Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017-2021 með áherslu á börn og barnafjölskyldur. (813. mál).

Velferðarnefnd Alþingis.

 Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017-2021 með áherslu á börn og barnafjölskyldur. (813. mál).

 Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá ofangreinda þingsályktunartillögu senda til umsagnar og telja mjög mikilvægt að stjórnvöld setji fjölskyldustefnu eins og þar er lagt til.

Íslenska ríkið undirbýr fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og  þá segir í 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, að við framkvæmd laganna skuli taka mið af samningnum. Með vísan til þessa og skyldna stjórnvalda samkvæmt samningnum til að verja fatlað fólk fyrir mismunun af öllu tagi og til að tryggja að það fái notið heimilis og fjölskyldulífs sem og til að taka sérstaklega tillit til þarfa og aðstæðna fatlaðra barna vilja samtökin koma eftirfarandi á framfæri varðandi einstaka liði tillögunnar.

 C.1. Fræðsla um foreldrahlutverk.

Lagt er til að að tekið verði fram að ef um seinfæra foreldra er að ræða verði fræðslan sniðin að þörfum þeirra.

 Lagt er til að Þroskaþjálfafélagi Íslands verði bætt við samstarfaðila sem tilgreindir eru undir liðnum.

D.2. frístundastarf barna í skólaleyfum.

Lagt er til að mælt verði fyrir um að sérstaklega skuli litið til þarfa og aðstæðna fatlaðra barna og seinfærra foreldra til að tryggja að hlutaðeigandi börn fái notið þessa til jafns við önnur börn.

E.2. Réttindi veikra barna til að njóta umönnunar foreldra.

Afar mikilvægt að við alla framkvæmd verði áherslan á að veita stuðning og þjónustu á heimili hlutaðeigandi barna og eftir atvikum í skólum og forðast verði að binda stuðning og þjónustu við stofnanir.

F.4. Samræmt mat á þjónustuþörf barna með sértækar þarfir.

Mjög mikilvægt er að börn sem í hlut eiga fái strax viðeigandi stuðning óháð því hvort mat eða greining hefur farið fram eða hvort henni er formlega lokið.  Þá er mat og greining lítils virði ef ekki er tryggt að viðeigandi stuðningur fylgi. Fjölskyldustefnan þarf því að tryggja að greiningu fylgi viðeigandi og fullnægjandi stuðningur og án ástæðulauss dráttar.

F.7. Meðgöngu- og ungbarnavernd.

Lagt er til að tekið verði fram að stuðningur skuli, auk þess að vera markviss og einstaklingsmiðaður, vera sérstaklega sniðin að þörfum seinfærra foreldra þegar þeir eiga í hlut.

7. september 2016,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna þroskahjálpar.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna þroskahjálpar.

 

Þingsályktunartillöguna sem ofangreind umsögn á við má skoða hér