþjónustu, s.s. aðstoð inni á heimili og í búsetuúrræðum og öðrum stuðningi til samfélagsþátttöku, meðal annars persónulegan stuðning sem er nauðsynlegur til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma í veg fyrir einangrun þess og aðskilnað frá samfélaginu,
c) að þjónusta á vegum samfélagsins og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þeirra.
1. mgr. 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks hljóðar svo:
Markmið þessara laga er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.