Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um fjárlagafrumvarp 2017
Alþingi fól utanríkisráðherra í september sl. að fullgilda fyrir hönd íslenska ríkisins samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fullgilding samningsins þýðir að íslenska ríkið skuldbindur sig til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Þá samþykkti Alþingi jafnframt að valkvæð bókun við samninginn skuli fullgilt af Íslands hálfu á árinu 2017.[1]
Í frétt sem birtist á heimasíðu utanríkisráðuneytisins 13. september sl. í tilefni þess að utanríkisráðherra hafði þann dag mælt fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu samningsins segir m.a.:
„Ég trúi því að fullgilding sé vendipunktur í mikilvægri réttindabaráttu. Hún verði til þess að Alþingi flýti nauðsynlegum breytingum á íslenskri löggjöf, svo fatlað fólk fái notið fullra mannréttinda og frelsis til jafns við aðra,“ sagði utanríkisráðherra.
Við fullgildingu verður hægt að ýta úr vör verkefnum tengdum vitundarvakningu, þjálfun og fræðslu. Þá kveður eftirlitskerfi samningsins á um skýrslugjöf til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna en það er mikilvægur spegill á störf stjórnvalda og vettvangur fyrir réttindabaráttu fatlaðs fólks. Við fullgildingu samningsins virkjast þetta eftirlitskerfi. Loks er það viðvarandi verkefni stjórnvalda að þróa og útfæra réttindin sem samningurinn kveður á um, óháð einstaka lagabreytingum.[2] (Undirstr. LÞ)
Í frétt sem birtist á heimasíðu innanríkisráðuneytisins 14. september sl. var greint frá því að innanríkisráðherra hefði kynnt stöðu fullgildingar samningsins á ríkisstjórnarfundi. Í fréttinni sagði m.a.:
Óumdeilt er að fullgilding samningsins mun marka mikilvægan áfanga í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Þá er stór hluti þeirra skyldna sem lagðar eru á ríki samkvæmt samningnum í formi aðgerða sem ekki eru háðar lagabreytingum. Má þar nefna vitundarvakningu, þjálfun og fræðslu. Við fullgildingu verður hægt að hefja fjölda verkefna á þeim sviðum sem annars munu bíða. Þá kveður eftirlitskerfi samningsins á um starfsemi nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna og skýrslugjöf til hennar um framkvæmd samningsins sem er mikilvægur spegill á störf stjórnvalda og mikilvægur vettvangur fyrir réttindabaráttu fatlaðs fólks. Við fullgildingu samningsins virkjast þetta eftirlitskerfi. Loks er það viðvarandi verkefni stjórnvalda að þróa og útfæra réttindin sem samningurinn kveður á um, óháð einstaka lagabreytingum.[3] (Undirstr. LÞ)
Í frétt sem birtist á heimasíðu utanríkisráðuneytisins 20. september sl. var greint frá því að Alþingi hefði þann dag samþykkt samhljóða þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um fullgildingu samningsins. Í fréttinni segir m.a.:
„Þetta er mikill áfangi í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Ég er þess fullviss að þessi samþykkt hvetur okkur enn frekar til góðra verka og til þess að ýta á breytingar á íslenskri löggjöf, svo fatlað fólk njóti fullra mannréttinda,“ sagði utanríkisráðherra. Við fullgildingu verður hægt að hefja verkefni tengd vitundarvakningu, þjálfun og fræðslu. Þá kveður eftirlitskerfi samningsins á um skýrslugjöf til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna en það er mikilvægur spegill á störf stjórnvalda og vettvangur fyrir réttindabaráttu fatlaðs fólks. Við fullgildingu samningsins virkjast þetta eftirlitskerfi. Loks er það viðvarandi verkefni stjórnvalda að þróa og útfæra réttindin sem samningurinn kveður á um, óháð einstaka lagabreytingum.[4] (Undirstr. LÞ)
Í 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk[5], sem ber yfirskriftina Almennar skuldbindingar, er kveðið á um ýmsar mikilvægar skyldur sem ríki sem fullgilda samninginn hafa til að gera margvíslegar ráðstafanir til að tryggt verði að fatlað fólk fái öll þau réttindi og alla þá vernd sem samningurinn mælir fyrir um.[6]
Þegar litið er til þeirra skyldna sem íslenska ríkið hefur tekið á sig með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindii fatlaðs fólks, framangreindra frétta á heimasíðum innaríkis- og utanríkisráðuneytis og tilvitnaðra orða ráðherra utanríkis- og innanríkismála um verkefni og aðgerðir sem hafin verði til að hrinda ákvæðum samningsins í framkvæmd hlýtur að vekja furðu og vonbrigði að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 skuli ekki gert ráð fyrir sérstökum fjárveitingum til þeirra verkefna og aðgerða.
Samkvæmt frumvarpinu virðist hins vegar vera gert ráð fyrir „hagræðingu“ sem nemur 2,9% í málaflokki fatlaðs fólks. Það er augljóslega algjörlega óraunhæft og stangast bersýnilega á við framangreindar skyldur stjórnvalda og yfirlýsingar ráðherra. Þá liggur fyrir að sveitarfélög sem fara lögum samkvæmt með framkvæmd þjónustu við fatlað fólk geta ekki uppfyllt ýmsar skyldur sínar þar að lútandi samkvæmt lögum og samningi Sameinuðu þjóðanna og bera fyrir sig að þau skorti til þess.
Þá vilja Landssamtökin Þroskahjálp sérstaklega benda á eftirfarandi atriði m.t.t. fyrir liggjandi fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017.
- Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
Starfshópur sem félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði hefur gert tillögu til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þessi drög eru til kynningar á heimasíðu ráðuneytisins.[7] Þessi framkvæmdaáætlun hefur ekki verið kostnaðargreind að fullu en gera má ráð fyrir því að umtalsvert meiri fjármuni þurfi til að koma henni í framkvæmd en ráð er fyrir gert í fjárlögum.
- Sjálfstæð mannréttindastofnun.
Í frétt á heimasíðu innanríkisráðuneytisins sem birtist 8. júlí sl. kemur fram að ráðuneytið hafi unnið drög að lagafrumvarpi um sjálfstæða mannréttindastofnun og eru þau birt með fréttinni á heimasíðunni til umsagnar.[8] Í fréttinni segir að frumvarpið feli í sér að stofnuð verði sjálfstæð og þjóðbundin mannréttindastofnun sem starfi á vegum Alþingis (e. National Human Rights Institution) og að meginhlutverk hennar yrði að efla og vernda mannréttindi hér á landi eins og þau eru skilgreind í stjórnarskrá, lögum, alþjóðasamningum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum.
Þá segir í fréttinni að í frumvarpinu sé „kveðið á um að komið verði á fót stofnun sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í Parísarviðmiðunum frá árinu 1993. Frumvarpið er mikilvægur liður í því að stjórnvöld geti fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“ (Undirstr. LÞ)
Ekki verður séð að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir fé til að uppfylla þá skyldu sem íslenska ríkið hefur með fullgildingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks tekið á sig til að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun, eins og réttilega segir í tilvitnaðri frétt á heimasíðu innanríkisráðuneytisins. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar með mannréttindum hafa oft gert gert athugasemdir við að ekki sé til sjálfstæð mannréttindastofnun á Íslandi og hafa ítrekað og eindregið hvatt íslensk stjórnvöld til að bæta úr því. Það gerði m.a. mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins þegar hann heimsótti Ísland sl. sumar.[9]
- Endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði starfshóp til þess að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. „Tilefni endurskoðunarinnar er meðal annars innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks“, eins og segir í frétt á heimasíðu velferðarráðuneytisins þar sem drög að frumvörpum að lögum laga um þjónustu við fatlað fólk með sérstakar þjónustuþarfir og um breytingar á lögum um félagsþjónsutu sveitarfélaga voru kynnt í júlí sl.[10] Breytingar á íslenskri löggjöf sem gert er ráð fyrir í frumvörpunum eru því að mati félags- og húsnæðismálaráðuneytis m.a. nauðsynlegar til að standa við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hefur nú verið fullgiltur.
Ekki verður sé að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir nauðsynlegu fé til að hrinda þeim til ákvæðum í framkvæmd sem mælt er fyrir um í frumvarpsdrögunum og íslenska ríkinu er skylt að setja í lög og framfylgja samkvæmt samningi SÞ.
- Sérfræðiþjónusta fyrir fullorðið fólk (18 ára og eldri) með þroskahömlun, einhverfu og hreyfihömlun.
Ekki verður séð að í fjárlögafrumvarpinu sé gert ráð fyrir fé til að koma á fullnægjandi sérfræðiþjónustu fyrir fullorðið fólk (18 ára og eldri) með þroskahömlun, einhverfu og hreyfihömlun. Nú veitir Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins (GRR) þessa þjónustu fyrir börn en brýn þörf er á þessari sérfræðiþónustu fyrir fullorðið fólk. Það má gera hvort heldur sem er með því að útvíkka starfsemi GRR eða með því að stofna sérhæfða þjónustumiðstöð á sviði heibrigðis- og félagsþjónustu sem fengi m.a. það hlutverk að sjá fyrir þessari þjónustu. Rétt er í þessu sambandi að benda á að nú þegar starfa stofnanir sem veita fólki (bæði börnum og fullorðnum) sérfræðiþjónustu vegna heyrnarskerðinga og vegna sjónskerðinga og er því augljóslega verið að mismuna fólki eftir því hvers konar fötlun um er að ræða.
- Samskiptamiðstöð heyrnarlausra.
Ekki verður séð í fjárlagafrumvarpinu að gert sé ráð fyrir auknu fé til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra sem hefur það hlutverk að sjá fólki sem á þarf að halda fyrri táknmálstúlkun. Í því sambandi er nauðsynlegt að líta til þess að íslenskt táknmál hefur verið viðurkennt með lögum og mælt fyrir um það að stjórnvöld skuli „hlúa að því og styðja“, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og að samningur Sameinuðu þjóðaanna hefur verið fullgiltur. Í 9. gr. samningsins sem ber fyrirsögnina Aðgengi er lögð mikil áhersla á að tryggja fötluðu fólki möguleika til virkrar þátttöku í samfélaginu og samskipta við annað fólk og til aðgangs að upplýsingum og skyldur ríkja til að gera ýmsar raðstafanir í því skyni.[11] Táknmálstúlkun er augljóslega afar mikilvægur þáttur í því.
- Greiðsluþátttaka sjúkartryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.
Samtökin vísa á umsögn sína til velferðarráðuneytis frá 19. desember sl. um drög að reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkartryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Samtökin telja nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á þeim reglum til að tryggt verði að fatlað fólk sem vegna fötlunar sinnar hefur oft mikla þörf fyrir heilbrigðisþjónustu en takmarkaða möguleika til að afla sér atvinnutekna og þarf því að láta örorkubætur duga fyrir öllum útgjöldum sínum, verði ekki mismunað alvarlega hvað varðar aðgang að heilbrigðisþjónustu. Slík mismunun er mjög alvarlegt mannréttindabrot í skilningi samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og margra annarra fjölþjóðlegra mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja.
Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkartryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu má nálgast á þessum hlekk:
http://www.throskahjalp.is/is/alit-og-umsagnir/umsogn-landssamtakanna-throskahjalpar-um-drog-ad-reglugerd-um-greidsluthatttoku-sjukartryggdra-i-kostnadi-vegna-heilbrigdisthjonustu
Reykjavík, 20. desember 2016.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri.
[1] Ekki verður séð að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir kostnaði sem fylgir því að hrinda þeirri ályktun Alþingis í framkvæmd.
[2] https://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/maelt-fyrir-fullgildingu-samnings-um-rettindi-fatlads-folks
[3] https://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/thingsalyktunartillaga-um-fullgildingu-samnings-sth-um-rettindi-fatlads-folks-logd-fyrir-althingi
[4] https://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/fullgilding-samnings-sth-um-rettindi-fatlads-folks-samthykkt-samhljoda-a-althingi
[5] https://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2013/CRPD-islensk-thyding---lokaskjal.pdf
[6] Greinin hljóðar svo:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að innleiða þau réttindi, sem eru viðurkennd með samningi þessum,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanir,
d) að láta hjá líða að aðhafast nokkuð það sem fer í bága við samning þennan og sjá til þess að opinber yfirvöld og stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans,
e) að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að útrýma mismunun vegna fötlunar af hálfu einstaklings, stofnunar eða einkaaðila,
f) að framkvæma eða efla rannsóknir og þróun á vörum, þjónustu, tækjum og aðstöðu með algildri hönnun skv. 2. gr. samnings þessa og breyta þarf sem allra minnst og með sem minnstum tilkostnaði til þess að mæta sérþörfum fatlaðs fólks, að auka framboð á þeim og notkun og ýta undir algilda hönnun þegar móta á staðla og leiðbeiningar,
g) að framkvæma eða efla rannsóknir og þróun á nýrri tækni, og sjá til þess að hún sé tiltæk og notuð, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og hjálpartæki, sem henta fötluðu fólki, með áherslu á tækni á viðráðanlegu verði,
h) að láta fötluðu fólki í té aðgengilegar upplýsingar um hjálpartæki, þar með talið nýja tækni, og um annars konar aðstoð, stoðþjónustu og aðstöðu,að auka þekkingu fagfólks og starfsfólks, sem vinna með fötluðu fólki, á þeim réttindum sem eru viðurkennd með samningi þessum til þess að unnt sé að betrumbæta þá aðstoð og þjónustu sem þau réttindi tryggja.
2. Að því er varðar efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi skuldbindur sérhvert aðildarríki sig til þess að gera ráðstafanir, eins og efni þess frekast leyfa og með þátttöku í alþjóðasamstarfi, eftir því sem þörf krefur, í því skyni að fyrrnefnd réttindi verði í einu og öllu virk í áföngum með fyrirvara um þær skuldbindingar samkvæmt samningi þessum sem gilda þegar í stað samkvæmt reglum þjóðaréttar.
3. Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu við að innleiða samning þennan og vinna að því að taka ákvarðanir um stöðu fatlaðs fólks skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar með talið fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
4. Ekkert í samningi þessum hefur áhrif á ákvæði sem stuðla frekar að því að réttindi fatlaðs fólks verði að veruleika og lög aðildarríkis eða reglur þjóðaréttar, sem gilda gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki, kunna að innihalda. Eigi skal takmarka eða víkja frá nokkrum mannréttindum og grundvallarfrelsi, sem eru viðurkennd eða gilda í aðildarríki að samningi þessum samkvæmt lögum, samningum, reglum eða venju, undir því yfirskini að slík réttindi eða frelsi sé ekki viðurkennt eða viðurkennt í minna mæli samkvæmt samningi þessum.
[7] https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/drog-ad-tillogu-til-thingsalyktunar-um-stefnu-og-framkvaemdaaaetlun-i-malefnum-fatlads-folks-til-umsagnar
[8] https://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/frumvarp-um-sjalfstaeda-mannrettindastofnun
[9] http://www.ruv.is/frett/islendingar-eftirbatar-i-mannrettindamalum
[10] https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/frumvarpsdrog-vardandi-malefni-fatlads-folks-og-felagsthjonusta-sveitarfelaga-til-umsagnar
[11] Greinin hljóðar svo:
1. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem veitt er almenningi, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til:
a) bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða,
b) upplýsinga- og samskiptaþjónustu og annarrar þjónustu, þar með talið rafrænnar þjónustu og neyðarþjónustu.
2. Samningsaðilar skulu og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að: a) þróa, útbreiða og fylgjast með því að lágmarkskröfur verði innleiddarog leiðbeiningar um aðgengi að aðstöðu og þjónustu, sem veitt er almenningi, séu uppfylltar,
b) tryggja að einkaaðilar, sem bjóða fram aðstöðu og þjónustu, sem veitt er almenningi, taki mið af hvers kyns aðgengi fyrir fatlað fólk,
c) tryggja fræðslu fyrir hagsmunaaðila um aðgengismál sem varða fatlað fólk,
d) tryggja að í byggingum og annarri aðstöðu, sem er almenningi opin, séu skilti með blindraletri og skilti á auðlesnu máli sett fram á þann hátt að þau séu auðlæsileg og auðskiljanleg fötluðu fólki,
e) láta í té ýmiss konar beina aðstoð og þjónustu milliliða, þar með talið fylgdarmanna, lesara og faglærðra táknmálstúlka, með það að markmiði að auðvelda aðgengi að byggingum og annarri aðstöðu sem almenningi er opin,
f) auka við að fatlað fólk fái notið annars konar viðeigandi aðstoðar og þjónustu sem tryggir því aðgang að upplýsingum,
g) auka við aðgang fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og kerfum þar að lútandi, meðal annars Netinu,
h) efla hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og kerfa þar að lútandi frá upphafi til þess að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.